Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:48:00 (1320)

1999-11-11 16:48:00# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að hér er á ferðinni stórmál. Ég vil líka taka undir það að samþykkt þessara frumvarpa gæti verið afdrifarík fyrir fjölda fólks. En þar sleppir því að við séum sammála.

Það væri afdrifaríkt fyrir fólk sem hefur ánetjast þessari fíkn að losna við slíkar vítisvélar úr umhverfi sínu. Að sjálfsögðu væri það líka afdrifaríkt fyrir þær stofnanir og samtök sem eru háð peningum frá þessu ógæfufólki. En ekki er þar með sagt að höggva eigi á þessa tekjulind.

Hv. þm. segir að sýndarmennsku gæti í frv. og í þessum málatilbúnaði. Samkvæmt frv. ætti þau að taka gildi eftir fáeina mánuði, núna um áramótin, og þetta sé sýndarmennska. Það eigi eftir að senda frv. til umsagnar um allt þjóðfélagið og það taki sinn tíma.

Það hefur verið gert, ég er með bunkann hérna. Þessi frv. hafa tvisvar komið til kasta Alþingis. Stjórnarmeirihlutinn hefur séð til þess að þau hafa kafnað þar, því miður. Reyndar er rangt hjá mér að tala um þetta mál á forsendum stjórnar og stjórnarandstöðu, mig langar til að taka það aftur, því þetta er þverpólitískt mál og kemur fram í því að flm. úr öllum þingflokkum standa að þessu máli. En þetta er ekki sýndarmennska. Það er dauðans alvara að baki þessum frv. og við getum þess í grg. með þeim að við teljum mikilvægt að afla þessum stofnunum, Háskóla Íslands og þessum þjóðþrifastofnunum annarra tekjustofna. En sönnunarbyrðin hvílir ekki á okkur og fyrst á að ráðast í þessa lagabreytingu, gerum hitt en samhliða.