Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:54:34 (1323)

1999-11-11 16:54:34# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:54]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af síðustu spurningunni þá er henni fljótsvarað. Ég er tilbúinn til að velta þeim hlutum fyrir mér bæði með flm. og öðrum þeim sem vilja leggja í þá vinnu. Ég tel hins vegar að það sé forsendan fyrir því að hægt sé að hrófla við tekjustofnum þessara samtaka, að við séum búin að finna þeim nýjan tekjugrundvöll.

Við skulum bara átta okkur á því hvað það hefði í för með sér að svipta þau samtök og stofnanir tekjugrundvelli sínum og láta þau svífa um í óvissunni langt fram á næsta ár án þess að finna lausn á vanda þeirra. Ég tel að við þurfum að ræða þetta mál á þeim nótum. Ef mönnum finnst það siðferðilega óásættanlegt, óviðunandi að þessi starfsemi sé til staðar í landinu þá er það auðvitað verkefni fyrir okkur að bregðast við því.

En þá þurfum við líka að velta þessum hlutum fyrir okkur í víðara samhengi alveg eins og ég var að reyna að gera hér áðan, og þær spurningar koma upp: Er það verjandi fyrir ríkissjóð að fjármagna heilbrigðiskerfið og skólakerfið með sölu áfengis og tóbaks? Er það verjandi fyrir íþróttastarfsemi í landinu að fjármagna sig með Lóttói sem líka felur í sér ákveðinn spilafíknarhvata? Mér fannst nú bréf frá ÍSÍ fyrst og fremst lýsa ákveðnum tvískinnungi. Þetta var bréf frá samkeppnisaðila sem gerði sér grein fyrir því að þessir söfnunarkassar tækju peninga frá Lottóinu. Mér fannst dálítið af tvískinnungi í bréfi ÍSÍ því að auðvitað er Lottó-starfsemi og happdrættisstarfsemi knúin áfram af voninni um að fá stóra vinninginn, voninni um að verða heppinn alveg eins og í spilavítum, spilakössum og hvað þetta allt heitir.