Úttekt á stöðu safna á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 17:09:48 (1327)

1999-11-11 17:09:48# 125. lþ. 23.11 fundur 159. mál: #A úttekt á stöðu safna á landsbyggðinni# þál., Flm. GÓ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Flm. (Gunnar Ólafsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. þar sem óskað er eftir því að hæstv. menntmrh. láti gera óháða úttekt á stöðu byggðasafna, minni safna og sérsafna á landsbyggðinni. Í þeirri úttekt komi m.a. fram:

a. hvaða vinnu þarf að inna af hendi í hverju safni fyrir sig til að viðkomandi safn uppfylli skilyrði þjóðminjaráðs fyrir styrkveitingum skv. 6. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989,

b. núverandi fjöldi stöðugilda í viðkomandi söfnum í heild og sundurliðað eftir söfnum,

c. fjöldi gesta og dreifing þeirra eftir mánuðum,

d. hvernig einstök söfn eru í stakk búin til að vinna með ferðaþjónustuaðilum á viðkomandi svæði að atvinnuskapandi verkefnum, svo sem með því að setja upp vandaðar sýningar sem tengjast sögu byggðarlagsins og hvaða verkefni af því tagi eru í undirbúningi eða komin til framkvæmda.

Jafnframt er óskað eftir því að hæstv. ráðherra leggi niðurstöður úttektarinnar og tillögur fyrir Alþingi í formi skýrslu fyrir árslok 2000.

Herra forseti. Í landinu starfar fjöldi safna sem öll hafa það að markmiði að varðveita muni og minjar úr sögu þjóðarinnar og hafa þá til sýnis gestum til fróðleiks og yndisauka. Rekstrarform þessara safna er mjög margvíslegt. Sum þeirra starfa samkvæmt þjóðminjalögum eða samkvæmt reglugerð sem menntamálaráðherra setur. Önnur eru einkaframtak framsýnna eldhuga sem haldið hafa til haga munum úr sinni sveit í áranna rás og sýnt þá almenningi. Sum þessara safna hafa hlotið viðurkenningu þjóðminjaráðs, önnur ekki. Sum eru kannski ekki söfn í eiginlegri merkingu þess orðs heldur verða fremur skilgreind sem ,,sýning`` eða ,,verkefni`` á sviði minjaverndar eða skráningar menningarsögu og má þar nefna sýninguna ,,Á Njáluslóð`` og uppbyggingu bæjarhúsanna að Stöng í Þjórsárdal.

Hlutverk byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar um menningarsögu þjóðarinnar og kynna þær almenningi. Byggða- og minjasöfn hafa lagt sérstaka áherslu á söfnun og sýningu muna sem telja má einkennandi eða hafa sögulegt gildi fyrir viðkomandi byggðarlag eða landsfjórðung. Söfnin hafa einnig eftir megni kynnt skólabörnum menningarsögu þá sem fólgin er í munum safnanna í samráði við skóla og fræðsluyfirvöld. Þá hafa þau kynnt almenningi muni safnsins auk þess sem mörg þeirra reka ýmiss konar þjónustu fyrir ferðamenn.

Herra forseti. Áhugaverð og vel skipulögð söfn hafa mikið aðdráttarafl og geta nýst byggðunum vel, t.d. geta þau dregið að ferðamenn með þeim margfeldisáhrifum sem þeim fylgja, styrkt jákvæða ímynd byggðarlaganna og eflt menningarlíf þeirra. Góð söfn geta líka verið mikilvæg tæki til að skapa atvinnu fyrir unglinga yfir sumartímann og er ekki síst mikilvægt frá byggðarsjónarmiði að bjóða ungu námsfólki upp á fjölbreytta sumarvinnu í heimabyggð. Verkefni af því tagi sem hér um ræðir gæti verið skráning ljósmyndasafns bæjarfélags eða sveitar þar sem ungmenni önnuðust skráningu ljósmynda í samvinnu við eldri íbúa staðarins. Þá mætti líka nefna möguleg samstarfsverkefni ungmenna og eldri íbúa staðarins, undir handleiðslu safnsins og leikfélagsins á staðnum þar sem leiksýningar sem byggðust á sögu byggðarlagsins væru settar á svið.

Dæmi um þau jákvæðu áhrif sem gott safn getur haft er Vesturfarasetrið á Hofsósi. Tilvist þess hefur orðið til þess að farið er að tala um ,,ferðamannabæinn`` Hofsós, en þorpið átti í miklum erfiðleikum fyrir nokkrum árum vegna fólksfækkunar og erfiðs atvinnuástands. Núna er rekin þar margháttuð þjónusta við ferðamenn og Hofsós er orðinn eftirsóttur viðkomustaður.

Herra forseti. Athyglisvert dæmi um hverju svona úttekt getur skilað má finna í greinargerð Sögusmiðjunnar um Stríðsárasafnið á Reyðarfirði. Þar er farið ofan í saumana á stöðu safnsins eins og hún var sumarið 1999 og lögð fram framkvæmdaáætlun fyrir árin 1999--2002. Í greinargerðinni kemur fram að ýmislegt á sýningu Stríðsárasafnsins er til fyrirmyndar og mjög vel heppnað, t.d. ljósmyndavinna, leikmyndir, gínuuppstillingar og markviss notkun tónlistar og morshljóða. Annað er talið síðra, t.d. er sagt skorta mjög á textavinnu og þýðingar þrátt fyrir að heilmikla fræðilega grunnvinnu sé að finna á safninu. Einnig er bent á að allt skipulag og uppsetning gripanna fullnægi tæpast kröfum sem gerðar eru til sýninga í dag, geymslumál eru sögð í ólestri, starfsmannahald tilviljanakennt og umhverfi safnsins ófullnægjandi. Þá vantar verulega upp á möguleika til forvörslu, rannsóknarstarfs og kynningarmála.

Þessi úttekt leiðir glögglega í ljós hvað gera þurfi til að Stríðsárasafnið á Reyðarfirði fái vaxið og dafnað og geti þannig orðið sú lyftistöng í samfélaginu sem safn af þessu tagi getur verið.

[17:15]

Vegna þess að skilyrði sem sérsöfn og byggðasöfn þurfa að uppfylla eru sett af þjóðminjaráði og Þjóðminjasafnið fer með framkvæmd þessara mála telja flutningsmenn tillögunnar rétt að fengnir verði utanaðkomandi fagaðilar til að vinna úttektina en þeir starfi að sjálfsögðu í góðu samstarfi við viðkomandi stofnanir að verkefninu.

Yfirgripsmikil úttekt, sem sýnir stöðu ólíkra safna á landsbyggðinni, gæti orðið efniviður í stefnumörkun þeirra til framtíðar og kortlagt hvernig væri vænlegt að styðja við bakið á þessari þjóðþrifastarfsemi. Í ljósi þeirrar áherslu sem ferðaþjónustan leggur nú á menningartengda ferðaþjónustu væri hér um að ræða áþreifanlega lyftistöng fámennra byggðarlaga sem auðgað gæti atvinnulíf og bætt möguleika þeirra á að þjónusta ferðamenn, innlenda sem erlenda, auk þess sem samfélagið sjálft mundi auðgast við eflingu safnanna.

Að svo mæltu óska ég þess að tillögunni verði vísað til hv. menntmn.