Úttekt á stöðu safna á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 17:16:14 (1328)

1999-11-11 17:16:14# 125. lþ. 23.11 fundur 159. mál: #A úttekt á stöðu safna á landsbyggðinni# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir mikilvægi þessarar þáltill., sérstaklega út frá starfsemi sem mér er kærkomin vegna margra ára starfs við hana og það er túrismi. Ferðamannaþjónustan hefur lengi kallað á meiri samhæfingu hvað varðar söfn og sýningu á gripum. Ég held að út úr svona úttekt gæti komið nokkurs konar heildaryfirlit yfir það sem er í boði í landinu öllu og ótrúlega margir, bæði útlendingar og íslenskir ferðamenn, hafa einmitt áhuga á þessum geira. Það hefur margsinnis komið fram hjá hagsmunaaðilum þannig að ég tel að þetta sé mikilvægt mál vegna þess. En eins og kom fram hjá framsögumanni eru auðvitað margir aðrir vinklar á málinu svo sem menntageirinn o.s.frv. Ég vil líka vekja athygli á því, eins og fram kom hjá málshefjanda, að uppbygging og framgangur safnamála hefur hvílt allt of mikið á frumkvöðlum, sérstaklega út um landsbyggðina, og við höfum ekki lagt til þessa málaflokks fjármuni af eins miklum metnaði og efni hafa staðið til. Þar af leiðandi eiga svæðisbundin söfn oft og tíðum við mikla fjárhagserfiðleika að stríða og geta engan veginn sinnt þeim verkefnum sem menn vildu þó sinna.

Í framsögunni voru nefndar ljósmyndir og aðrar menningargersemar. En það er annar málaflokkur. Söfn eru ekki bara söfn í húsum þar sem munum er safnað saman. Í ferðaþjónustunni er mjög mikil áhersla lögð á það, og þar gætum við eflaust tekið frændur okkar Dani til fyrirmyndar, að út frá hverju safni, svæðisbundið, sé lögð áhersla á að merkja og gera minjar sem eru úti í landinu sjálfu aðgengilegar. Þannig er ferðamennska, upplifun lands og þjóðar og þjóðarverðmæti, gerð miklu meira spennandi, þ.e. ef það er tekið fyrir þar sem það er, úti í ,,felti``. Það er einmitt mál sem við þurfum að sinna í auknum mæli. Þannig gerum við afþreyinguna sýnilegri og skemmtilegri og einmitt þar þurfum við að taka á í þessum málum.

Tillagan byggir á því að fá heildaryfirsýn og út úr heildaryfirsýn koma tillögur til úrbóta og framtíðarsýn í þessum málaflokki. Ég tel að við eigum að styðja hana af heilum hug á hinu háa Alþingi.