Öryggi greiðslufyrirmæla

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 10:31:20 (1329)

1999-11-12 10:31:20# 125. lþ. 24.7 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[10:31]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslujöfnuðar í greiðslukerfum.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál, sent það til umsagnar og fengið á sinn fund fulltrúa ráðuneytisins. Um það er allþokkaleg samstaða hjá þeim aðilum sem það varðar. Það skiptir miklu að afgreiða málið. Það fjallar um réttarstöðu og öryggi í greiðslukerfum og er nauðsynlegt til að bregðast við þeirri tækni sem er að ryðja sér til rúms á þessum sviðum. Frv. er líka samið með hliðsjón af gildandi tilskipun í Evrópusambandinu.

Nefndin gerir tillögur um breytingar sem eru í fimm liðum:

Í 1. lið er brtt. við 1. gr. þar sem verið er að breyta orðalagi.

Í 2. lið eru brtt. við 2. gr. þar sem sömuleiðis er verið að breyta orðalagi en auk þess að fella niður tvær skilgreiningar í 13. og 14. tölul. Þessar skilgreiningar eru á stórgreiðslukerfi og greiðslujöfnunarkerfi.

Í 3. lið brtt. er verið að gera tillögu til breytingar á 3. gr. og má segja að það séu líka orðalagsbreytingar þar sem málið snýst um að ráðherra eigi að viðurkenna greiðslukerfi og síðan eigi að tilkynna um þá viðurkenningu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Enn fremur er gert ráð fyrir því að Seðlabankanum séu gefnar upplýsingar um aðila sem starfrækja greiðslukerfi og beina og óbeina þátttakendur að því kerfi enda á Seðlabankinn að gera tillögu til ráðherra um greiðslukerfi sem hann telur að fullnægi ákvæðum laga þessara og eiga að hljóta viðurkenningu.

Í 4. lið brtt. er síðan gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laganna og í 5. lið er gert ráð fyrir að breyta fyrirsögn frv. eins og segir í brtt.