Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:47:03 (1345)

1999-11-12 11:47:03# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hér hafi farið fram að mörgu leyti ágæt umræða og mættu umræður kannski oftar vera á þessum nótum á hinu háa Alþingi. En mér fannst örla á þeim misskilningi í ræðu hv. þm. að þessi umræða snerist um það hvort flytja ætti ríkisstofnanir út á land eða ekki. Hún snýst ekki um það. Hún snýst um það hver eigi að taka þessa ákvörðun. Á Alþingi að taka þessa ákvörðun eða á ráðherra að taka þessa ákvörðun?

Hv. þm. greindi frá því að það væri niðurstaða hans að ráðherra ætti að taka þessa ákvörðun en hann færði ekki góð og gild rök fyrir því. En væntanlega eru þetta þá léttvægari ákvarðanir eða hvað, sem gera það að verkum að þetta vald eigi að vera hjá ráðherra en ekki Alþingi. Ég held að það væri ágætt, virðulegi forseti, að hann skýrði það ögn betur í máli sínu.