Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 11:49:25 (1347)

1999-11-12 11:49:25# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[11:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. ,,Það er ótrúlega langt seilst``, segir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, ,,ef ráðherra má ekki ákveða að flytja ríkisstofnanir til ef honum býður svo við að horfa, ótrúlega langt seilst.`` Ekki fannst starfsfólki Landmælinga það ótrúlega langt seilst. Því fannst það ekki. Auðvitað snýst þetta um tilefnið og hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér fyrir skattgreiðandann, fyrir notandann og fyrir starfsfólkið. Að sjálfsögðu snýst það um þetta.

Þegar hæstv. fyrrv. ráðherra, Guðmundur Bjarnason, svaraði starfsfólkinu því til þegar það reiddi fram rökin, að því nánast kæmi það ekki við vegna þess að þetta væri pólitísk ákvörðun, þá köllum við það geðþóttavald. Þá leyfum við okkur að gera það. Við viljum að stjórnmálamenn þurfi að standa ábyrgir gerða sinna og orða sinna og það eiga þeir að gera í þessum sal á Alþingi Íslendinga. Nú erum við að fjalla um lagafrv. sem ætlar að svipta þingið möguleikum á slíkri lýðræðislegri umræðu.