Textun íslensks sjónvarpsefnis

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:44:44 (1372)

1999-11-12 12:44:44# 125. lþ. 24.10 fundur 141. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:44]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í örfáum orðum taka undir með þeim sem hafa talað um þetta mál. Ég tel afar mikilvægt að þetta verði gert. Ég tek undir það sem hv. 1. flm. sagði hér áðan. Það virðist vera afskaplega lítið vandamál að taka upp þessa textun ekki síst á fréttum sem eru afar mikilvægur þáttur í lífi fólks.

[12:45]

Ég vil sérstaklega nefna að gömlu fólki sem er að missa heyrn líður afskaplega illa. Ég hef orðið var við viðbrögð vegna þessarar þáltill. því að það hefur komist í fréttir að hún hafi verið lögð fram. Það hefur komið fram að þegar fólk á efri árum er að missa heyrn er afskaplega erfitt að fylgjast með. Menn hafa þá helst blöðin til að lesa en geta ekki fylgst með í fjölmiðlum. Fyrir þá sem eru að missa heyrn er erfitt að fylgjast með í útvarpi og margir aldraðir eiga erfitt með að nýta sér heyrnartæki.

Nú hafa sjónvarpsstöðvarnar fjölgað fréttatímum. Fréttatímar eru orðnir allan daginn í sjónvarpi og möguleikar aldraðra sem hafa þokkalega sjón til þess að fylgjast með fréttum mundu þess vegna stórbreytast ef fréttirnar yrðu textaðar. Þarna er hópur sem mundi klárlega eiga algerlega nýja veröld fram undan hvað það varðar að fylgjast með í þjóðfélaginu.

Ég vil taka undir það sem hefur komið fram í umræðunni að öðru leyti og hvetja til þess að þetta mál fái skjóta afgreiðslu.