Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:47:22 (1373)

1999-11-12 12:47:22# 125. lþ. 24.9 fundur 80. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:47]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir um breytingu á þingsköpum Alþingis flyt ég ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og Lúðvíki Bergvinssyni en efni þessa frv. er að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Efni frv. er að nefndir þingsins fái mjög víðtækt vald til þess að hafa frumkvæði að því að taka upp mál og rannsaka sérstaklega. Í lagatextanum er um það getið að sérstaklega er átt við framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varða:

,,Telji nefnd ríkar ástæður til er henni heimilt að eigin frumkvæði að efna til sérstakrar rannsóknar um mál, sbr. 1. mgr., sem fram fari fyrir opnum tjöldum, nema nefndin ákveði annað. Hún hefur þá rétt til að krefjast nauðsynlegra gagna um málið og heimta skýrslur, munnlegar og skriflegar, af embættismönnum, einstökum mönnum eða lögaðilum. Nefnd skal gefa þinginu skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar.``

Herra forseti. Ég hef þrívegis áður flutt þetta frv. á þingi en það hefur ekki náð fram að ganga. Til þess hefur verið vísað að á þeim tíma hafi þingsköp Alþingis verið í endurskoðun og þetta mál mundi koma til skoðunar við þá endurskoðun. Ég held að nauðsynlegt sé að halda því til haga og geta þess í upphafi máls míns að á 123. löggjafarþingi, þ.e. fyrir rúmu ári, var lagt fram frv. um heildarendurskoðun á þingsköpum Alþingis. Þar var ekki að finna nokkra breytingu að því er varðar efni þessa frv. Það eina sem kom nýtt fram í því frv. var að sérstök nefnd þingsins skyldi m.a. fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar en það er auðvitað allt annað mál en hér er lagt til. Flutningur málsins núna er því enn brýnni en áður og að þingmenn taki afstöðu til þess þegar það liggur fyrir að ekki var tekið á þessu mikilvæga máli fyrir einu ári í heildarendurskoðun þingskapa.

Ég fullyrði að rannsóknarnefndir þjóðþinga eru til mjög víða og raunar hafa þær mjög víðtækt starfssvið. Þær þekkjast víða um heim og má t.d. nefna að víða í Evrópu eru völd rannsóknarnefnda mjög víðtæk og sums staðar hin sömu og völd rannsóknardómara í sakamálum þó ekki sé verið að leggja það til hér. Þar er heimilað að stefna vitnum og yfirheyra þau og í Belgíu er enn fremur sá möguleiki fyrir hendi að senda lokaskýrslur rannsóknarnefndar þingsins beint til dómstólanna þannig að unnt verði að höfða mál. Málsmeðferðir rannsóknarnefndar tryggja yfirleitt að gripið er til ráðstafana á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar. Í mörgum Evrópuríkjum geta rannsóknarnefndir tekið til umfjöllunar og rannsakað mál jafnvel þó að þau séu fyrir dómstólum á sama tíma. En það er tekið fram í greinargerð með þessu frv., verði það að lögum, að þingnefndin geti ekki tekið til umfjöllunar þá þætti máls sem eru til úrlausnar hjá dómstólum. Við erum því alls ekki að ganga svo langt sem víða þekkist í þjóðþingum í kringum okkur.

Öll rök mæla með því að styrkja nefndir þingsins og stöðu löggjafarsamkomunnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að við stöndum bara einfaldlega frammi fyrir, svo við tökum sem dæmi, að frumkvæði í lagasetningu hefur smátt og smátt verið að færast frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Það er líka allt of mikið um að löggjafarvaldið framselji vald sitt til framkvæmdarvaldsins með heimild til setningar reglugerðar án þess að Alþingi eða þingnefndir hafi nægilegt eftirlit með framkvæmdinni. Þess vegna er brýnt að þetta mál nái fram að ganga og fastanefndir fái þetta frumkvæði.

Sumir hafa vísað til þess að svipað ákvæði sé fyrir hendi í stjórnarskránni og vísa þá til 39. gr. stjórnarskrárinnar og 26. gr. þingskapalaga. Það er bara alls ekki sama ákvæðið sem hér er verið að fjalla um. Ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar felur í sér að Alþingi geti skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varðar en á árunum 1960--1986 hafa að mér telst til komið fram á þriðja tug mála með stoð í þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Alþingismenn hafa upp undir 30 sinnum reynt að koma þessu máli í gegn með vísun í 39. gr. stjórnarskrárinnar en það hefur alla tíð verið fellt á þinginu utan einu sinni að heimilað var að rannsaka mál sem mig minnir að hafi fjallað um okur. En þingmeirihlutinn hefur alltaf notað styrk sinn til þess að svæfa þessi mál eða þá að fella þau.

Þess er skemmst að minnast að á 123. löggjafarþingi, í hinu svokallaða Landsbankamáli, þegar Samfylkingin vildi setja rannsóknarnefnd þingsins í málið, þá hafði það ekkert fylgi hjá meiri hlutanum og þannig náði málið ekki fram að ganga. En með þessari tillögu þarf ekki atbeina þingsins ef það færi í atkvæðagreiðslu hvort heimilt væri að skipa slíkar rannsóknarnefndir heldur geta þingnefndirnar sjálfar að eigin frumkvæði tekið mikilvæg mál úti í samfélaginu til rannsóknar standi til þess efni eins og var t.d. í Landsbankamálinu.

Það er náttúrlega alveg ljóst að Alþingi hefur mjög ríkar skyldur að því er varðar eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Það er brýnt að öll tiltæk úrræði sem þingið getur látið þingmönnum í té séu fyrir hendi til þess að það geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. En það er sífellt verið að gera þingmönnum erfiðara fyrir í því efni að sinna eftirlitshlutverki sínu. Hlutafélagavæðingin, sem við höfum verið að ganga í gegnum t.d. í fjármálastofnunum, í bönkunum, hefur gert það að verkum að þingmenn eiga mun erfiðara en áður með að fá upplýsingar um ýmis atriði í bönkunum. Hið sama gildir um Fjárfestingarbankann, Póst og síma. Á þetta hefur margsinnis verið látið reyna í þinginu af þingmönnum að fá fram ýmsar upplýsingar og embættismenn og forstöðumenn stofnana skýla sér ávallt á bak við hlutafélagalöggjöfina til þess að gera þingmönnum erfitt fyrir.

Síðasta dæmið hjá framkvæmdarvaldinu er t.d. í ríkisreikningi fyrir árið 1998 sem hefur nýlega verið lagður fram. Þar er hætt að birta yfirlit sem hafa verið birt alveg frá 1983 þar sem sundurliðað er á stofnanir t.d. hvernig ferðakostnaði er háttað, risnu er háttað, ökustyrkjum o.fl. Núna er þetta allt fellt út og fylgir ekki með ríkisreikningi. Ekki auðveldar það þingmönnum eftirlitshlutverk sitt.

Ég held líka að ef þetta frv. nær fram að ganga megi búast við að þingnefndir kalli í auknum mæli eftir upplýsingum um setningu reglugerðar. Við vitum að lagasetning er í æ meira mæli að færast í það horf og hefur verið, því miður, að ýmsum brýnum úrlausnarefnum er vísað í reglugerðarsetningu hjá framkvæmdarvaldinu og ráðherrum. Ég veit að t.d. í Danmörku fjalla þingnefndir iðulega í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti um setningu reglugerða í ýmsum mikilvægum málum.

Helsta nýmæli þessa frv. er að þingmenn geti tekið mál er varðar framkvæmd laga um meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varða til sérstakrar rannsóknar sem fari að öllu jöfnu fram fyrir opnum tjöldum sem er náttúrlega mikið nýmæli. Við höfum sífellt verið að opna meira þetta samfélag með stjórnsýslulögum og gera það gegnsærra með margvíslegum hætti eins og stjórnsýslulögunum en þetta var auðvitað einn liður í því. Það þyrfti þó ekki að vera skylda í öllum tilvikum að nefndirnar starfi fyrir opnum tjöldum heldur væri það ákvörðunarvald þingnefnda hverju sinni. En það fyrirkomulag að þingnefndir starfi fyrir opnum tjöldum er fyrirkomulag sem þekkist víða erlendis. Munurinn á rannsókn samkvæmt fyrri mgr. 1. gr. frv. og þeirri seinni er að mun meiri þungi er í rannsókn samkvæmt seinni málsgreininni og er embættismönnum, einstökum mönnum í þjóðfélaginu og lögaðilum beinlínis skylt að afhenda gögn og gefa skýrslur. Þarna yrði afdráttarlaust tekið á því.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að hafa mjög langt mál um þetta. Eins og ég nefndi hef ég mælt fyrir þessu máli áður og þarf raunverulega ekki að færa frekari rök fyrir því að frv. verði samþykkt. Ég viðurkenni, herra forseti, að ég hef nokkrar áhyggjur af því hvað verður um þetta mál með tilliti til forsögu þess og með tilliti til þess að það hlaut ekki náð fyrir augum þeirra sem fjölluðu um heildarendurskoðun þingskapa á sínum tíma. Ég fæ satt að segja ekki séð, herra forseti, hvað það er sem mælir gegn því að styrkja eftirlitshlutverk þingsins og auka lýðræðislegan rétt stjórnarandstöðu og minni hlutans á Alþingi. Þetta er alls staðar í öllum þjóðþingum í kringum okkur virkt með þeim hætti sem ég er að leggja til. Eins og ég nefndi áðan hafa rannsóknarnefndir þjóðþinga erlendis miklu víðtækari heimildir en hér er lagt til.

Ég mun fylgja því fast eftir að þetta mál fái ítarlega og eðlilega umfjöllun í nefnd og komi aftur til kasta þingsins. Eins og ég nefndi hefur margoft verið tilefni og ástæður til þess fyrir þingnefndir til að taka upp mál til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar. Ekki er lengra en 2--3 ár síðan að það var eindregin ósk að allshn. tæki upp ákveðið mál sem tengdist fíkniefnaheiminum. En það var mjög miklum erfiðleikum bundið, herra forseti, að taka það mál upp í allshn. þingsins af því að ákvæði þingskapa eru þannig að þau gera erfitt fyrir minni hlutann að leita réttar síns og fá sérstaka og ítarlega umfjöllun í nefndum og að geta rannsakað þau með ákveðnum hætti og ítarlegar en gefst tækifæri til í einstaka málum sem nefndir hafa til umfjöllunar.

Þess vegna, herra forseti, mælir auðvitað allt með því að þetta frv. verði samþykkt. Ég sagði áðan í mínu máli að stjórnarfrv. eru að stærstum hluta samin af embættismönnum ráðuneyta eða sérfræðingum sem framkvæmdarvaldið kallar til og ég fullyrði að 80--90% af löggjöf Íslendinga eru verk embættismanna og stjórnkerfisins. Ég held að lagasmíðin hafi bara á umliðnum árum verið að þróast mikið í þá átt að færast úr höndum þingmanna og yfir til embættismanna sem sitja síðan yfir nefndum þingsins. Það er iðulega svo að það má ekki breyta stafkrók í stjórnarfrv. sem koma fyrir þingnefndir nema embættismenn, sem hafa kannski samið frumvörpin blessi brtt. Öll sú þróun, sem verið hefur, er því til þess fallin að veikja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þess vegna veitir okkur ekki af því ef til eru úrræði til þess að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu að um það náist breið samstaða á Alþingi að slík mál nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég legg ríka áherslu um leið og ég lýk máli mínu á að þetta mál nái fram að ganga. Ég legg svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.