Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 13:06:00 (1375)

1999-11-12 13:06:00# 125. lþ. 24.9 fundur 80. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[13:06]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir stuðningi við frv. enda er ég einn af meðflutningsmönnum þess.

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að styrkja eins og hægt er stöðu Alþingis gagnvart hinum tveimur þáttunum sem ríkisvaldið skiptist í. Ef við horfum til sögunnar þá eru ekki nema sex eða sjö ár síðan dómsvaldið var aðgreint frá framkvæmdarvaldinu. Löngum hafa menn talið að aðgreiningin milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds væri mjög óglögg, eins og fram kom í umræðum í morgun. Má þar nefna að oft hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að reglugerðir sem framkvæmdarvaldið hefur sett feli nánast í sér lagasetningarvald en ekki útfærslu á þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt. Ég tel því mikilvægt að möguleiki gefist á að beita þeim úrræðum sem hér er lagt til að Alþingi geti beitt.

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir alveg sérstökum stuðningi við þetta mál.