Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 13:44:48 (1376)

1999-11-12 13:44:48# 125. lþ. 24.12 fundur 164. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (nýsköpunardeild) frv., Flm. ÁGunn (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Flm. (Árni Gunnarsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997.

Þetta frv. felur í sér þá breytingu að við starfsemi Lánasjóðs landbúnaðarins bætist ný deild, nýsköpunardeild, sem hafi það að markmiði að stuðla að útflutningi landbúnaðarafurða og öflun nýrra markaða fyrir þær erlendis. Hugsunin er sú að þessi deild starfi fyrst og fremst sem áhættulánasjóður eða áhættusjóður sem leggi hlutafé inn í félög sem eru stofnuð sérstaklega til þess að afla nýrra markaða fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir erlendis og að það verði metið á grundvelli þess um hversu góða viðskiptahugmynd er að ræða hvort lagt verði hlutafé til viðkomandi verkefnis eða ekki.

[13:45]

Ég tek fram að þessi tillaga gerir ráð fyrir því að allar greinar landbúnaðarins geti sótt um styrk í þessa deild og takmarkast ekki einungis við útflutning hefðbundinna landbúnaðarafurða. Þarna gætu komið til greina hrossarækt, ferðaþjónusta, veiði á villtum silungi í vötnum, fiskeldi á bújörðum og þar fram eftir götunum.

Ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt er sú skoðun mín að í raun sé eini vettvangurinn til sóknar fyrir íslenskan landbúnað að sækja inn á nýja erlenda markaði. Einnig er það staðreynd að sífellt vaxandi samkeppni er vegna innflutnings afurða frá öðrum löndum. Við þurfum að búa okkur undir vaxandi alþjóðlega samkeppni á næstu árum. Þar af leiðandi er nauðsynlegt fyrir landbúnaðinn að skapa sér sóknarfæri. Þau sóknarfæri liggja því miður ekki hér hérlendis heldur verðum við að sækja á erlendan markað.

Við þekkjum öll þá þróun sem hefur átt sér stað í íslenskum landbúnaði. Ég bendi á að við upphaf síðasta áratugar var skrifað undir þjóðarsáttarsamninga og minni á að íslenskir bændur og samtök þeirra voru aðilar að þeim samningi. Þjóðarsáttin skilaði gríðarlega miklu til íslensks samfélags og hefur skilað þeim sem að henni stóðu, öðrum en bændum, gríðarlegum kjarabótum. Mig langar að vitna, með leyfi forseta, í tölur sem ég hef aflað mér m.a. frá Hagstofu Íslands um framlög til landbúnaðar, staldra við árið 1991 þar sem íslenska ríkið leggur til tæplega 12,3 milljarða í stuðning við íslenskan landbúnað og bera saman við árið 1997 þar sem þessi tala er komin niður í 7,8 milljarða.

Nú eru þessar tölur að vísu ekki alveg sambærilegar vegna þess að í raun var stuðningurinn meiri á árum áður. Ég hygg þó að þetta ætti að geta gefið nokkuð raunhæfa mynd. Niðurstaðan er sú að opinber framlög hafa minnkað um 4,5 milljarða á ári. Þessa sér náttúrlega stað, ekki bara í hinum dreifðu byggðum landsins heldur líka í þorpunum og þeim byggðum sem hafa byggt afkomu sína mikið á úrvinnslu landbúnaðarafurða. Þar af leiðandi er þetta vandamál fleiri stétta en bændastéttarinnar.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í tölur frá Bændasamtökunum um þróunina í fjölda framleiðenda sem segir kannski meira en mörg orð. Ef við tökum árið 1990 sem viðmiðunarár þá voru greiðslumarkshafar eða framleiðendur sem þiggja greiðslumark eða stuðning frá ríkinu í upphafi áratugarins 3.600 talsins en eru komnir niður í tæplega 2.600 núna. Þetta segir okkur að þeim hefur fækkað um 1.100 á 10 árum. Þeir sem þekkja til þessara mála sjá að víða er skarð fyrir skildi og það sem verra er, að sauðfjárframleiðslan er komin í sjálfheldu. Búin eru orðin mjög lítil og framfleyta ekki fjölskyldum eins og sýnt er fram á í nýlegum könnunum sem birst hafa opinberlega.

Mjólkurframleiðendum hefur á sama tíma fækkað um 390 bú en þar hefur þróunin orðið nokkuð önnur. Í raun hefur mjólkurbúum fækkað og þau stækkað þannig að þar standa eftir lífvænlegri bú og almennt mat að þetta sé þróun sem komi þessari búgrein vel til lengri tíma litið.

Hér er lagt til að í þessa nýsköpunardeild verði lagðar 500 millj. af hagnaði af sölu ríkiseigna og það verði stofnfé sem endist þessari deild í 10 ár. Ástæðan fyrir því að hún er sett fram sem deild í Lánasjóði landbúnaðarins er sú að lánasjóðurinn er starfræktur í dag. Þetta er viðleitni til að lágmarka yfirbyggingu og kostnað við framkvæmdina en koma málinu samt í þann farveg að þetta virki. Það að taka 500 millj. af almannafé og leggja til stuðnings útflutningi með það að markmiði að koma á sjálfbærum útflutningi er í raunar ekkert öðruvísi stuðningur í eðli sínu en við höfum veitt öðrum greinum. Við höfum hjálpað iðnaðinum við að koma sér á framfæri erlendis með sínar vörur. Ég minni á að nýsköpunarsjóður var settur á árið 1997, með lögum nr. 61 frá sama ári. Þaðan er grunnhugmyndin að þessari lagabreytingu fengin en Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leggur til hlutafé í góðar viðskiptahugmyndir til að örva útflutning og gera hann samkeppnishæfan á alþjóðamarkaði.

Ég vil jafnframt minnast á fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem eru vissulega ekki að flytja út orku heldur afla erlends fjármagns inn í atvinnulífið. Landsvirkjun er náttúrlega studd af ríkinu með því að henni er veittur einkaréttur til virkjana. Þar hefur milljörðum verið varið til að byggja upp iðnað sem byggir á erlendri fjárfestingu. Þetta er því sambærilegt.

Ég vonast til, virðulegi forseti, að rætt verði um þetta frv. og legg til að því verði vísað til hv. landbn. að loknum umræðum.