Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 13:53:19 (1377)

1999-11-12 13:53:19# 125. lþ. 24.12 fundur 164. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (nýsköpunardeild) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil í stuttu máli lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Mér þykir þetta gott frv. Að mörgu leyti hef ég miklar og þungar áhyggjur, sem ég deili með hv. flm. frv., af stöðu landbúnaðarins í dag og þá ekki síst af þeim sem fást við sauðfjárbúskap. Ég tel reyndar að í undirbúningi séu miklar skipulagsbreytingar í sauðfjárbúskapnum og það er nauðsynlegt. Fyrir tveimur árum að mig minnir var samþykkt þáltill. um eflingu sauðfjárbúskapar á jaðarsvæðum. Ég tel að ef t.d. þetta frv. yrði líka samþykkt þá mundi það efla mjög möguleika til þess að ná markmiðum frv. Það hefur staðið sauðfjárræktinni fyrir þrifum að neysla á kindakjöti fer minnkandi á Íslandi. Enn hefur ekki tekist að finna nógu góða markaði erlendis. Ég koma að vísu í kjötverslun í Washington þar sem íslenskt kindakjöt var selt á alveg ævintýralegu verði. Það virðist hins vegar ekki gegnumgangandi þegar maður lítur á hvað fæst fyrir kindakjöt í útflutningi almennt í dag.

Ég vil sem sagt lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Ég held að það sé mikilvægt að þarna komi til stuðningur ef eitthvað jákvætt á að gerast í þessum málum. Ég held að það væri ekki það versta að setja á stofn nýsköpunardeild við Lánasjóð landbúnaðarins. Það er þess virði að athuga málið vel og ég vona að frv. fái góða umfjöllun í nefnd.