Niðurskurður í samgöngumálum

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:16:10 (1394)

1999-11-15 15:16:10# 125. lþ. 25.1 fundur 142#B niðurskurður í samgöngumálum# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í fjárlagatillögum fyrir samgrn. í fyrirliggjandi frv. er fjallað um frestun á framkvæmdum miðað við fyrri áform sem nemur alls um 1 milljarði kr. Þar af eru um 550 milljónir hjá Vegagerð, 350 milljónir hjá Siglingastofnun og frestun framkvæmda við flugvelli landsins er u.þ.b. 100 millj. kr.

Herra forseti. Nú höfum við heyrt um þann vilja ráðamanna að skera niður framkvæmdir á suðvesturhorninu til að slá á þenslu. Því kom nokkuð á óvart þegar fréttist af fulltrúum samgrn. og Siglingastofnunar á ferð um landið að ræða við framkvæmdastjóra sveitarfélaganna um niðurskurð í hafnamálum. Og því vil ég spyrja: Hvernig á niðurskurður um 1 milljarð í samgöngumálum á næsta ári að skiptast á milli suðvesturshornsins og landsbyggðarinnar? Er það rétt sem hermt er að tæplega helmingur niðurskurðarins sé fyrirhugaður úti á landi og raunar meiri hluti vega- og hafnarframkvæmdanna? Er það þá einungis yfirvarp, herra forseti, að verið sé að slá á þenslu, því víða um land kannast menn ekki við þenslu nema af afspurn?

Spurningin er sem sagt þessi: Er það rétt sem heyrst hefur að u.þ.b. helmingur niðurskurðar í samgöngumálum sé fyrirhugaður utan höfuðborgarsvæðisins á svæðum þar sem menn kvarta ekki undan þenslu?