Niðurskurður í samgöngumálum

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:22:37 (1399)

1999-11-15 15:22:37# 125. lþ. 25.1 fundur 142#B niðurskurður í samgöngumálum# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. hefur vafalaust séð gerir fjárlagafrv. ráð fyrir hærri fjárhæðum til vegamála á næsta ári en eru til framkvæmda á þessu ári. Því er nauðsynlegt að halda til haga. Á hinn bóginn er það alrangt hjá hv. þm. að gert sé ráð fyrir því að meiri partur af framlögum til vegamála sem eiga að verða til lækkunar, sé til landsbyggðarinnar. Það er bara rangt. Það eru engin áform um að meiri parturinn af þeirri upphæð sé úti á landi.

En þetta kemur allt saman í ljós innan tíðar og þá gefst hv. þingmönnum færi á að skoða þetta. Ég vil bara leggja áherslu á að það er á ábyrgð Alþingis að við stöndum þannig að gerð fjárlaga að við tryggjum efnahagslíf þjóðarinnar til framtíðar. Við getum ekki eilíflega horft einungis til næstu vikna eða mánaða.