Einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:52:34 (1412)

1999-11-15 15:52:34# 125. lþ. 25.93 fundur 150#B einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var stofnaður með lögum nr. 60/1997. Eftirfarandi meginmarkmið lágu að baki stofnunar bankans:

Að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði með því að selja hlutabréf í bankanum,

að auka samkeppni og breikka þjónustu á þessu sviði,

að stuðla að hagræðingu og styrkja stoðir fjármálamarkaðarins með því að sameina fjóra fjárfestingarlánasjóði í einum öflugum fjárfestingarbanka,

að skilja á milli fjárfestingarlána annars vegar og lána og styrkja til nýsköpunar hins vegar,

að draga úr hólfun og aðgreiningu fjármálafyrirtækja eftir atvinnugreinum,

að auka alþjóðlega þátttöku á íslenskum fjármálamarkaði.

Eins og fram kemur hér að framan lá stefna um sölu hlutafjár ríkissjóðs í bankanum fyrir þegar við stofnun bankans. Markmiðið með sölu hlutabréfa ríkissjóðs hafa einnig legið fyrir frá upphafi, þ.e. að koma á fót öflugum banka til fjárfestingarlána, stuðla að sjálfstæði hans og jafnframt standa þannig að málum að eignaraðild yrði dreifð í bankanum. Með þeim hætti var verið að vinna að aukinni samkeppni og meiri fjölbreytni og breidd á íslenskum fjármálamarkaði.

Á fundi ríkisstjórnarinnar 10. febrúar 1998 var samþykkt áætlun um framkvæmd einkavæðingar á því ári. Þar var gert ráð fyrir að nýtt yrði heimild til að selja allt að 49% hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. 27. júlí 1998 var framkvæmdanefnd um einkavæðingu veitt umboð til að annast um undirbúning og framkvæmd á sölu hlutafjár í bankanum. Skyldi það gert að höfðu nánu samráði við fulltrúa ráðuneytanna og stjórnendur bankans. Í bréfinu var það lagt fyrir nefndina að stefnt skyldi að dreifðri eignaraðild með því að gefa almenningi kost á að kaupa hlut í bankanum. Einnig kom fram að erlent verðbréfafyrirtæki skyldi fengið til að verðmeta hlutafé bankans.

Fulltrúar helstu sparisjóða landsins, sem eru eigendur Kaupþings hf., leituðu til ríkisstjórnarinnar síðla sumars 1998 og óskuðu viðræðna um kaup á öllu hlutafé bankans með sameiningu við það fyrirtæki í huga. Könnunarviðræður fóru fram en hætt var við þær og ákveðið að selja fyrirtækið í samræmi við tillögu framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Á þessum tíma voru sparisjóðirnir reiðubúnir að kaupa allan bankann fyrir 8 milljarða og 500 millj. kr. Sú ákvörðun að leita til erlendra sérfræðinga til þess að vinna verðmæti úr hlutabréfi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins var byggð á því viðhorfi að innlend fyrirtæki væru öll í beinni samkeppni við bankann og því óeðlilegt að fela þeim þetta verkefni. Einnig var litið til þess að einkavæðing Fjárfestingarbanka atvinnulífsins var og er langstærsta einkavæðingn sem átt hefur sér stað hér á landi. Söluverðmætið var áætlað meira en samanlagt söluverðmæti allra annarra slíkra verkefna fram að þeim tíma.

Eftir útboð meðal nokkurra erlendra verðbréfafyrirtækja í september 1998 var ákveðið að fá Arthur Andersen Consulting í Englandi til verksins og unnu sérfræðingar á þeirra vegum að verðmatinu í september og október 1998. Niðurstaðan varð sú að í almennu útboði, allt að 49% hlutafjár í bankanum væri rétt að miða við gengið 1,4. Hér verður að hafa í huga að þessi söluaðferð, þ.e. dreifð sala til almennings þar sem hver og einn fær aðeins lítinn hlut í bankanum, skilar seljandanum ekki jafnháu söluverðmæti og sala á ráðandi hlut gerir. Til að hámarka verðið hefði verið vænlegra að bjóða bankann til sölu með útboði og leita eftir tilboði frá hæstbjóðanda.

Stefna ríkisstjórnarinnar var að stuðla að dreifðri eignaraðild að Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og gefa almenningi í landinu færi á að taka þátt í einkavæðingunni. Því var ákveðið á grundvelli tillagna frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu að bjóða til sölu hlutafé Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að allt að 3,3 milljörðum að nafnverði en það er 49% hlutafjársins. Áætlað var að hlutabréfin yrðu seld í tveimur áföngum. Annars vegar í sölu til einstaklinga og lögaðila með áskriftarfyrirkomulagi þar sem heimilt væri að skrá sig fyrir hlutum allt að 3 millj. kr. á nafnverði. Hins vegar selja í tilboðssölu það hlutafé það sem seldist ekki í almennri sölu og yrði hverjum og einum heimilt að gera tilboð í allt að 3% hlutafjár bankans. Megináhersla var því á það lögð að gefa almenningi kost á að kaupa hlutabréf í bankanum og var tilgangur umboðssölu á þessum tíma einungis sá að það sem út af stæði eftir útboðið yrði selt með öðrum hætti. Umsjónaraðili sölunnar var bankinn sjálfur, þ.e. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins en öll verðbréfafyrirtæki landsins komu þó að sölunni með móttöku áskrifta.

Á áskriftatímabilinu, sem stóð frá 30. okt. til 12. nóv. 1998, voru skiptar skoðanir um það hvort mögulegt væri á hinum litla íslenska hlutabréfamarkaði að selja svo stóran eignarhlut í einu lagi. En þegar áskriftartímabilinu lauk kom í ljós að eftirspurn eftir bréfunum var meiri en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona. 10.734 einstaklingar skráðu sig fyrir 18,9 milljörðum að söluvirði. Til stóð að selja aðeins 4,6 milljarða og var hlutur hvers og eins því skertur þannig að hámarksnafnverð sem hverjum áskrifanda var heimilt að kaupa var skert þar til heildarnafnverð seldra bréfa var komið niður í 3,3 milljarða kr. Þetta var í samræmi við útboðslýsingu. Skerðing var því ekki hlutfallsleg og var hámarkshlutur hvers og eins 360 þús. kr. að nafnverði eða 504 þús. að söluverði. Þeir sem höfðu skráð sig fyrir lægri hlutum urðu ekki fyrir skerðingu.

Til samanburðar má geta þess að viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands allt árið 1998 fram að sölunni á Fjárfestingarbankanum námu alls 8,8 milljörðum kr. Sala í hlutabréfum í Fjárfestingarbankanum haustið 1998 var auðvitað mikill viðburður og mikil þátttaka almennings var mjög ánægjuleg og til þess fallin að kveikja áhuga og auka skilning á atvinnulífi landsmanna. Þá var salan til þess fallin að efla innlendan hlutabréfamarkað en í ljós kom að íslenskur fjármagnsmarkaður er sterkari en menn höfðu áður gert sér grein fyrir.

Á eftirmarkaði kom í ljós að ýmsar fjármálastofnanir höfðu áhuga á að kaupa stærri hlut í bankanum en þeim hafði staðið til boða á áskriftartímabilinu. Þetta kom raunar þegar fram meðan á útboðinu stóð og er þá átt við hina svonefndu kennitölusöfnun. Þessar fjármálastofnanir voru m.a. bankar og verðbréfafyrirtæki sem auglýstu eftir hlutabréfum frá almenningi og fór gengi bréfanna hækkandi þegar að loknu útboðinu. Þetta var vissulega til hagsbóta fyrir kaupendur hlutabréfanna sem gátu fengið verulega hækkun á hlut sínum á skömmum tíma. Skýringarnar gátu legið í því að stærri fjárfestar, stofnanafjárfestar, verðbréfasjóðir og hlutabréfasjóðir vildu eiga stærri hlut í bankanum, í eignasöfnum sínum en þeim stóð til boða í útboðinu sjálfu. Fljótlega kom þó í ljós að þarna lá miklu fremur að baki keppni milli stærri fjámálastofnana sem hugðu á samstarf eða samruna við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þessi þróun tók á sig mjög skýra mynd við sölu á hlut Búnaðarbankans til Kaupþings skömmu fyrir árslok 1998.

Á fyrri hluta þess árs hélt þessi hlutabréfasöfnun Kaupþings í Fjárfestingarbankanum áfram og einn áfangi í þeirri þróun var þegar dótturfyrirtæki þess í Lúxemborg keypti hlut Kaupþings og sparisjóðanna og þar með var 28% hlutafjár bankans komið á eina hendi. Samþjöppun eignarhluta sparisjóðanna, Kaupþings hf., í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins gekk þvert á yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar með sölu bankans eins og þeim hefur verið lýst að framan. Ljóst var að þessi samþjöppun valds og áhrifa hlyti að kalla á viðbrögð af hálfu stjórnvalda því að augljóst var að sparisjóðirnir og Kaupþing ætluðu að knýja fram vilja sinn um sameiningu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Kaupþings. Síðsumars árið 1999 bárust síðan þær fregnir að dótturfyrirtæki Kaupþings í Lúxemborg hefði selt þarlendu félagi í eigu fjögurra íslenskra fjármálamanna 28% eignarhlut sinn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins á genginu 2,82. Nafn þessa félags er Orca SA.

Athygli vakti við þessi viðskipti sú mikla leynd sem reynt var að breiða yfir þau. M.a. var spurningum frá innlendum eftirlitsaðilum, Verðbréfaþingi Íslands hf. og Fjármálaeftirlitinu, engu sinnt af hálfu seljenda. Þótti öll sú leynd grunsamleg í hæsta máta. Við bættist að fregnir fóru að berast af óeðlilegum aðferðum Kaupþings við söfnun hlutabréfa í bankanum á tíma útboðsins haustið 1998. Fyrirtækið virtist ekki hafa sést fyrir í ákafanum og keypt og selt sjálfu sér bréf í nafni viðskiptamanna sinna í fjárvörslu og að þeim forspurðum. Öll þessi saga opinberaðist í kjölfari viðskipta við þá Orca-menn. En þá kom í ljós að ástæða leyndarinnar um viðskiptin eða a.m.k. ein ástæðan milli Kaupþings og Orca var baksamningur en samkvæmt honum skuldbundu kaupþingsmenn sig til að halda áfram að kaupa bréf Fjárfestingarbankans og ná til sín u.þ.b. 11% hlutabréfa bankans í því almenna útboði á 51% hlut ríkissjóðs í bankanum sem álitið var að stæði fyrir dyrum á haustmánuðum. Með 28% hlut Orca-manna og viðbótarhlut annarra hluthafa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem voru fúsir til samstarfs, svo og þeim 11% viðbótarhlut sem sparisjóðirnir eða Kaupþing áttu að afla til viðbótar í væntanlegu útboði, töldu aðilar viðskiptanna sig vera komnir með ráðandi stöðu innan bankans í kjölfar einkavæðingarinnar. Í framhaldi af því væri mögulegt að vinna að sameiningu Kaupþings og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

[16:00]

Áform þessi miðuðu beinlínis að því að koma einkavæðingu Fjárfestingarbankans í uppnám. Kaupþingsmenn töldu að ríkisstjórnin hefði skuldbundið sig til að selja 51% hlutinn með sölufyrirkomulagi sem fyrirtækinu hentaði. Skeytingarleysið gagnvart hagsmunum ríkissjóðs og annarra hluthafa bankans var algjört. Við þetta var ekki unað enda hlaut ríkisstjórnin að grípa til aðgerða til að verja hagsmuni ríkissjóðs. Þessir hagsmunir voru í fyrsta lagi að tryggja hámarksverð fyrir öll 51% bréf ríkissjóðs í bankanum. Í öðru lagi að stuðla um leið að dreifðri eignaraðild að bankanum og vinda þannig ofan af þeirri þróun sem Kaupþing hafði haft forustu fyrir. Í þriðja lagi að standa þannig að málum að allir áhugasamir aðilar sem hefðu á annað borð fjárhagslega burði til þess gætu tekið þátt í kaupunum. Að öllu óbreyttu var ólíklegt að mikill áhugi væri fyrir kaupum eða fjárfesta utan Orca-hópsins, sparisjóðanna og Kaupþings.

Að lokunum umræðum innan ráðherranefndar og á grundvelli tillagna frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu var ákveðið að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin með eftirfarandi aðgerðum:

Leitað yrði eftir kaupendum að 51% ríkisins þar sem áhugasamir aðilar skyldu mynda með sér hóp sem uppfyllti ákveðin skilyrði um eignarhlut, skyldleika og fjárhagsleg tengsl. Hópurinn kæmi sér saman um tilboðsgengi sem aðilar innan hans skuldbyndu sig til að leggja til grundvallar við kaup á hlutabréfum. Áhugasamir hópar skyldu skila þátttökutilkynningu fyrir fimmtudaginn 21. október 1998 með upplýsingum um framangreind atriði. Fulls trúnaðar skyldi gætt á þessu stigi gagnvart hópnum á meðan sérstök nefnd skipuð Hreini Loftssyni hæstaréttarlögmanni, Jóni Sveinssyni hæstaráttarlögmanni og Brynjólfi Sigurðssyni prófessor færi yfir og kannaði sjálfstætt hvort hóparnir uppfylltu skilyrði sölunnar. Tekið var á því í söluskilmálum ef aðeins kæmi fram ein þátttökutilkynning. Samkvæmt skilmálum sölunnar áttu hópar sem uppfylltu framangreind skilyrði að skila tilboðum á sérstökum tilboðseyðublöðum fyrir 5. nóvember 1998. Tilboðin skyldu samanlagt ná til alls 51% hlutafjár ríkissjóðs á tilgreindu gengi. Greiðsla kaupverðs skyldi síðan fara fram hjá ríkisféhirði eigi síðar en 15. nóvember, þ.e. í dag.

Sjálfstæði hvers og eins kaupanda var undirstrikað með því að hver og einn þeirra skyldi greiða sinn hluta kaupverðsins samkvæmt endanlegri þátttökutilkynningu. Þegar kaupendur innan hópsins hefðu greitt hlutabréfin yrðu þau afhent hverjum og einum. Stæði einhver innan hópsins ekki í skilum gæti framkvæmdaaðili sölunnar hvort heldur sem er haldið kaupunum upp á þann aðila eða gengið að tilboði næsta hóps og síðan koll af kolli.

Samsetning hópa skyldi þannig að tilboð þeirra næðu til alls 51% hlutsins án þess að til félags aðila innan hvers hóps hefði verið stofnað um eignarhlutinn. Lagt var á ábyrgð hópanna hvernig að væri staðið með tilliti til ákvæða um yfirtökutilboð.

Að baki framangreindu útboði lá mikil og góð lögfræðileg vinna og undirbúningur af hálfu framkvæmdanefndar sölunnar sem stýrt var af framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Að þeirri vinnu komu fjölmargir aðilar, lögmenn, endurskoðendur og sérfræðingar á fjármálamarkaðnum.

Fimmtudaginn 21. október 1999 kom í ljós að aðeins einn hópur skilaði inn tilkynningu um þátttöku. Þó höfðu borist af því fregnir í fjölmiðlum að nokkrir hópar væru áhugasamir. Meðal sérfræðinga á markaðnum heyrðust þær raddir að skýringin á því að aðeins einn hópur sýndi áhuga á þátttöku væri sú að lágmarksgengið væri of hátt. Þó var það hið sama og hafði verið í viðskiptum Orca-hópsins og Kaupþings og ekki stætt á öðru fyrir fulltrúa ríkisins en að leitast við að tryggja ríkissjóði sama verð fyrir sinn hlut. Tekið var á því í skilmálum sölunnar hvernig aðhafast skyldi undir þeim kringumstæðum að eins ein þátttökutilkynning bærist. Þetta var öllum ljóst fyrir fram.

Við yfirferð yfir þátttökutilkynninguna sem barst kom í ljós að spurning væri um fjárhagsleg tengsl milli fjögurra aðila af þeim níu er stóðu að þátttökutilkynningunni. Á fundi með umboðsmanni þess hóps mánudaginn 25. október var ábendingum og athugasemdum þar að lútandi komið á framfæri við hópinn og hópnum gefinn kostur á að gera viðeigandi lagfæringar fyrir föstudaginn 29. október.

Endanlegri þátttökutilkynningu var skilað til framkvæmdaaðila sölunnar á tilskildum tíma. Þá hafði sú breyting orðið á hópnum að í stað þriggja aðila sem þar voru upphaflega komu 20 í staðinn. Voru þá 26 einstaklingar og aðilar orðnir aðilar að endanlegri þátttökutilkynningu. Af hálfu framkvæmdaaðila sölunnar voru skyldleiki og fjárhagsleg tengsl þessara aðila könnuð sérstaklega og mjög ítarlega. Í ljós kom að þeir uppfylltu fullkomlega skilyrði sölunnar. Áður en þessum hópi var sent kauptilboð í samræmi við ákvæði sölulýsingarinnar barst frá hópnum beiðni um að hópurinn mætti breyta hlutfallslegri skiptingu innbyrðis, þó þannig að virtar væru reglur hvað varðar hámarks- og lágmarkshlut einstakra bjóðenda.

Af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem starfaði í umboði viðkomandi ráðuneyta var hópnum sent bréf föstudaginn 29. október 1999 þar sem honum var veitt færi á því samkvæmt ákvæðum sölulýsingarinnar að kaupa allan hlut ríkisins á genginu 2,8, samtals að fjárhæð 9 milljarðar 710,4 millj. kr. gegn staðgreiðslu fyrir kl. 14 mánudaginn 15. nóvember 1999. Endanleg hlutfallsleg skipting bjóðenda yrði að koma fram í yfirlýsingu hópsins sem yrði að berast nefndinni í síðasta lagi kl. 14 föstudaginn 5. nóv. Ekki var gerð athugasemd við það þó að innbyrðis hlutföll breyttust að því gefnu að þau uppfylltu skilyrði útboðsins um lágmarks- og hámarkshlut hvers og eins.

Yfirlýsing barst frá hópnum þriðjudaginn 2. nóvember þar sem fram kom að hópurinn mundi ganga að boði nefndarinnar á grundvelli söluskilmála sem beitt hefði verið. Einkavæðingunni lauk síðan í dag mánudaginn 15. nóvember með greiðslu uppsetts verðs hjá ríkisféhirði.

Kaupendur 51% hluta ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eru m.a. sumir af stærstu og öflugustu lífeyrissjóðum landsins, fjársterkir einstaklingar og lögaðilar, stjórnendur bankans og aðilar tengdir Orca-hópnum svonefnda. Fyrir liggur að öll markmið ríkisstjórnarinnar með sölunni muni nást fram. Tveir stærstu einstöku hluthafar bankans eiga um 7% hlut í honum en aðrir eiga minna. Hluthafar eru talsvert á fjórða þúsund. Orca-hópurinn verður leystur upp. Hluthafarnir munu því vinna saman að sameiginlegum hagsmunum sínum, þ.e. að auka veg bankans.

Þegar upp er staðið hefur þessari vel heppnuðu einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins lokið þannig að ríkissjóður hefur fengið u.þ.b. 14,4 milljarða kr. fyrir hlutabréf sín í bankanum, sem er rúmum 6 milljörðum kr. hærri fjárhæð en sparisjóðirnir voru reiðubúnir að greiða fyrir bankann fyrir rúmu ári síðan. Einkavæðingin hefur því heppnast fullkomlega að þessu leyti þó að illa hafi litið út með málið á tímabili.

Varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín um dreifða eignaraðild þá hefur komið fram að ég er trúaður á að til þess sé ýtrasta nauðsyn að fjármálastofnanir í fámennu landi séu í dreifðri eignaraðild. Ég get ekki hugsað mér aðra skipan á þeim málum. Ég tel að hvað þetta varðar hafi salan heppnast vel. Ég er enn þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða rækilega í þinginu möguleika á að setja slíkar reglur og reyna að ná um þær sæmilegri sátt. Það hefur áður komið hér fram í þingsalnum.

Að svo mæltu þakka ég hv. þm. fyrir að hlutast til um þessa umræðu.