Einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 16:16:40 (1415)

1999-11-15 16:16:40# 125. lþ. 25.93 fundur 150#B einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Við þessa umræðu gefst kærkomið tækifæri til að gera örlitla grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á íslenskum fjármagnsmarkaði á undanförnum árum.

Róttækar breytingar hafa orðið á íslenskum fjármagnsmarkaði á síðustu fjórum, fimm árum og sennilega einhverjar róttækustu skipulagsbreytingar sem nokkurn tímann hafa verið gerðar á þeim markaði. Vil ég hér nefna nokkur dæmi.

Í 15 ár töluðu menn um að breyta fjárfestingarlánasjóðakerfi atvinnulífsins og koma á fót áhættu- og nýsköpunarsjóði. Það gerðist ekki fyrr en í tíð núverandi ríkisstjórnar að fjárfestingarlánasjóðir atvinnulífsins, Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og Útflutningslánasjóður voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og þannig náðist fram hagræðing á þeim markaði og veruleg fækkun lánastofnana.

Í tíu ár töluðu menn um að breyta ríkisviðskiptabönkunum, Búnaðarbanka og Landsbanka, í hlutafélög. Það gerðist ekki fyrr en í tíð núverandi ríkisstjórnar að þetta gekk eftir. Bara við formbreytinguna eina og skráningu bankanna á markaði hefur náðst fram veruleg hagræðing. Ríkisviðskiptabankarnir, Landsbanki og Búnaðarbanki, höfðu aldrei greitt eiganda sínum, þ.e. þjóðinni, arð af eigin fé. Árið 1998, eftir þá formbreytingu, greiddi Landsbankinn út arð upp á 400 millj. kr. til eigenda sinna og Búnaðarbankinn greiddi 328 millj. kr. arð til eigenda sinna. Með tilkomu Fjárfestingarbankans og skráningu bankanna á Verðbréfaþingi hefur samkeppni á þessum markaði stóraukist. Bankarnir hafa lækkað vaxtamun og verulega hefur dregið úr þeim kostnaði sem á fjármagnsmarkaðnum er og þannig er að takast að skapa fólkinu og fyrirtækjunum í landinu lægri vexti og sambærileg samkeppnisskilyrði og fólk og fyrirtæki í löndunum í kringum okkur býr við.

Á árunum 1988 til ársins 1997, eða á tíu ára tímabili, töpuðu ríkisviðskiptabankarnir, þ.e. Landsbankinn og Búnaðarbankinn, 17 milljörðum kr. Nú hefur þetta snúist við og stórlega hefur dregið úr útlánatöpum þessara banka. Skýrar reglur voru settar um launakjör bankastjóra, ferða- og risnukostnað þegar bankarnir urðu að hlutafélögum. Þetta hefur leitt til þess að líka hefur dregið stórlega úr ferða- og risnukostnaði hjá bönkunum. Innri endurskoðun bankanna, þ.e. Landsbanka og Búnaðarbanka, hefur stórlega verið efld með verulega góðum árangri. Bankaeftirlit og Vátryggingaeftirlit voru sameinuð í Fjármálaeftirlitið með það að meginmarkmiði að treysta og tryggja betur eftirlit með fjármálastofnunum, með hagsmuni neytenda og innstæðu eigenda bankanna að leiðarljósi.

Rekstur bankanna hefur aldrei verið betri en nú. Landsbanki og Búnaðarbanki högnuðust um 1.300 millj. kr. á fyrri hluta þessa árs og má búast við að hagnaður þeirra verði á árinu yfir 2 milljarðar kr. Betri afkoma en nokkru sinni áður hefur sést hjá þessum fyrirtækjum.

Rétt um 40 þúsund hluthafar eru nú í bönkunum þremur, Landsbanka, Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Um 15% af þjóðinni eru hluthafar í þeim fyrirtækjum. Búnaðarbankinn er langfjölmennasta almenningshlutafélag landsins og Landsbankinn og FBA með þeim fjölmennari. Þátttaka almennings í kaupum á hlut í bönkunum hefur dýpkað skilning almennings á því hvernig hlutabréfamarkaðurinn virkar og aukið áhuga þjóðarinnar á því að vera virkir þátttakendur í uppbyggingu atvinnulífsins.

Verðmæti þjóðarinnar í bönkunum hefur aukist um 30 milljarða á tíu mánuðum. Verðmæti Landsbanka og Búnaðarbanka hafa hækkað mikið frá fyrsta útboði. Þeir hafa verið skráðir á Verðbréfaþinginu og hafa notið aga og festu skráningarinnar sem leitt hefur til betri rekstrar. Gengi bréfanna í bönkunum í útboðinu var ákveðið að fengnu mati virtra erlendra lánastofnana.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hefur nú allur verið seldur. Í dag greiddu kaupendur Fjárfestingarbankans 9,7 milljarða til ríkisins. Þetta er langstærsta einkavæðing sem fram hefur farið hér á landi. Ríkið hefur fengið 14,3 milljarða fyrir bankann, sem metinn var á í kringum 8 milljarða kr. fyrir ári síðan. Þessu til viðbótar fékk ríkið á síðasta ári 554 millj. kr. í arðgreiðslu frá bankanum sem er hæsta fjárhæð sem íslenskt fyrirtæki skráð á Verðbréfaþingi hefur greitt í arð til hluthafa sinna. Verðmæti bankans hefur hækkað jafnt og þétt frá því hann var skráður á Verðbréfaþinginu rétt fyrir um ári síðan. Hluthafar eru nú tæplega 4 þúsund og stærsti hluthafinn er Lífeyrissjóðurinn Framsýn með rúmlega 7% hlut.

Eins og hér hefur komið fram hafa orðið ótrúlegar breytingar á þessum markaði á undanförnum árum og ætla ég þá að snúa mér að einstökum lánastofnunum í þeim efnum. Mestar hafa breytingarnar orðið á Landsbankanum á undanförnum árum. Á árunum 1988, eins og ég sagði áðan, til ársins 1997 tapaði Landsbankinn 13,7 milljörðum kr. í útlánum, en stórlega hefur dregið úr þessu tapi að undanförnu. Vaxtamunur bankans hefur lækkað, rekstrarkostnaður bankans hefur lækkað, hagnaður bankans nam 911 millj. kr. á árinu 1998 og var ákveðið á síðasta aðalfundi að greiða út 400 millj. kr. arð, eins og hér hefur fram komið. Um 12.200 manns skráðu sig í hlutafjárútboði Landsbankans í september fyrir rúmu ári. Ríkið á nú 85% hlut en 6.900 manns eiga samtals um 15% hlutafjár. Næststærsti hluthafinn er Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands með 2,6% hlut. Í nóvember 1998 var Landsbankinn fyrst skráður á Verðbréfaþingi Íslands. Þegar hann fór á markaðinn var áætlað verðmæti hans um 12 milljarðar kr. en í dag er hann samkvæmt skráningu markaðarins 25 milljarða kr. virði, eða helmingi meira virði en þegar hann fór fyrst á markað.

Hagnaður Búnaðarbankans nam 876 millj. kr. fyrir skatt árið 1998. Vaxtamunur þar hefur snarlækkað og á aðalfundi, eins og hér kom fram áðan, var ákveðið að greiða út arð upp á 328 millj. kr., sem aldrei hafði fyrr gerst. Um 93 þúsund manns skráðu sig í hlutafjárútboði Búnaðarbankans í september á síðasta á ári. Ríkið á nú um 85% hlut, en 29 þúsund manns eiga samtals um 15% hlutafjár. Næststærsti hluthafinn er Lífeyrissjóður Búnaðarbankans með 3,6%. Í desember 1998 var Búnaðarbankinn skráður á Verðbréfaþinginu. Þegar bankinn var upphaflega seldur almenningi var áætlað söluverð hans um 8 milljarðar kr. en mælist nú á Verðbréfaþinginu upp á 18,5 milljarða kr., eða um 10 milljörðum kr. hærri en verðmætið var þegar hann fór fyrst á markað.

Þetta er allt saman tilkomið vegna þeirra hagræðingaraðgerða sem gripið hefur verið til og þeirra skipulagsbreytinga sem orðið hafa á íslenskum fjármagnsmarkaði á undanförnum árum og ég vil þakka fyrir það tækifæri að fá að gera grein fyrir þessu hér við umræðuna.