Einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 16:46:22 (1419)

1999-11-15 16:46:22# 125. lþ. 25.93 fundur 150#B einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða almennt um hvort selja eigi ríkisfyrirtæki og þá hvaða ríkisfyrirtæki á hverjum tíma. Að mínu viti er ekkert lögmál að hlutirnir séu óumbreytanlegir, þetta hlýtur að breytast með tímanum. Nú þykir ekki nauðsynlegt eða eðlilegt að hið opinbera, t.d. Reykjavíkurborg reki fyrirtæki í hellusteypu eins og var um áratuga skeið og þótti eðlilegt þá. Það er lýsandi dæmi um að tímarnir breytast og þess vegna getur hlutverk ríkisins ekki verið óumbreytanlegt. Því er eðlilegt að menn ræði af og til hvað ríkið á að hafa með höndum og hvað ekki.

Menn hafa á síðustu árum farið þá leið að selja nokkuð af eignum ríkissjóðs svo sem Síldarverksmiðjur ríkisins og Fjárfestingarbankann. Það er að mínu viti eðlilegur hlutur. Ég get ekki séð að það sé nauðsynlegt eða eðlilegt að ríkissjóður reki Síldarverksmiðjur ríkisins um ókomna tíð eins og nauðsynlegt var á sínum tíma. Hins vegar verða menn auðvitað að gæta sín í þeim viðfangsefnum, eins og dæmið um Síldarverksmiðjur ríkisins sannar. Að mínu viti gekk sala þeirra eigna þannig fram að það var ekki ásættanleg niðurstaða.

Stjórnarflokkarnir hafa náð samstöðu um að halda hægt og rólega áfram á þessari braut. Í næstu lotu verður hugað að ríkisbönkunum og ég tel eðlilegt að ríkisvaldið stígi það skref. Á sínum tíma var nauðsynlegt að ríkið ætti bankana og tryggði þannig að sú starfsemi væri fyrir hendi af þeirri einföldu ástæðu að aðrir höfðu ekki bolmagn til að standa í bankastarfsemi, tryggja innstæður o.s.frv. Nú eru tímarnir breyttir. Ég nefni sem dæmi að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með um 180 aðilum sem stunda fjármálastarfsemi þannig að margir, og margir þeirra öflugir, standa í viðskiptum af þessu tagi. Það er engin ástæða til að ætla annað en að íslenskir neytendur, ef svo má segja, eigi þess kost að skipta við fjármálafyrirtæki, fleiri en eitt á hverju sviði, jafnvel þótt ríkisbankarnir verði seldir.

Ég hygg að mikilvægast í því sé að tryggja samkeppnina og það aðhald þurfi að vera fyrir hendi til að tryggja að þeir sem skipta við bankana eigi kost á sem lægstu verði fyrir þá þjónustu. Við vitum að íslenska bankakerfið er tiltölulega óhagkvæmt og dýrt í rekstri miðað við það sem gengur og gerist víða erlendis. Það þýðir að viðskiptavinir íslensku bankanna eru oft að borga hærra verð fyrir þjónustu bankanna en kostur er á erlendis. Það hefur leitt til þess að sum íslensk fyrirtæki hafa fært viðskipti sín til banka erlendis. Vegna breytinga á fjarskiptasviði er bæði fyrirtækjum og einstaklingum kleift að stunda þessi viðskipti við banka annars staðar en á Íslandi. Auðvitað verður þróunin sú að einstaklingar munu færi viðskipti sín þegar færi gefast til þess frekar en nú er, nema íslenska bankakerfið nái tökum á því að hagræða meira og geti boðið þjónustuna á lægra verði.

Það kom fram, m.a. í skýrslu sem dreift var á Alþingi fyrir nokkrum árum, að kostnaður við íslenska bankakerfið er um tvöfalt meiri en hjá því danska. Í bankakerfinu eru miklir hagræðingarmöguleikar og nauðsynlegt að hið opinbera hlutist til um að þeir gangi eftir, að hagræðing verði í bönkunum, þeim fækki og einingarnar stækki, einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, til að tryggja þjónustuna á sem lægstu verði.

Ég tel að þegar ekki er lengur nauðsynlegt fyrir ríkisvaldið að binda eignir sínar í bönkum þá eigi menn að losa um þær og breyta þeim í aðrar eignir sem meiri þörf er fyrir á þeim tíma. Nú á dögum er okkur mikil þörf á að geta varið stórum fjárhæðum í samgöngubætur og önnur þörf verkefni. Mér finnst ekkert áhorfsmál að breyta eignum ríkissjóðs sem liggja í bönkunum í aðrar eignir sem nýtast þjóðinni allri.