Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:18:29 (1427)

1999-11-15 17:18:29# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:18]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er þakklát fyrir að heyra hversu jákvæður hæstv. félmrh. er í garð þessara verkefna því að við deilum því áliti að mjög mikilvægt sé að vel takist til því að ég held að sannarlega sé þarna um verkefni að ræða sem eiga heima hjá sveitarfélögunum. Það er alveg rétt sem hann nefnir að starfsmannamálin eru alltaf ákveðinn erfiðleikahnútur eða geta verið það. Ég þekki dæmi um það sem hann var að nefna áðan að það hafi orðið ákveðið misræmi í kjörum og það er auðvitað vont þegar málefni eins og málefni fatlaðra eru að missa út reynda og hæfa starfsmenn vegna óánægju með kjör af því að ákveðið var að mál gengju til eins og ráðherra lýsti áðan.

Ég á von á því að þegar nefndin fer að fjalla um þetta frv. þá hafi hún auk skýrslunnar sem komin er út um reynsluna, sambandi við sveitarfélögin og fái ítarlegri upplýsingar og jafnvel menn til viðræðna. Þá gætu komið upp atriði sem ráðherranum er e.t.v. ekki kunnugt um núna en ég tel mikilvægt að komi fram í nefndinni þannig að hægt verði að bregðast við, því að ég a.m.k. verð vör við ákveðna óánægju. Menn eru ekki alveg sannfærðir um að ríkið sé í þessu af heilum hug og ég held að það þurfi að laga.