Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 11:03:43 (1437)

1999-11-16 11:03:43# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum að taka til umræðu líklega umdeildasta mál þessa þings. Mér kæmi ekki á óvart þó það reyndist umdeildasta mál komandi kjörtímabils. Tekist er á um ólík sjónarmið, annars vegar umhverfisáhrif og landvernd en hins vegar byggðaþróun á Austfjörðum. Vegna þess hve málefnin eru viðkvæm fyrir hvorn hópinn um sig skiptir miklu að fara að settum leikreglum. Forsendurnar sem Alþingi hefur sett fyrir slíkum framkvæmdum eru að fram fari mat á umhverfisáhrifum sem leiði til jákvæðrar niðurstöðu.

Þegar hart er deilt tekur umræðan á sig undarlegar myndir. Það er jafnmikil fjarstæða að þeir sem afdráttarlaust krefjast mats á umhverfisáhrifum séu gegn virkjunum, stóriðju eða byggðastefnu og að halda því fram að þeir sem vilja virkjun og álver séu umhverfissóðar. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður umhverfismat. Sú afstaða þingflokksins hefur lengi verið ljós og kom m.a. fram við umræðu um till. til þál. um umhverfismat sem hér var rædd á sumarþinginu. Við viljum að Alþingi afgreiði tillögu um umhverfismat í tengslum við málið sem hér liggur fyrir. Til að tryggja að það gerist flytur Samfylkingin brtt. við tillögugreinina. Tillagan verður ekki tekin til afgreiðslu fyrr en við seinni umræðu en ég tel eðlilegt að hún komi fram strax.

Skiptar skoðanir eru um hvort virkja eigi á Eyjabökkum eða ekki. Menn greinir á um verðmætamatið sem felst í ákvörðun um að virkja án þess að ígrunda fyrst hvaða svæði verði varðveitt fyrir komandi kynslóðir. Deilurnar sem nú rísa sem hæst eru um þá ákvörðun stjórnvalda að virkja án þess að framkvæma lögformlegt umhverfismat. Þekking almennings á miðhálendi Íslands og náttúruperlum þar er allt önnur en fyrir 10 árum, hvað þá fyrir nær 20 árum sem liðin eru frá því að virkjanaleyfið var veitt. Þekking, viðhorf og umræða hefur gjörbreyst í þjóðfélaginu.

Í júní 1998 ákvað Landsvirkjun að láta vinna skýrslu um umhverfismat eins og um venjulegt mat á umhverfisáhrifum væri að ræða. Sú skýrsla er eitt af málsskjölum þeim sem fylgja þáltill. sem við erum að ræða hér í dag. Um það leyti sem vinna við skýrsluna var sett í gang lýsti þáv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason þeim vilja sínum að umhverfismat færi fram á Fljótsdalsvirkjun. Það kom fram í svari hans í ríkissjónvarpinu þegar hann var spurður um hvort Landvirkjun ætti að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar á eigin forsendum eða beygja sig undir gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Ráðherrann svaraði, með leyfi forseta: ,,Ef Landsvirkjun gerir þetta þá þarf engan málarekstur um þetta á Alþingi ... Ég þykist hafa séð það að iðnaðarráðherra hafi lýst svipuðum skoðunum og ég fagna því. Þess vegna finnst mér að Landsvirkjun ætti að taka ákvörðun um að setja virkjunina formlega í mat samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.``

Þetta sagði umhvrh. Guðmundur Bjarnason fyrir einu og hálfu ári síðan.

Í Morgunblaðinu tveimur dögum seinna sagði ráðherrann að sér fyndist skynsamlegast og auðveldast að iðnrh. felldi úr gildi leyfi Landsvirkjunar til að virkja Jökulsá í Fljótsdal eða að Landsvirkjun tæki sjálf ákvörðun um að framkvæmdir færu í þann farveg sem lög kveða á um í stað þess að láta vinna sjálfstætt mat á eigin forsendum.

Ríkisstjórnin er að reyna að þvo hendur sínar af slæmum vinnubrögðum með því að koma með þessa sérkennilegu þáltill. fyrir þingið núna. Ef Guðmundur Bjarnason, þáv. umhvrh., hefði ekki látið sitja við orðin tóm væri málið ekki í þeim heljargreipum sem það er statt í núna. Hér er flutt óvenjuleg tillaga um að Alþingi leggi blessun sína yfir að framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun verði haldið áfram. Stjórnvöld halda því fram að þau hafi allar heimildir til framkvæmda og fyrstu 18 síðurnar í greinargerð með tillögunni fara í að rökstyðja það álit. Þrátt fyrir það er tillagan flutt um að ekki þurfi að fara að lögum sem Alþingi hefur sett þar sem ríkisstjórnin telur sig hafa þær heimildir sem hún þarf á að halda. Þess vegna er þetta stórfurðulegt mál.

Það er óviðunandi að Alþingi sjálft geri umhverfismat eins og hér er lagt til. Það er óþolandi, herra forseti, að Alþingi fái fyrirmæli frá forstjóra Landsvirkjunar um að þetta mál verði að afgreiða fyrir jól. Þau skilaboð eru afar óviðeigandi.

Eins og fram kom í máli mínu áðan er þingflokkur Samfylkingarinnar þeirrar skoðunar að það eigi að setja virkjunarframkvæmdina í umhverfismat. Þar sem stjórnvöld efast um að það standist lagalega að krefjast lögformlegs umhverfismats hyggst Samfylkingin flytja frv. til laga um að þær framkvæmdir sem hafa virkjunarleyfi í dag en eru ekki umhverfismatsskyldar, samkvæmt svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar, hljóti ekki framkvæmdaleyfi nema að undangengnu umhverfismati. Sömuleiðis flytur Samfylkingin brtt. við þá þáltill. sem hér er til umræðu í samræmi við þá afstöðu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa tillögu okkar þó að brtt. sé ekki komin hér á borð þingmanna, en hún mun hljóða svo:

,,Á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess lýsir Alþingi yfir stuðningi við áform um gerð Fljótsdalsvirkjunar, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, og lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983, enda hefjist framkvæmdir ekki nema að fengnu jákvæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 63/1993.``

Virðulegi forseti. Þessi brtt. verður lögð hér fram á næstu stundum.

Herra forseti. Það er alvarlegt umhugsunarefni hve nú á að hraða afgreiðslu málsins. Þegar hér er komið lætur stjórnarmeirihlutinn sig muna um hvern dag. Ef rétt hefði verið haldið á málum fyrir einu og hálfu ári og framkvæmdin sett í umhverfismat með þeim flýti sem nú einkennir vinnubrögð þá hefði verið komin niðurstaða á þeim tíma sem ríkisstjórnin hefur gefið sér. Ríkisstjórnin hefur sett sér tímamörk með yfirlýsingu sem hún samþykkti á Hallormsstað 29. júní í fyrra. Samkvæmt henni binda stjórnvöld sig til að unnt verði að taka ákvörðun um að ráðast í verkefnið, vatnsorkuver á Austurlandi og álver í Reyðarfirði, fyrir 1. júni 2000. Samkvæmt yfirlýsingunni hefur álverið 120 þús. tonna framleiðslugetu í upphafi með möguleika á stækkun í áföngum upp í 480 þús. tonn.

Virðulegi forseti. Ef 120 þús. tonna álver verður byggt í Reyðarfirði samkvæmt viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Norsk Hydro er ljóst að til eftirfarandi framkvæmda þarf að koma:

Bygging álvers sem er umhverfismatsskyld framkvæmd og búið að kynna Skipulagsstofnun. Gert er ráð fyrir að formlegur matsferill hefjist innan skamms.

Höfn fyrir álverið í Reyðarfirði, sömuleiðis umhverfismatsskyld framkvæmd.

Raflína frá Fljótsdalsvirkjun að álveri, umhverfismatsskyld framkvæmd.

Virkjun í Bjarnarflagi, umhverfismatsskyld framkvæmd.

Raflína frá Bjarnarflagi eða Kröflu að álveri í Reyðarfirði, umhverfismatsskyld framkvæmd.

Fljótsdalsvirkjun er ekki umhverfismatsskyld framkvæmd að mati ríkisstjórnarinnar en það sem ég hef lesið hér varpar ljósi á hversu víðtækar framkvæmdir eiga að fara fram og hve stór hluti þeirra er umhverfismatsskyldar framkvæmdir.

Í yfirlýsingunni er annars vegar talað um Noral-verkefnið og hins vegar Noral-álverið. Fljótsdalsvirkjun verður byggð og rekin af Landsvirkjun og verður í eigu Landsvirkjunar. Ríkisstjórnin eða sveitarstjórnin á staðnum leggur til lóð undir álverið og höfn til útskipunar. Hydro Aluminium og íslenskir fjárfestar munu samanlagt eiga meiri hluta í Noral-álfélaginu en eftirstandandi hlutafé verður boðið til sölu á Verðbréfaþingi Íslands og víðar.

Í yfirlýsingunni sem stjórnvöld telja binda sig svo afdráttarlaust að ekki sé unnt að setja virkjunina í umhverfismat, og taka þar með af allan vafa gagnvart þjóðinni, lofar ríkisstjórnin að kanna möguleika á að gera Noral-álfélaginu kleift að kaupa rafmagn frá fyrirhugaðri Kárahnúkavirkjun á samkeppnishæfu orkuverði sem ákvarðast af áætlun um kostnað við fjárfestinguna. Virkja þarf á Kárahnúkum ef álverið verður stækkað um 240 þús. tonn upp í 360 þús. tonn. Meira þarf að koma til ef álverið stækkar í 480 þús.

Herra forseti. Þetta dregur athyglina að nokkrum staðreyndum. Sú fyrsta er að stuðningsyfirlýsingin sem hér er kallað eftir frá Alþingi er ekki bara um Fljótsdalsvirkjun heldur við 480 þús. tonna álver. Önnur staðreyndin er að búið er að lofa Kárahnúkavirkjun áður en hún hefur farið í umhverfismat, þó óumdeilt sé að slíkt mat eigi við um þá virkjun. Í þriðja lagi er mjög óljóst hver eignarhlutur Norsk Hydro er í Noral-verkefninu, Noral-verkefnið er að verða mjög íslenskt verkefni.

[11:15]

Í upphafi var talað um að Norsk Hydro ætti eignarhlut í virkjuninni og meiri hluta í álverinu. En áformuð hlutdeild Norsk Hydro er nú komin niður í 20--25% í álverinu eingöngu samkvæmt upplýsingum í fjölmiðlum. Ekki er upplýsingar að finna um eignarhlut Norsk Hydro í þáltill. sem hér liggur fyrir.

Það er því að verða áleitin spurning hvort Íslendingar eigi það ekki fyrst og fremst við sjálfa sig hvort fresta á framkvæmdum --- ég legg áherslu á: fresta á framkvæmdum til að framkvæma lögformlegt umhverfismat. Skýrslan liggur hér, herra forseti, og hægt er að framkvæma matið og hefja það núna strax.

Því hefur verið haldið á lofti að virkjunarheimildin sé ígildi eignar. Að ríkið gæti orðið skaðabótaskylt ef ekki yrði staðið við virkjunarheimildina. Um það vil ég segja að verið er að tala um að fresta verkinu ef á þarf að halda vegna umhverfismats en ekki taka heimildina af Landsvirkjun. Ekki hefur reynt á hvort Norsk Hydro gerir það að frágangssök þó verkið frestist um fáeina mánuði ef það þá frestast. Ekki hefur reynt á hvort Reykjavíkurborg og Akureyrarbær mundu fallast á frest til að gera umhverfismat.

Virðulegi forseti. Það er afar fróðlegt að fara yfir þetta mál. Það er mjög umfangsmikið en þingmenn hafa notað helgina vel. Fyrstu 18 síðurnar í greinargerð með þáltill. er lögfræðileg réttlæting á málsmeðferð sem krafist er af Alþingi. Maður finnur að ríkisstjórnin er í varnarstöðu og það eru miklir veikleikar í málinu.

Umhverfismatsskýrslan, sem er unnin eins og hún færi formlega til skipulagsstjóra í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, fjallar eingöngu um Eyjabakkana. Ekki er gerð tilraun til að meta Eyjabakkana sem sérstaka afmarkaða eða verðmæta stærð miðhálendisins, sem er mikil eyðimörk utan þeirra fáu grænu svæða sem allflest virðast eiga á hættu að lenda undir vatni á næstu árum ef þessi ríkisstjórn fær að ráða. Ég nefni Arnardalinn, Laugarvalladalinn og Eyjabakkana sem hverjir eru um sig sérstakar gróðurvinjar austan Jökulsár á Fjöllum þó Eyjabakkarnir hafi mesta sérstöðu.

Lítið er dvalið við þá staðreynd að orka frá Fljótsdalsvirkjun dugir ekki fyrir fyrsta hluta álvers upp á 120 þús. tonn. Til viðbótar þarf að virkja í Bjarnarflagi, en eins og fram hefur komið þarf það að fara í umhverfismat og lýtur auk þess verndarákvæðum laga um Laxárvirkjun og Mývatn, eða að virkja meira við Kröflu.

Það hefur verið upplýst að ef stíflan við Eyjabakka yrði hækkuð um 3 m þyrfti trúlega ekki að sækja viðbótarorku annað með tilheyrandi raflínum til Reyðarfjarðar og virkjunin yrði hagkvæmari. En ef sú breyting væri ákveðin í dag þyrfti að setja Eyjabakkavirkjunina í umhverfismat, svo viðamikla breytingu er talið að væri um að ræða. Það hefur hins vegar verið upplýst, hv. alþm., á fundi iðnn. að fordæmi eru fyrir ákvörðun um hækkun stífluþils eftir að framkvæmdir við virkjun voru hafnar, jafnvel lokið. Ég minni á að stíflan í Blöndu var hækkuð um 4 m árið 1997 og sú hækkun fór ekki í umhverfismat.

Þess vegna getur það gerst að eftir að framkvæmdir verða hafnar á Eyjabökkum verði sótt um heimild til að hækka stífluna. Þá færi væntanlega eingöngu viðbótin í mat og yrði þá metin út frá því að virkjun Eyjabakka væri orðin staðreynd.

Það sem mér finnst renna stoðum undir þessa kenningu er að Landsvirkjun hefur látið kanna breytta tilhögun Hraunaveitu, til þess að ná meira vatni af Hraunum til Fljótsdalsvirkjunar en unnt er að ná með Sauðárveitu sem núgildandi áform kveða á um. Í greinargerð á bls. 8 kemur fram að Eyjabakkalónið verður 44 km2 að stærð og miðlunarrými um 500 gígalítrar. Til lónsins verður veitt vatni frá Sauðárvatni, Innri-Sauðá, Grjótá og Kelduá og verður vatninu veitt frá miðlunarlóninu um 31 km aðrennslisgöng. Við Laugará er veitt vatni inn í aðrennslisgöngin frá Laugará, Hölkná og Grjótá auk þess sem Hafursá er veitt inn í Eyjabakkalón með stuttum skurði.

Tilhögun með veitum af Hraunasvæðinu kallar á meiri miðlun í Eyjabakkalóni vegna aukins aðrennslis til virkjunarinnar. Þessar athuganir gefa til kynna, og ég bið hv. alþm. að taka vel eftir þessu, að hagkvæmt verði að nýta 625 gígalítra miðlun. Takið eftir að í virkjunarleyfi iðnrh. er gert ráð fyrir Sauðárveitu en ekki Hraunaveitu meiri og þess vegna verður hún, þ.e. Hraunaveitan að fara í umhverfismat. Stærri veita af Hraunum gefur um 300 gígavattstundir á ári en Fljótsdalsvirkjun er gefin upp með 1.400.

Herra forseti. Eyjabakkalónið sjálft nær aðeins yfir lítinn hluta þess svæðis sem heildarframkvæmdir vegna Fljótsdalsvirkjunar ná til en er langviðkvæmasti og umdeildasti hluti framkvæmdarinnar. Eins og áður segir nær lónið yfir 44 km2 en fer niður í 8 km2 þegar lægst er í lóninu.

Menn hafa rætt mest um Eyjabakkana af því umhverfisspjöll þar vekja svo sterkar tilfinningar. En það er auðvitað margt annað sem hangir á þessari stóru spýtu. Miklar framkvæmdir verða við Hafursárveitu, Grjótárveitu, Hölknárveitu og Laugarárveitu vestan við lónið. Sömuleiðis við annaðhvort Sauðárveitu, sem ég hef þegar nefnt, eða veitum af Hraunum, sem ég hef einnig vikið að og er austan við lónið. Til að draga fram hvaða umfang fylgir þessum framkvæmdum langar mig að lýsa veitu af Hraunum fyrir hv. Alþingi.

Hún nær austan frá Sultarranaá og er veitt í grönnum skurði inn á vatnasvið Fellsár sem er stífluð og göng boruð vestur að Grjótá. Ytri-Sauðá er tekin inn í göngin við Hellukvísl þar sem hún er stífluð og inntaksvirki byggt. Innri-Sauðá er veitt inn á vatnasvið Grjótár og þar verður stífla og skurður. Í Grjótá verður 15 m há stífla. Frá smálóni ofan stíflunnar verða nærri 2 km göng sprengd vestur að Kelduá. Kelduá er stífluð við Folavatn sem er lítið vatn og þar er gert ráð fyrir sömu yfirfallshæð og við Eyjabakkalón. Við þetta breytist Folavatn í Kelduárlón og frá því verður skurður inn í Eyjabakkalón.

Svæðið sem ég er hér að lýsa er miklu mun lengra en ef dregin er lína í austur frá Eyjabakkalóni en Eyjabakkalónið jafnstórt og það er þegar lína er dregin frá jökli og norður að stíflu. Engum blöðum er um það að fletta að svæðið allt, ekki bara Eyjabakkarnir, gjörbreytist fyrir utan hið mikla rask sem fylgir framkvæmdatímanum. Auk þessa verða gamlir vegaslóðar endurbyggðir. Nýir slóðar verða lagðir um viðkvæm svæði.

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að fólk átti sig á því að hér er um yfirgripsmikið svæði að ræða og fjölmargar framkvæmdir, ekki bara Eyjabakkana.

Virðulegi forseti. Að lokum þetta. Í leiðara Morgunblaðsins sl. föstudag segir, með leyfi forseta:

,,Umræður síðustu missira um virkjanir norðan Vatnajökuls hafa leitt í ljós, að almenningur ber í brjósti sterkar tilfinningar til óbyggðanna og fólk er mjög hugsi yfir framkvæmdunum hverju nafni sem þær nefnast á þeim svæðum.``

Í leiðaranum er vísað til orða ungs fræðimanns við Háskóla Íslands sem sett hefur fram kenningar um ,,að þjóðarvitund okkar Íslendinga sé nú meira tengd landinu og náttúru þess en sögunum og hinni menningarlegu arfleifð.``

Niðurlagsorð leiðarans, herra forseti, eru:

,,Þetta mál kemur til kasta Alþingis á næstunni. Vonandi hugsa ráðherrar og þingmenn sig vel um áður en þeir taka ákvörðun um að efna til framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun án þess að lögformlegt umhverfismat fari fram.``

Herra forseti. Það er mál mitt í dag að draga fram þessar staðreyndir.