Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 11:24:55 (1439)

1999-11-16 11:24:55# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[11:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu talsmanns Samfylkingarinnar í málinu. Ég var reyndar spenntastur yfir að heyra eina yfirlýsingu. Hún var um það hvort talsmaður Samfylkingarinnar væri á móti því eða með að stíflað yrði við Eyjabakka og komið þar upp lóni. Ég fékk ekkert svar við því. Ég fékk það svar eingöngu að Samfylkingin virtist vera inni á því að setja slíkt lón við Eyjabakka ef skipulagsstjóri ríkisins og hæstv. umhvrh. væru sammála því. Þetta er nú öll stefnan. Það kom ekki fram hjá talsmanni Samfylkingarinnar hvort Samfylkingin væri þeirrar skoðunar að setja ætti lón við Eyjabakka eða ekki. Hvort sökkva ætti Eyjabökkum, eins og það heitir, eða ekki. Í langri ræðu sem lauk með leiðara Morgunblaðsins kom ekkert svar við því hvort Samfylkingin vildi sökkva Eyjabökkum eða láta það vera. Eingöngu vildi Samfylkingin vita hvort skipulagsstjóri og hæstv. umhvrh. væru inni á því. Þetta er allt framlagið. Það er afskaplega mikilvægt fyrir almenning í landinu. (Gripið fram í: Þetta er nú lélegur málflutningur hjá þér.) Er það, hv. þm.? Hlustaðu þá, ræðan er ekki búin, hún er rétt að byrja. En ég skil vel að hv. þm. líði ekki vel undir þessum staðreyndum. En almenningur hefur mjög gott af því að heyra á hvern hátt þetta mál er lagt fram og hvernig það er kynnt.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar fyrir sitt leyti samþykkt og stendur að því að farið verði í þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til þess að virkja á Fljótsdal og reisa álver við Reyðarfjörð. Því fylgir sú lónsmyndun sem tillögurnar sem hér eru bera með sér. Við erum ekkert að skorast undan því að axla þá ábyrgð. Það er með þeim hætti sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar eiga að starfa og það er á þann veg sem það ræðst hvort stjórnmálaflokkar njóta trausts eða njóta ekki trausts.

Það er nefnilega þannig að í stjórnmálum er það ekki leiðin að leita eftir stundarstuðningi. Hann getur hrokkið til og frá. Í stjórnmálum er meginatriðið að reyna að öðlast langvarandi traust. Langvarandi traust fæst ekki með málatilbúnaði af því tagi að heill stjórnmálaflokkur komi fram og það viti enginn um afstöðu hans til stærsta deilumálsins, hvort setja eigi lón við Eyjabakka eða ekki.

Ég hygg hins vegar að vinstri grænir séu með þetta nokkuð á hreinu. Ég er ósammála þeim að sjálfsögðu, en ég hygg að þeir séu með sitt mál nokkuð á tæru og það hlýtur að skipta nokkru máli fyrir kjósendur einnig.

Hv. þm. sem síðast talaði hóf mál sitt á því að segja að miklu máli skipti að fara að settum leikreglum. Þar er stefna ríkisstjórnarinnar algerlega klár. Ríkisstjórnin fer að þeim leikreglum sem settar hafa verið, ekki af henni sjálfri heldur þinginu, löggjafarsamkomunni sjálfri. Og þær leikreglur skylda ekki Landsvirkjun til þess að fara út í það sem kallað er lögformlegt umhverfismat. Við förum eftir þeim leikreglum. Þetta eru leikreglur sem öllum mönnum hafa verið ljósar um langa hríð.

Að þessu máli hafa allir stjórnmálaflokkarnir komið með jákvæðum hætti í þeim skilningi að leggja þessari framkvæmd jákvætt lið, að Kvennalistanum hygg ég undanskildum. Að vísu eru vinstri grænir nokkuð undanþegnir. En þó er það svo að formaðurinn sjálfur bar á því pólitíska ábyrgð með öðrum samráðherrum sínum að í þessa virkjun yrði farið og hann bar pólitíska ábyrgð á skóflustungunni frægu sem tekin var. Í svona stóru máli ber ríkisstjórnin að sjálfsögðu kollektíva ábyrgð og það getur enginn hlaupist frá slíkri ábyrgð sem í ríkisstjórn situr nema hlaupa úr ríkisstjórninni og það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, ekki. (Gripið fram í.) Lítill tími til að hlaupa, segir þessi mikli hlaupari, og ber því fyrir sitt leyti fulla ábyrgð á málinu.

[11:30]

En ríkisstjórnin gengur lengra en að láta sér nægja að fara að hinum settu leikreglum sem hún styðst við. Hún undirbýr og leggur fram till. til þál. þannig að Alþingi geti veitt pólitískan stuðning sinn við verkið, við ríkisstjórnina. Þetta er aðferð sem er umfram nauðsyn. Það er ekkert sem kallar sérstaklega á eða knýr á um að ríkisstjórnin leggi fram þáltill. af þessu tagi. En ríkisstjórnin vill tryggja sem mesta umræðu um máli, til að mynda til þess að það upplýsist, eins og gerðist í dag, að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur enga skoðun á því hvort það eigi að setja lón við Eyjabakka eða ekki. Meðal annars til þess að knýja fram slíkar játningar þannig að slíkur þingflokkur standi berrassaður gagnvart þjóðinni er þessi málatilbúnaður hafður í frammi en jafnframt til þess að draga saman á einn stað allar þær upplýsingar sem liggja nú fyrir í málinu og sýna og sanna hversu málefnalega hefur verið staðið að máli þessu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er tilgangurinn með framlagningu þessarar þáltill.

Almenningur þarf nefnilega að fá að vita --- og það kemur fram í þessum gögnum --- að þeir stjórnmálaflokkar sem eru núna að reyna að fiska í gruggugu vatni hafa sumir hverjir verið fremstir í fylkingu, um það get ég svo sannarlega vitnað, um að koma á þessari virkjun. Almenningur verður að fá að vita það. Almenningur þarf líka að fá að vita að þegar það stóð til voru umhverfisskaðarnir, sem því áttu að fylgja, mun meiri en nú gerist og hin sama fríða fylking setti það ekki fyrir sig.

Það kemur því mjög glöggt fram í þessari skýrslu á gögnum hversu umhverfistjónið, sem fylgir óhjákvæmilega virkjuninni, það verður auðvitað nokkurt og ekki er farið í grafgötur með það, hefur minnkað frá því þegar menn galvaskir gengu fram og studdu og voru í forustu fyrir því að virkjun af þessu tagi ætti sér stað. Vatns- og miðlunarlón hafa minnkað um tugi ferkílómetra. Skurðir ofan jarðar hafa minnkað verulega. Flutningslínur um víðernin miklu hafa horfið. Það sem hefur sem sagt breyst er þetta: Áður var virkjað á Fljótsdal samkvæmt hugmyndum sem flokkarnir stóðu að til þess að koma á álveri við Keilisnes. Þá þurfti að flytja þá raforku með miklum mannvirkjum suður með öllum þeim umhverfisspjöllum sem því fylgdu og menn voru sannarlega tilbúnir til þess í Alþfl. til að mynda og hluti Alþb., eins og sést af því sem var vitnað til Hjörleifs Guttormssonar hér áðan, tilbúnir til að gera það og með því að sökkva miklu stærri svæðum á Austuröræfunum undir vatn en nú stendur til.

Í mínum huga er afar þýðingarmikið að almenningur átti sig á þessum hlutum eins og nú eru gerðar miklar tilraunir til þess að rugla þennan sama virðulega almenning í ríminu.

Segja má að það hafi að hluta til tekist því að í öllu talinu um hið lögformlega umhverfismat er svo komið að 80% telja sig ekki skilja þann málflutning. Ég er í þeim hópi og uni mér glaður í þeim hópi að skilja ekki málflutninginn um hið lögformlega umhverfismat nema þá það eitt hjá flokki, sem getur ekki gert upp við sig hvort hann vill sökkva Eyjabökkum eða ekki, nema í þeim tilgangi hjá slíkum flokkum að reyna að slá ryki í augu almennings í landinu.

Þegar farið er af stað með undirskriftasafnanir gæta menn sín á því og segja: Við viljum fá umhverfismat en minnast ekkert á hið lögformlega. En það er akkúrat það sem gert er, það er framkvæmt umhverfismat, þ.e. sá meginþáttur kemur fram þar sem mikilvægastur er og hann liggur fyrir hér: Að menn fari ekki í framkvæmdir af neinu tagi fyrir austan nema vita eins nákvæmlega og verða kann hvað það er sem sú framkvæmd kostar í umhverfisþáttum. Það liggur allt fyrir skjalfest. Það verður ekkert meira skjalfest í svokölluðu lögformlegu umhverfismati. Það er það sem ég hygg að vaki fyrir fjöldanum að menn æði ekki af stað í framkvæmdir án þess að hafa gert sér grein fyrir hvað það kostar í umhverfisþættinum. Það hefur allt verið kortlagt og verður ekki betur kortlagt með svokölluðu lögformlegu umhverfismati.

Þetta liggur fyrir og er afar þýðingarmikið að almenningur í landinu geri sér grein fyrir. Að hið lögformlega umhverfismat mun ekki afla neinna nýrra upplýsinga sem skipta máli umfram það sem þegar hefur verið aflað með ærnum kostnaði og mikilli vinnu, meiri vinnu en nokkru sinni fyrr hefur verið lögð í slíkan undirbúning, meiri vinnu en þeir samfylkingarmenn sem þykjast nú vera á móti málinu ætluðu sér nokkurn tíma að leggja í undirbúning gagnvart þeirri virkjun sem þó átti að skaða umhverfið miklu meira en hér er gert.

Ég hygg að þegar menn átta sig á þeirri staðreynd að umhverfismatið hefur átt sér stað, þ.e. menn hafa rannsakað í þaula áhrif virkjana og lóna á alla þætti náttúrulífs, jafnt jurta- sem dýralífs, muni menn hugsa sinn gang á nýjan leik og átta sig á því að það er verið með ómerkilegum hætti af hálfu flokka, til að mynda sem geta ekki gert upp við sig meginþætti málsins, að slá ryki í augu almennings í landinu. Slíkir flokkar og slíkir talsmenn munu ekki fá traust, enda eiga þeir það ekki skilið. Þeir munu fá vantraust og eiga það skilið. Menn gera kröfu til þess að menn standi fyrir framan fólkið í landinu og segi skoðun sína á máli eins og þessu.

Það hefur verið nefnt í fyrr í umræðunni, ekki á þessum vettvangi nú, að slíkar framkvæmdir séu óheppilegar á þessum tíma vegna efnahagsástandsins. Það er ekki rétt. Þessi framkvæmd nú fellur ákaflega vel inn í efnahagskúrfuna sem við erum núna í. Það verður mikið fall á fjárfestingum í landinu akkúrat um þær mundir þegar þessar framkvæmdir eiga að hefjast. Það er því afar þýðingarmikið til að tryggja áframhaldandi efnahagsvöxt í landinu, áframhaldandi það sem menn hafa nefnt góðæri í nokkur ár í viðbót, 6, 7, 8 ár í viðbót og síðan þann efnahagslega ávinning sem þessum framkvæmdum fylgir, það er afar þýðingarmikið að þetta komi inn akkúrat á þessum tíma. Það fellur afar vel að efnahagskúrfunni sem þjóðin býr við um þessar mundir.

Ég er sannfærður um það að þessi virkjun og þessi framkvæmd eigi eftir að verða þjóðinni sem heild til góða. Allt efnahagslíf landsins á eftir að njóta góðs af framkvæmdinni. En auðvitað er það svo að Austurland sérstaklega mun njóta góðs af framkvæmdinni. Það er afar þýðingarmikið í mínum augum að sá stóri landsfjórðungur fái notið þessarar framkvæmdar. Það er alveg rétt að þó að virkjanir og uppbygging á orkufrekum iðnaði nýtist í þágu landsins alls þá hefur hann ekki síst á undanförnum árum byggt upp svæði í kringum höfuðborgina og höfuðborgarsvæðið. Það hefur verið gagnrýnt af ýmsum talsmönnum landsbyggðarinnar og það með nokkrum rétti. Ég held þess vegna að það sé viðbótarávinningur fyrir þjóðina, fyrir samfelluna hjá þjóðinni og samheldni hennar að sú framkvæmd sem við erum að undirbúa hér skuli sérstaklega, með aðgengilegustum hætti, koma Austfirðingum til góða. Við sem viljum heilbrigða og öfluga byggðastefnu í landinu eigum sérstaklega að fagna þeim þætti. Ég er einn af þeim sem vilja styðja og stuðla að öflugri byggðastefnu og vera trúverðugur í þeim efnum og þess vegna fagna ég sérstaklega þessar framkvæmd. (SJS: Þú hefur nú verið í aðstöðu til þess undanfarin ár.) Þakka þér fyrir það, Steingrímur.