Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 11:40:33 (1440)

1999-11-16 11:40:33# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[11:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Þáltill. sú sem hér liggur fyrir er sögulegt plagg. Hvernig sem afgreiðsla hennar fer þá á hennar eftir að verða getið í annálum, fyrst og fremst vegna þess að með henni gerir hæstv. iðnrh. og í raun og veru ríkisstjórnin öll þá kröfu á Alþingi að það gegni hlutverki Skipulagsstofnunar, stofnunar sem lögum samkvæmt er ætlað það mikilvæga hlutverk að meta umhverfisáhrif stórframkvæmda sem gætu haft víðtæk áhrif á náttúru landsins.

En ekki síður fyrir það að nú er komið í ljós, samanber ummæli hæstv. iðnrh. í Ríkisútvarpinu í morgun, að henni er ætlað að vera sáttarhöndin, sáttarhönd í einhverju erfiðasta deilumáli sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir síðustu áratugi. Hér er komin sáttin sem Framsfl. boðaði í kosningabaráttunni í vor að væri svo mikilvægt að næðist um Fljótsdalsvirkjun.

En ríkisstjórn Íslands hefur skellt skollaeyrum við háværum kröfum alls staðar að úr samfélaginu um að virkjunin fari hina lögformlegu leið og þannig ákveðið að sniðganga lögin um mat á umhverfisáhrifum með því að fela sig á bak við bráðabirgðaákvæði þeirra sem lögfræðinga greinir á um hvort standist og lýsa yfir vantrausti á Skipulagsstofnun. Þannig er það til komið að alþingismenn sitja nú með skýrslu eina mikla sem Landsvirkjun hefur látið útbúa og er í eðli sínu frummatsskýrsla, ágætlega til þess fallin að fara í það ferli sem lögunum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að marka. Það ferli er afar mikilvægt fyrir stjórnvöld, framkvæmdaaðila og þjóðina alla, ekki síst þegar fyrir dyrum standa óafturkræf spjöll á náttúruperlum í fremstu röð á íslenskan sem alþjóðlegan mælikvarða.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur skýra stefnu í umhverfismálum. Þingflokkurinn hefur á þeim fáu vikum sem liðnar eru af þinginu lagt fram fjölda mála sem tengjast sýn okkar á hagsælt líf þjóðarinnar þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra þróun sem byggir á lifandi samskiptum og sátt manns og náttúru og því sjónarmiði hafnað að maðurinn sé herra jarðarinnar heldur sé okkur skylt að sýna landinu og náttúrunni allri virðingu og umgangast hana þannig að ekki séu skertir möguleikar komandi kynslóðar til að njóta gæða hennar. Með öðrum orðum höfum við hvatt til þess að sjálfbær þróun verði höfð að leiðarljósi í stefnumörkun okkar til framtíðar.

Sjálfbær þróun er þannig skilgreind í frægri skýrslu sem kennd er við Gro Harlem Brundtland og kom út árið 1987, með leyfi forseta:

,,Sjálfbær þróun er sú þróun lífs á jörðinni sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að rýra möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.``

Sjálfbær þróun er lykilorð í stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þannig höfum við lagt áherslu á að mótuð verði stefna til framtíðar, ekki hvað síst í orkumálum. Ég hef nýlega mælt fyrir tillögu um sjálfbæra orkustefnu þar sem inntakið er hlífð við landið, byggð á víðtæku mati og hagnýtingu orkulinda lands okkar með það ekki síst að markmiði að þjóðinni gefist kostur á að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með vistvænum orkugjöfum. Með því má ásamt ýmsum öðrum jákvæðum aðferðum draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem ógna nú jafnvægi í lofthjúpi og víða í vistkerfum jarðarinnar og geta haft víðtæk og vægast sagt hörmuleg áhrif í nánustu framtíð og eru þau áhrif raunar þegar orðin svo merkjanleg og svo ógnvekjandi að menn víkja sér undan því að horfast í augu við þau.

[11:45]

Í ótal fyrirspurnum höfum við lagt áherslu á þá stefnu okkar að staðfesta beri Kyoto-bókunina um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda. En svo sem kunnugt er mun stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar kollvarpa öllum slíkum áformum. Umhverfisráðherra Finnlands telur Kyoto-bókunina metnaðarfyllsta milliríkjasamning sem gerður hefur verið í þeim tilgangi að varðveita lífheiminn fyrir komandi kynslóðir en íslenska ríkisstjórnin hefur ekki áhyggjur af lífsmöguleikum komandi kynslóða.

Virðulegi forseti. Þáltill. sú sem hér liggur fyrir gefur að sögn hæstv. iðnrh. gott tækifæri til að líta heildstætt á málið og kryfja það til mergjar. Það skulum við gera, líta heildstætt á þetta mál.

Virðulegi forseti. Hvers konar framkvæmd er það sem hér liggur fyrir að hrint verði af stokkum? Jú, 480 þús. tonna álverksmiðja skal reist á Reyðarfirði. Bíðum nú við, hvað þýðir það? Hversu stór er 480 þús. tonna álverksmiðja? Hún er nákvæmlega þrisvar sinnum stærri en álverksmiðjan í Straumsvík eftir að hún var stækkuð um helming. Álverksmiðjan í Straumsvík hefur 160 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Verksmiðjan á Reyðarfirði á að vera þrisvar sinnum stærri. Til hennar þarf að afla rafmagns og ekki neins smáræðis heldur er gert ráð fyrir að virkja þurfi nánast öll jökulvötn norðan Vatnajökuls, reisa virkjanir með uppistöðulónum sem sökkva tugum ferkílómetra gróins lands undir jökulvatn á fjórum stöðum auk einnar jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi. Það er gert ráð fyrir virkjunum með hátt í 1.500 megavatta afli eða samtals 7 teravattstunda framleiðslu á ári. Það er, virðulegi forseti, nokkurn veginn jafnmikil raforka og við öflum í dag með öllum okkar virkjunum til allra okkar almenningsveitna og allrar þeirrar stóriðju sem til er í landinu í dag.

Þessari framkvæmd fylgja óhjákvæmilega línulagnir og það þarf ekki að hafa mörg orð um stærð og fyrirferð þeirra lína þegar haft er í huga að hér er um að ræða línur sem þurfa að flytja jafnmikið rafmagn og framleitt er á landinu öllu í dag. Þetta eru nákvæmlega jafnumfangsmiklar og erfiðar línur og mannvirki og fyrirhugað var að reisa yfir Ódáðahraun þegar til umræðu var álverksmiðja á Keilisnesi.

Framkvæmdinni fylgir líka vegagerð, hafnargerð, brúarframkvæmdir og byggingar. Fyrir hana þarf að dýpka Lagarfljót, slétta út nokkra hólma og sker, reka niður stálþil hér og þar við árbakka fljótsins, bora aðrennslisgöng og frárennslisgöng í kílómetratali og milljón rúmmetrum verður smurt yfir sögusvið Hrafnkelssögu. Svo þarf að byggja ný hverfi, nýja íbúðabyggð, trúlega á nokkrum stöðum á Austurlandi, með skólum og þjónustustofnunum af ýmsu tagi, byggja upp vegi og gera kannski nokkur jarðgöng. Þetta er gróft yfirlit yfir framkvæmdina sem stendur fyrir dyrum.

Hæstv. iðnrh. vill að alþingismönnum sé gefinn sá kostur að líta heildstætt á málið. Það skulum við þá líka gera, virðulegi forseti, ef eitthvert vit er í okkur, að líta heildstætt á málin og setja alla þætti framkvæmdarinnar í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum, enda allir þættir framkvæmdarinnar þess eðlis að þeir eru háðir slíku mati.

Það er líka kúnstugt svo ekki sé meira sagt að hæstv. iðnrh. skuli beita þessari aðferð við afgreiðslu lítils hluta þessarar risaframkvæmdar í ljósi þess að frummatsskýrsla álversins liggur nú fyrir og er í matsferli. Þar er ekki bara verið að meta fyrsta áfanga álversins, ónei, heldur allan pakkann, 480 þús. tonna álbræðslu. Boðað hefur verið að línulagnirnar, a.m.k. að einhverjum hluta, komi til kynningar innan skamms og þá spyr ég: Hvers vegna ekki að horfa heildstætt í málin í alvöru og setja alla framkvæmdina í mat? Markmið laganna um mat á umhverfisáhrifum er hreinlega þannig.

Það sem er meira virði, virðulegi forseti, er að í drögum að frv. til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum sem kynnt voru fyrir ári síðan og boðað er að komi fyrir þingið í endanlegu frv. á næstu vikum er hnykkt á þeim skilningi sem ég hef lýst. Í þeim drögum segir í skýringarkafla, með leyfi forseta:

,,Í 5. gr. er ráðherra veitt heimild til að ákveða að hægt verði að meta umhverfisáhrif framkvæmda sameiginlega í þeim tilvikum að fleiri en ein matskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði.``

Lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, átti strax að endurskoða til að tryggja að markmiðum laganna yrði náð. Um það hafa stjórnvöld svikist. Þess í stað hafa þau lengt líftíma bráðabirgðaákvæðis II í lögunum meðvitað og hleypt hverri stórframkvæmdinni á fætur annarri fram hjá mati í skjóli þess ákvæðis sem sannarlega var aldrei ætlað að tryggja annað en að nokkrir vegir yrðu lagðir og nokkrar brýr byggðar sumarið 1993.

Hæstv. forsrh. segir að lögin um mat á umhverfisáhrifum séu lítið annað en kortlagning. Ég mótmæli því. Hér er um faglegt mat færustu sérfræðinga að ræða sem fær formlega og lýðræðislega umfjöllun með formlegri heimild almennings með umsagnarrétti á málinu.

Annað vil ég nefna, herra forseti, sem styður þá kröfu að litið verði heildstætt á málin en fyrirhuguð er rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um virkjanir og virkjanakosti framtíðarinnar. Vinna við þá rammaáætlun er farin af stað og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa gagnrýnt að hún skuli á forræði iðnrh. en ekki umhvrh., en látum það vera. Rammaáætlunin er tvímælalaust af hinu góða og bráðnauðsynleg. Henni er ætlað að leggja mat á virkjanakosti út frá ýmsum sjónarmiðum og forgangsraða þeim að sögn hæstv. iðnrh., m.a. í þeim tilgangi að forðast deilur á borð við þær sem staðið hafa yfir um alllangt skeið vegna Fljótsdalsvirkjunar. Gott og vel.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að allir helstu náttúrufarsþættir verði metnir auk samfélagsþáttanna og gert ráð fyrir þátttöku hagsmunaaðila. Það má eiginlega segja að hér verði um að ræða heljarmikið frummat virkjanakosta á landsvísu sem er í alla staði skynsamleg ráðstöfun. Hún býður upp á meðvitaða framtíðarsýn, er gert að leggja mat á hagræna þætti og hana virðist eiga að framkvæma mjög lýðræðislega. Þó er vægi verkfræðinga í verkefnisstjórninni raunar fullmikið fyrir minn smekk og gagnrýnivert. Sömuleiðis eiga stórir hagsmunaaðilar á borð við Samtök sveitarfélaga á Austurlandi sæti í nefndinni en látum það allt liggja á milli hluta. Með rammaáætluninni yrði til svigrúm til að vega og meta ólíka virkjanakosti, svigrúm til að velja og hafna. Þar að auki verður með henni aukið við þekkingu okkar á náttúrufari landsins og jafnvel mætti hugsa sér að þar skapaðist auðlind, hugsanlega gagnagrunnur um náttúru Íslands sem nýst gæti nemendum og kennurum á öllum skólastigum, sem og fræðimönnum innlendum sem erlendum. Líklega sjá allir endalausa möguleika með slíkri hugmynd.

Þetta er allt hið besta mál en þó er einn hængur á: Fljótsdalsvirkjun á ekki að vera með. Hún á ekki að tilheyra virkjanakostunum sem verða metnir í rammaáætluninni. Ég spyr hæstv. iðnrh. og raunar ríkisstjórnina alla: Sjáið þið ekki hvað þetta er fjarstæðukennt? Sjáið þið ekki að þetta er storkun við þjóðina og þann mikla fjölda sem krefst þess að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum? Varðandi alla þessa orku sem setja á í eina álbræðsluhlussu á Austurlandi, finnst ykkur ekkert athugavert við að binda þannig kannski 3/4 hluta allrar raforku sem framleidd er og seld á Íslandi við afskaplega sveiflukennt heimsmarkaðsverð á áli? Er þetta góð búmennska? Það finnst ekki þeim hagfræðingum sem hafa tjáð sig um málin að undanförnu.

Vissulega hefur það sín áhrif að hver hagfræðingurinn á fætur öðrum sér ástæðu til að skrifa miklar greinar um blekkingar Landsvirkjunar varðandi hagkvæmni raforkusölu til stóriðju. Ríkisstjórnin hefur ekki gert marktækar til tilraunir til að svara þeim hagfræðingum með haldbærum rökum. Hér er ekki um neina tyggjópeninga að ræða. Hér er um að ræða tilgátur um tap á upp á 13--22 milljarða á Fljótsdalsvirkjun einni. Hæstv. iðnrh. svarar einungis með skætingi ef hann svarar þá einhverju, eins og sjá mátti á síðum Morgunblaðsins 25. nóvember 1998. Ætlar ríkisstjórnin ekki að svara því neinu að samkvæmt útreikningum hagfræðinga virðist hvert ársverk í álverinu eiga að kosta skattborgarana 55 millj. kr.?

Herra forseti. Á þeim tíma sem hér er til umráða hef ég ekki tækifæri til að fara í smáatriðum ofan í skýrslu þá sem hér er lögð fyrir. Eitt af því sem ríkisstjórnin og Landsvirkjun hafa hangið á, eins og hundar á roði segja sumir, er virkjunarleyfið sem gefið var út af Jóni Sigurðssyni þáv. iðnrh. árið 1991. Leyfið er fjarskalega umdeilt og að mati sumra lögfræðinga stenst það ekki lög. Það raunar ekki nema hluti af formlegum leyfum sem þarf og hefur alla tíð þurft lögum samkvæmt til að reisa mannvirki á borð við þau sem hér um ræðir. Leyfið kveður á um ákveðna stærð Fljótsdalsvirkjunar. Vörn Landsvirkjunar, í ströggli sínu við að undanskilja virkjunina lögformlegu mati, gengur m.a. út á að leyfið sé til staðar og meðan tilhögun virkjunarinnar sé óbreytt þurfi ekki að endurnýja leyfið. Herra forseti, þetta er firra því að skýrsla sú sem nú liggur fyrir tíundar hverja breytinguna á fætur annarri á tilhögun virkjunarinnar frá því sem áætlanir ársins 1991 gengu út á.

Bara til að nefna nokkur atriði er getið um breytingar aðkomuganga á bls. 24 og 25. Þar eru tíundaðar breytingar á staðsetningu stöðvarhúss, breyting á frárennslisgöngum og á næstu síðum breytingar á tengivirki, breytingar á Hafursárveitu, breytingar á Hölknárveitu að ógleymdri Hraunárveitu sem, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á, hefur ýmist verið á borðinu eða ekki og er sjálfstæður virkjunarkostur sem þarf að lúta reglum um umhverfismat. Ekki er heldur búið að ákveða hvenær Sauðárveita verður hönnuð og svona mætti lengi telja. Allar þessar breytingar, virðulegi forseti, og fleiri sem skýrslan greinir frá gera að verkum að hér er til umfjöllunar allt önnur virkjun en sú sem gefið var út leyfi fyrir fyrir tæpum áratug. Allar breytingar frá þeirri útfærslu gera það að verkum að virkjunina ber að senda í lögformlegt matsferli. Þannig eru lögin í landinu, samþykkt af löggjafarsamkundunni árið 1993.

Herra forseti. Hver eru rök hæstv. ríkisstjórnar og Landsvirkjunar er þetta varðar? Jú, allar breytingar sem gerðar hafa verið á tilhögun virkjunarinnar eru til bóta. Heyr á endemi. Hvað segir það um skilning hæstv. ríkisstjórnar á lögunum um mat á umhverfisáhrifum, að umhverfismat beri einungis að framkvæma ef spaðaásinn er í kortunum? Ber einungis að framkvæma umhverfismat ef eitthvað neikvætt eða skaðlegt er á teikniborðinu? Þetta stangast á við markmið laganna og það er hryggilegt til þess að vita að þjóðin skuli búa við ríkisstjórn sem fer fram með þessu offorsi með svona kirfilega bundið fyrir augun.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gera þá kröfu á hæstv. ríkisstjórn að þessi mál verði tekin til endurskoðunar í heild sinni. Að okkar mati er lífsnauðsynlegt að ekki verði ráðstafað meiri raforku til stóriðju eða orkufreks iðnaðar fyrr en búið er að marka stefnu til frambúðar. Vissulega berum við þá von í brjósti að sú stefna komi til með að lúta lögmálum sjálfbærrar þróunar eins og fram kemur í þáltill. okkar um sjálfbæra orkustefnu. Við gerum okkur vonir um að í framtíðinni verði ekki ráðist í framkvæmdir af þessu tagi nema allir þættir málsins séu skoðaðir sem ein heild. Við gerum okkur vonir um að að því komi að ákvæði verði bætt við lögin um mat á umhverfisáhrifum, ákvæði um að framkvæmdir skuli gangast undir arðsemismat. Það er í raun sjálfsagt mál og hreint út sagt undarlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að slíkt mat sé gert vegna þeirra framkvæmda sem við höfum nú til skoðunar.

Við sjáum í hillingum þá tíma þegar hagkvæmni þess að virkja ekki verður reiknuð út af okkar færustu reiknimeisturum og okkur sýnt fram á það með óyggjandi rökum að einmitt það að virkja ekki geti borgað sig. Eða gera menn sér grein fyrir því hversu lengi kröfunni um friðun Eyjabakka og Snæfellssvæðisins hefur verið haldið á lofti? Það eru a.m.k. 25 ár, sennilega þó nær 30, síðan Náttúruvernd ríkisins setti Eyjabakka, Vestur-Öræfi og Snæfellssvæðið allt á náttúruminjaskrá í þeim tilgangi að ná fram friðlýsingu. Jafnlangt er síðan Náttúruverndarsamtök Austurlands hófu á loft hugmyndir um Snæfellsþjóðgarð. Það er synd og skömm að vita til að Landsvirkjun hafi á sínum tíma beinlínis komið í veg fyrir friðlýsingu svæðisins. Þá náðist ekki að friðlýsa Vestur-Öræfi heldur einungis Kringilsárrana, sem er mikilvægt burðarsvæði hreindýra, og jafnvel hann á að skerða núna með áformum um Kárahnúkavirkjun og Hálslón. Svona hefur ítrekað verið troðið á náttúruverndarsjónarmiðum gegnum tíðina. Menn sjást ekki fyrir í aðferðum sínum og hroka og það hefur náttúruvernd og náttúruverndarsinnar mátt þola.

Herra forseti. Okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefur verð legið á hálsi fyrir það að við séum ,,fúl á móti``, á móti öllu. Hæstv. utanrrh. heldur því meira að segja fram að við séum á móti framtíðinni. Það er ekki rétt. Við sjáum bara fyrir okkur annars konar framtíð en hann og hæstv. ríkisstjórn. Við viljum friða Eyjabakkana og stofna þjóðgarð um Snæfellssvæðið. Við trúum því að vistvæn ferðaþjónusta á forsendum náttúru og menningar í landinu eigi eftir að skaffa okkur andlegan og veraldlegan auð til frambúðar. Við sjáum fyrir okkur vistvænan hátækniiðnað í nánu sambýli við náttúru landsins og menningu á háu stigi með fræðasetrum og söfnum, leikfélögum og kórum, vísindamönnum úr öllum greinum vísindanna. Okkar boðskapur hefur verið sá að nauðsynlegt sé að hægja á því gönuhlaupi sem stjórnvöld standa hér fyrir meðan menn eru að ná áttum og leita sátta um leikreglur og næstu skref.