Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:01:13 (1441)

1999-11-16 12:01:13# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, BergH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:01]

Bergljót Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur afstaða til stórra raforkuvera og orkufreks iðnaðar gjörbreyst. Áður var stóriðja lykilorðið og sú tilhugsun að hafa nokkur álver meðfram strandlengjunni þótti beinlínis notaleg. Stórhuga fólk sá Ísland fyrir sér sem athvarf helstu stóriðjuvera í heiminum. Stórhuga menn sáu einnig fyrir sér að þar sem Ísland er auðugt af vatnsföllum og fossum væri hér á landi ein af stærstu náttúruauðlindum í heiminum og jafnvel vænleg til útflutnings.

Stórhuga menn hafa ætlað sér margt á Íslandi, að virkja Dettifoss og selja Gullfoss og norðurljósin. Stjórnvöld þessa lands hafa líka verið stórhuga. Skemmst er að minnast þeirrar hugmyndar að hér væru ein bestu skilyrði í heiminum til refaræktar og þjóðin hreifst með. Stærsta refabú í heimi var byggt hér á landi en einhverjum úti í hinum stóra heimi datt í hug að mótmæla því að loðfeldir væru búnir til úr refaskinnum, heimsmarkaðsverð kolféll og stærsta refabú í heimi er nú væntanlega laust við refi norðan heiða.

Nú í lok 20. aldar eru umhverfismál eitt helsta baráttumál í heiminum og litrófið í þeim efnum æ fjölbreyttara og við verðum að taka afstöðu til umhverfismála, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ríkisstjórnin hefur þegar sýnt hversu litla virðingu hún ber fyrir umhverfinu, t.d. þegar hún gerði íslensku þjóðina að athlægi á alþjóðlegum vettvangi með því að krefjast sérstakrar meðhöndlunar Íslands og veigrar sér við að gangast undir sömu skilyrði og aðrar þær þjóðir sem standa að Kyoto-sáttmálanum. Ríkisstjórnin telur að Ísland eigi einhvern mengunarkvóta og geti hafist handa við að vinna upp marga áratugi þar sem okkur tókst ekki að menga umhverfi okkar jafnmikið og öðrum umhverfissóðum.

Íslensk stjórnvöld einblína hins vegar á stóriðjuna. Stóriðjan á að bjarga fjárhagnum um aldir alda, tryggja öllum atvinnu og jafnvel halda uppi menningarlífi á fjarlægum stöðum ef marka á hástemmdar lýsingar ráðamanna. Það er nauðsynlegt að Íslendingar eigi samstarf við aðrar þjóðir sem bera hag náttúrunnar og framtíð mannkyns fyrir brjósti. Vatnsaflsvirkjanir þykja ekki eins góður kostur í dag og þær þóttu áður. Skýrsla Landsvirkjunar er viðamikil en ekki er hægt að ganga út frá henni sem lögformlegu umhverfismati, til þess hlýtur hún að vera of hlutdræg því að Landsvirkjun ætlar að stjórna virkjunarframkvæmdum og hverjum þykir sinn fugl fagur þó hann sé bæði ljótur og magur. En það sýnir hversu stórhuga ríkisstjórnin er að óskir um mat á umhverfisáhrifum eru afgreiddar sem of seint fram komnar. Ríkisstjórnin er búin að ákveða hvernig á að haga málum. Lög um umhverfismat voru ekki samþykkt fyrr en ríkisstjórnin var búin að ákveða sig og verður ekki aftur snúið. Ekki má skipta um skoðun. Hér á landi er það nefnilega höfuðsynd hjá íslenskum stjórnmálamönnum að skipta um skoðun. Það er kannski ekki hægt að lá þeim það að vera hræddir við slíkt því að þessari hefð viðhalda fréttamenn. Þeir hreinlega brjálast ef einhver stjórnmálamaður slysast til að skipta um skoðun og eru þeir sakaðir um vingulshátt og hagsmunapot. En hugsandi manni er eðlilegt að skipta um skoðun og vegna mats á umhverfisáhrifum er í raun nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að skoða hug sinn vel. Það er ekki hægt að ríghalda í einhverja hugmynd sem kannski var fengin árið 1955 eða 1976 ef forsendur hafa breyst og forsendur hafa breyst varðandi náttúruvernd og umhverfi í heiminum í dag. Allir Íslendingar hljóta að sætta sig við að þeir tilheyra samfélagi þjóðanna. Íslendingar ættu líka að vera mun gætnari varðandi umhverfismál en margar aðrar þjóðir vegna þess að landið okkar er ofurviðkvæmt og þolir illa hnjask.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. og einnig hæstv. iðnrh. hafa haldið því mjög á lofti að virkjun í Fljótsdal sé mikilvægsta byggðamál um áratuga skeið. Ef fólk er á móti Fljótsdalsvirkjun þá er það á móti því að sporna við landsbyggðarflóttanum. Þetta eru bæði ábyrgðarlaus og óviðeigandi rök. Með þessu er verið að etja saman landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu eins og það sé höfuðborgarbúum að kenna að flóttinn af landsbyggðinni er þvílíkur sem hann er. Það gleymist svo oft í þessari umræðu hve fá við erum og að hver íbúi þessa lands er mikilvægur. Það er mikið áhyggjuefni hve fólksflóttinn er mikill af landsbyggðinni, ekki síður fyrir höfuðborgarbúa en aðra landsmenn. En það er ekki hægt að rökstyðja það að mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar fari ekki fram vegna byggðaflótta.

Herra forseti. Í athugasemdum með till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun segir að bygging virkjunarinnar sé meginforsenda þess að unnt sé að sjá fyrirhuguðu álveri fyrir nægri orku eigi það að taka til starfa árið 2003. Þar segir líka að augljós áhrif á byggingartíma séu efling verktakastarfsemi, hærra þjónustustig á svæðinu og aukin vinna.

Ef þetta á fram að ganga er hætt við því að ríkisstjórnin þurfi einhvers staðar að fá undanþágur á Evrópusamþykktum því að hvaða verktaki sem er getur boðið í verkið og er hvorki skylt að búa á Austfjörðum né á Íslandi ef út í það er farið. Fljótsdalsvirkjun er auk þess svo langt inni í landi að það getur farið svo að kaffiterían á flugvellinum á Egilsstöðum væri eini aðilinn á Austfjörðum sem græddi eitthvað á þessum umsvifum. Það væri kannski þegar bygging við álverið sjálft hæfist að umsetning yrði einhver. Þó er það ekki víst því að auðvelt er að semja við birgða- og flutningafyrirtæki hvar sem er.

Reynslan sýndi það á Ísafirði þegar jarðgöngin voru byggð á sínum tíma að umsvif í bæjarfélaginu jukust ekki mikið. Nokkrir bæjarbúar unnu að vísu við gerð ganganna en vörubílstjórar og aðrir þungavinnuvélaeigendur tóku lítinn sem engan þátt í verkinu.

Í skýrslunni sem fylgdi þáltill. um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun þar sem getið er um íbúaþróun kemur fram, með leyfi forseta: ,,Fjöldi ungra kvenna virðist yfirgefa svæðið. Þær hafa betri menntun en áður og bestu menntunarmöguleikarnir og flest atvinnutækifærin eru á suðvesturhorni landsins eða erlendis. Þetta hefur orðið meira áberandi síðustu 5--10 árin. Konur á aldrinum 20--24 ára flytja í mun ríkari mæli burt nú en eldri konur gerðu þegar þær voru á sama aldri.``

Einnig er sagt, með leyfi forseta: ,,Fjöldi brottfluttra Austfirðinga, einkum fólk á aldrinum 18--30 ára, getur eflaust hugsað sér að flytja til baka ef áhugaverð og vel launuð störf bjóðast. Gróflega má áætla að um 350 manns á aldrinum 18--30 ára ,,vanti`` í aldurspýramída Miðausturlands. Af þessari áætluðu tölu um brottflutta Austfirðinga eru u.þ.b. 60% konur og u.þ.b. 40% karlar.``

Samkvæmt þessum upplýsingum er brottflutningur kvenna mun meiri en karla á Austfjörðum og það má leiða getum að því að svo muni vera um allt land. Væri þess vegna ekki nær að finna störf sem halda konum á landsbyggðinni? Og er þetta talað í fullri alvöru. Það er mikið vandamál hve konum hefur fækkað mjög á landsbyggðinni á undanförnum árum og atvinnutækifærin eru færri og tekjumöguleikar minni. Í skýrslunni með þáltill. segir einnig, með leyfi forseta:

,,Ungar konur frá svæðinu sem giftar eru mönnum annars staðar frá og eiga e.t.v. lítil börn mundu hafa áhuga á að snúa til baka ef starf við hæfi biðist fyrir eiginmanninn ...``

Herra forseti. Hvers lags rök eru þetta? Er draumurinn um sæluríki í skjóli álvers svo langt kominn að búið er að ákveða kaup sem er langt fyrir ofan það sem hinn almenni launþegi í landinu býr við? Launakjör eru með þeim hætti hér á landi að varla er nóg fyrir heimili að hafa tvær fyrirvinnur. Og hvað eiga konurnar að gera? Því eins og fram hefur komið eru bestu menntunar- og atvinnumöguleikar á suðvesturhorninu og erlendis. Eiga konurnar að snúa við blaðinu og fara á ,,bak við eldavélarnar`` eins og svo skemmtilega hefur verið komist að orði vegna þess að eiginmanninum býðst vinna við álver? (Gripið fram í: Hver sagði þetta?) (Gripið fram í: Guðni.) Væri ekki nær að hugsa um atvinnumöguleika kvenna til að halda þeim á svæðinu?

Fyrir svo sem áratug gat kona fengið jafnvel sömu laun fyrir að vinna hálfan dag í fiski eins og fyrir fullan vinnudag á skrifstofu. Það er ekki þannig lengur. Þær vilja ekki vinna í fiski því að það er rétt hjá Íslandsvininum Friedman, fólk velur. Ef fólk vill vinna fyrir lágmarksupphæð, þá er eðlilegt að atvinnurekandi bjóði þau laun. Fólk hefur val, það er rétt, og fólkið velur. Það vill ekki vinna fyrir svo lág laun sem bjóðast í fiskvinnslunni í dag og jafnframt ótryggt atvinnuástand ef annað betra býðst. Þess vegna flytur fólk af landsbyggðinni í von um betri laun á höfuðborgarsvæðinu eins og stúlkur frá Eystrasaltslöndunum koma til Íslands og dansa á niðurlægjandi hátt fyrir viðskiptavini í von um betri kjör en heima fyrir. Hið frjálsa markaðskerfi hefur bæði kosti og galla.

Það væri nær að reynt væri að endurskoða hið meingallaða fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga þannig að fiskvinnsla í landi bæri sig og hægt væri að veita atvinnuöryggi og sæmileg laun í byggðarlögum víðs vegar um landið. Fiskverkendur hafa hreinlega ekki efni á að borga hærra kaup og þeir hafa reyndar ekki efni á að reka fiskvinnslu í landi eigi þeir ekki því meiri kvóta. Fiskverð er orðið afar hátt, m.a. vegna kvótaframsalsins og er ekki nokkur leið að keppa við þá sem hafa fengið eignarréttinn á kvótanum. Kvótakerfið virðist einnig vera sá þáttur sem ekki má skipta um skoðun á heldur er reynt að lappa upp á það með vafasömum aðgerðum eins og byggðakvóta sem er eins og að losa skrúfu á einum stað í verkinu til að festa annars staðar. Breytingar á framsalsreglum og kvótaúthlutun þarf auðvitað að skoða vel, sérstaklega þar sem framsalið er orðið svo nátengt hlutabréfamarkaðinum og efnahagskerfinu að einstakrar aðgátar er þörf. En það þarf að hugsa fram í tímann í þessu eins og öðru og þá með tilliti til almennra hagsmuna og umhverfissjónarmiða.

Það er ómögulegt að festast í gömlum og úreltum sjónarmiðum. Miklar líkur eru t.d. á því að á næstu árum eða áratugum verði krafa um að dregið verði úr togveiðum almennt í heiminum og þurfum við að búa okkur undir að þau viðhorf verði ráðandi og hvernig Íslendingar ætli að bregðast við því. Samfara slíkri þróun má ætla að áherslan aukist á fiskveiðar minni báta með kyrrstæð veiðarfæri. Það þarf því að skapa betri skilyrði fyrir minni báta, t.d. með sölu alls afla á fiskmarkaði. Þannig mun einnig skapast grundvöllur fyrir fiskvinnslu eða fullnaðarvinnslu á afurðum í landi.

Það sameiningaræði sem riðið hefur röftum á undanförnum árum í sjávarútvegi og fiskvinnslu hefur ekki skilað öðru en því að færri fyrirtæki verða sterkari og stöðugt meira fjármagn hefur farið úr greininni. Það er ekki eingöngu svo að fiskvinnan skapi atvinnu beint fyrir þá sem við hana vinna heldur eru ýmsir þjónustuaðilar og fyrirtæki tengd henni, svo sem viðhaldsverkstæði og framleiðendur á sviði nýsköpunar.

Herra forseti. Ekki er hægt að rökstyðja byggingu virkjunar og álvers með byggðastefnu til að afsaka það að fara ekki eftir umhverfissjónarmiðum. Landið er viðkvæmt í norðannepjunni og það er ágætt tækifæri fyrir stjórnvöld að staldra við og skoða hug sinn á árþúsundamótum. Það eru fleiri virkjunarmöguleikar til, svo sem vetnisorka og gufuorka og ekki er t.d. mikið fjallað um vindorku sem stöðugt er að ryðja sér til rúms í heiminum í dag. Vindorka er auðvitað ekki gallalaus fremur en aðrar orkuveitur en framfarir eru gríðarlegar á því sviði. Afkastageta vindorku hefur aukist mikið og kostnaður minnkað. Vindorka er talin til endurnýtanlegrar orku eins og sólarorka og vetnisorka. Menn eru jafnvel farnir að setja upp vindaflsvirkjanir á hafi úti í því skyni að draga úr sjónmengun og hávaða. Eins og allir Íslendingar hafa orðið varir við, þá er þetta stór auðlind á Íslandi þar sem óbeisluð orkan fýkur um allan ársins hring og stórhuga menn gætu jafnvel hugsað sér að selja til útflutnings þó auðvitað ætti að vara sig á slíku.

Það er í hæsta máta grunsamlegt hversu mikið á að hraða framkvæmdum í Fljótsdalsvirkjun. Mörgum atriðum er enn ósvarað og betra er að flýta sér hægt, hugsa alla möguleika og hafa kjark til að skipta um skoðun ef þörf krefur.