Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:27:02 (1443)

1999-11-16 12:27:02# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég verði að segja að þetta er einhver aumasta ræða sem ég hef heyrt flutta hér á Alþingi. Að þetta skyldi vera umhvrh. íslenska lýðveldisins sem stóð sig svona í stykkinu fyrir málstað sinn var dapurlegt. Einna lægst lagðist hæstv. umhvrh. fannst mér þegar hún vitnaði í afgreiðslu á skipulagstillögum miðhálendisins máli sínu til stuðnings, þ.e. um að Fljótsdalsvirkjun væri ekki matsskyld, en sleppti því að nefna að í sömu tillögum að skipulagi miðhálendisins er fyrirvari af hálfu þeirra sem það unnu, um Fljótsdalsvirkjun og miðlunarlón á Eyjabökkum. Að sjálfsögðu sleppti hæstv. umhvrh. því einnig að geta viðhorfa forvera síns sem fór með embættið á þeim tíma að þessi mál voru þar til umfjöllunar og afgreiðslu.

Hér fór fram, herra forseti, samfelld varnarræða hæstv. umhvrh. en undir hana heyra lögin um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt skipulagsstjóri. Hæstv. umhvrh. fór með samfellda varnarræðu fyrir því að ýta hinni lögbundnu aðferð til hliðar og gera ekkert með hana. Í raun var um það að ræða að ráðherrann tók einhliða afstöðu með aðferðum sem ríkisstjórnin er að þvinga fram og brást algjörlega því lögbundna ferli og þeim embættismönnum og þeim stofnunum sem undir hæstv. ráðherra heyra. Að lokum beit hæstv. umhvrh. þó höfuðið af skömminni þegar hún færði fram þakkir fyrir að Alþingi skyldi fjalla um málið. Það er virðingarvert, sagði hæstv. ráðherra, að Alþingi skuli fá að fjalla um þetta.

Er sú virðing ætluð hæstv. iðnrh. fyrir það að leggja fram það sýndarplagg sem þessi þáltill. hans er? Nei heyr á endemi, herra forseti.