Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:37:58 (1448)

1999-11-16 12:37:58# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast um að hægt sé að svara þessu mjög ítarlega á knöppum tíma en samkvæmt mínum upplýsingum hefur Landsvirkjun sótt um leyfi til heppsnefndar Fljótsdalshrepps í samráði við Skipulag ríkisins, sótt um að hreppsnefndin leyfi byggingu Fljótsdalsvirkjunar í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964. Samkvæmt mínum heimildum frestaði sveitarstjórn ákvörðun og svaraði ekki. Bréfið hefur verið ítrekað a.m.k. tvisvar sinnum. Samkvæmt mínum heimildum mun Landsvirkjun ætla að ítreka fyrri umsókn sína til hreppsnefndar Fljótsdalshrepps með vísun til 3. tölul. í ákvæði til bráðabirgða í núgildandi skipulags- og byggingarlögum hvað varðar virkjunina.

Eins og ég hef skilið málið er hreppnum heimilt að veita svokallað leyfi til einstakra framkvæmda ef Skipulagsstofnun mælir með því. Sé það er gert er hins vegar hægt að kæra þá gjörð til úrskurðarnefndar þannig að vera má að þetta mál fari í það ferli. Við sjáum það ekki nákvæmlega fyrir á þessari stundu. Hins vegar er alveg ljóst að sótt var um þetta leyfi á sínum tíma. Það var hins vegar ekki formlega afgreitt.

Það er alrangt hjá hv. þm. að ég hafi skipt um skoðun varðandi Fljótsdalsvirkjun. Ég skil að það er hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í hag að láta málið líta þannig út og gera mig ótrúverðuga í málinu. Það er alls ekki þannig. Ég vil bara biðja hv. þm. um að kynna sér betur hvað umhvrh. hefur sagt í þessu máli.