Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:41:24 (1450)

1999-11-16 12:41:24# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er afar furðuleg staðhæfing að halda því fram að sú er hér stendur hafi ekki lesið þáltill. Þvílík fjarstæða. Það er ljóst að það þurfti hvorki byggingarleyfi né framkvæmdaleyfi fyrir virkjanir samkvæmt eldri skipulagslögum og eldri byggingarlögum. Ég reyndi að koma því á framfæri í máli mínu. En þetta er afar flókið þannig að það er rétt að iðnn. og umhvn. fari sérstaklega yfir þetta til að skýra það betur.

Hér var sagt að menn yrðu að vera ábyrgir orða sinna. Ég vil þá bara rifja upp að þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var umhvrh. þá samþykkti hann, að mér skilst, hluta af Fljótsdalslínu. Hann var umhvrh. þegar hluti af framkvæmdunum fór í útboð. Ég spyr: Er þetta nú trúverðugt? Hver hefur skipt um skoðun í málinu? Er það ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem stutt hefur þessa virkjun hingað til, væntanlega til þess að skapa betra ástand í efnahagslífinu og styrkja byggðir á Austurlandi? En nú er hlaupið frá öllu saman. Það er búið að draga það fram að Samfylkingin hefur enga stefnu í málinu. Ég vísa þessu til föðurhúsanna. Ég hef ekki skipt um skoðun í málinu. Það er frekar að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi skipt um skoðun.