Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:58:33 (1452)

1999-11-16 12:58:33# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt. Í fyrsta lagi held ég að það sé ótvírætt, ef hv. þm. lítur yfir öll fylgiskjöl og greinargerð þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir, að færð eru mjög sterk rök fyrir því að Landsvirkjun hefur allan þann lagalega rétt sem hún þarf á að halda til þess að ráðast í þessar framkvæmdir. Það er ekki dregið í efa og af því að hv. þm. dró það í efa í umræðunni þá vil ég undirstrika að svo er.

Hv. þm. spurði einnig um afstöðubreytingu mína til þess hvort Landsvirkjun geti sett þessa virkjun eða Eyjabakkana í mat á umhverfisáhrifum. Það hefur ekkert breyst. Ég sagði þetta í október á síðasta ári. Sá möguleiki og sá réttur er auðvitað enn þá til staðar hjá Landsvirkjun. Hins vegar hefur orðið breyting á frá því í október 1998 og sú breyting er að nú hefur Landsvirkjun, stjórnvöld eða ríkisstjórnin og Norsk Hydro gert með sér samkomulag um framkvæmdahraða byggingar álvers í Reyðarfirði. Sú yfirlýsing var undirrituð á Hallormsstað í lok júní á þessu ári. Þar af leiðandi hafa allar forsendur breyst, því eins og ég sagði í framsöguræðu minni áðan þá er ekki tími. Áhættan sem menn mundu taka með því að setja málið í kærufarveg hjá skipulagsstjóra yrði of mikil.