Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:05:56 (1456)

1999-11-16 13:05:56# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:05]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það má vera að þessir hraukar séu einstæðir árið 1999 en hv. þm. Össur Skarphéðinsson var ekki þeirrar skoðunar meðan hann var umhvrh. Mér er ekki kunnugt um að þessir hraukar hafi breyst neitt frá þeim tíma. (ÖS: Þeir hafa ekki breyst frá 1890.)

Ég vil segja, um það sem fram kom í máli hv. þm., að Fljótsdalshreppur gaf leyfi fyrir aðrennslisgöngunum á sínum tíma. Þá var byrjað á þeim og búið er að sprengja um 200 metra löng göng. Að öðru leyti var erindið óafgreitt, ekki vegna þess að andstaða væri við það eftir því sem mér er best kunnugt um heldur vegna þess að hreppsnefndin vildi íhuga málið út frá öðrum ástæðum.

Ástæða er til að gera athugasemdir við að hv. þm. fann hæstv. umhvrh. það til foráttu að hafa á sínum tíma sagt að það væri á valdi Landsvirkjunar að fram færi mat á umhverfisáhrifum. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. umhvrh. Það er á valdi Landsvirkjunar. Hún tók þá ákvörðun og skýrslan liggur fyrir. Það er á valdi framkvæmdaaðila að setja málið í þann farveg ef hann vill. Ég minni á að Vegagerð ríkisins setti framkvæmdina við Gilsfjarðarbrú í þann farveg að fara samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum þó að það væri ekki skylt. Það leiddi hins vegar til þess að framkvæmdir við þá þörfu framkvæmd, sem Vestfirðingar höfðu beðið eftir áratugum saman, frestaðst um langan tíma. Menn vilja auðvitað ekki tefla á tvær hættur, herra forseti, með að setja þjóðþrifamál í þann farveg að hætta sé á að það sópist út af borðinu.