Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:23:53 (1465)

1999-11-16 14:23:53# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í raun og veru er það svo fráleitt að taka tíma Alþingis í umfjöllun af þessu tagi að það tekur engu tali. Hvað er verið að sanna með þessu? Hversu langt eigum við að fara aftur? Eigum við að fara aftur á sjöunda áratuginn, eigum við að fara yfir afstöðu manna til stóriðjumála þá, Nordalsstefnunnar eins og hún var? Er það þar aftur á þeim vígvelli sem ríkisstjórnin vill heyja þetta mál? Ég held það. Ég held það sé nefnilega þannig að fyrir utan að koma höggi á einhverja einstaklinga og reyna að sanna að þeir séu ekki trúverðugir vilji ríkisstjórnin reyna að láta málið og deilurnar snúast um slíka hluti en ekki ákvarðanatökuna í núinu. Það er það.

En bara rétt til þess að rifja aðeins upp fyrir hæstv. iðnrh. þá stendur t.d. í viðtali við Jón Baldvin Hannibalsson í Morgunblaðinu 23. apríl, daginn áður en Jón Sigurðsson, hæstv. þáv. iðnrh., gaf út virkjanaleyfið, eftirfarandi:

,,Jón Baldvin sagði að málið [þ.e. álversmálið og deilurnar um það] snerist síður en svo um Hjörleif einan. Þingflokkur Alþýðubandalagsins hefði stutt tillögu Ragnars Arnalds, sem efnislega hefði komið í veg fyrir fjárveitingu í lánsfjárlögum til þess að halda áfram undirbúningi um samninga um álverið. Steingrímur J. Sigfússon hefði lýst því yfir að hann mundi aldrei samþykkja álver á Keilisnesi.``

Það er hægt að færa fram margar aðrar tilvitnanir, herra forseti, til að sýna fram á það að ágreiningurinn lá þegar fyrir og var opinbert mál. Svo kemur hæstv. iðnrh. og segir að allir hafi verið sammála.