Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:08:54 (1476)

1999-11-16 15:08:54# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði afstöðu okkar dulbúna aðferð til að eyðileggja málið. Ég kannast ekki við það. Ég tel að krafan um lögformlegt umhverfismat samkvæmt þeim lögum sem gilda sé eðlileg. Ég viðurkenni alveg að það þarf ekki lögformlegt umhverfismat til framkvæmdanna skv. lögum. Stjórnvöld eru í fullum rétti til að halda þessu áfram. Það er ekki vegna þess sem menn koma inn með þessa þáltill. Við teljum að viðhafa eigi þessa aðferð einfaldlega vegna þess að tímarnir kalla á það. Ég tel að bera eigi þá virðingu fyrir þjóðfélagsumræðunni að bregðast við þeim skilaboðum sem koma utan úr þjóðfélaginu á hverjum tíma.

Ríkisstjórnin er ekki að gera það. Hún er að búa til leikrit inni á hv. Alþingi í kringum þetta mál til að reyna að rétta af pólitíska slagsíðu sína í málinu. Til þess er þetta mál hér. Það er ekki verið að auka við rétt framkvæmdaaðila, þeir hafa þegar allan rétt. Hvað er málið þá að gera hér? Það er verið að búa til farsa í kringum umhverfismat sem hv. Alþingi á að taka að sér að gera og búið er að fara í gegnum hér fyrr á fundinum.

Hv. þm. sagði að þetta snerist ekki um hvort umhverfismat ætti að fara fram eða ekki, þessi umræða hér. Jú, hún verður að snúast um það. Við höfum ákveðið að leggja fram brtt. við þessa þáltill. Hún hefur verið boðuð til þess að þeir sem vilja lögformlegt umhverfismat fái að láta þann vilja sinn í ljós áður en þessi þáltill. verður afgreidd. Mér finnst hart, vegna þess að ég hef viljað að þetta umhverfismat færi fram, að fá ekki tækifæri til að segja það áður en að því kemur að ég svari hvort ég vilji þessa virkjun eða ekki.