Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:15:00 (1480)

1999-11-16 15:15:00# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði mig hafa talað hér í morgun fyrir dulbúinni skoðun. Ég ætla að mótmæla því vegna þess að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur komið hér fram og talað einum rómi frá upphafi þessa þings um hvað við viljum gera við Eyjabakkasvæðið. Við viljum opna þar Snæfellsþjóðgarð, við viljum verndun Eyjabakka, annað hefur aldrei verið sagt af okkur úr þessum ræðustóli og við erum með þingmál sem staðfesta það með löngum greinargerðum. Ég mótmæli því að ég hafi staðið hér og talað fyrir dulbúinni skoðun.

Annað sem mig langar til að gera athugasemd við í máli þingmannsins, virðulegi forseti, lýtur að þeim upplýsingum sem koma fyrir í þessari skýrslu. Það er alveg rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir að búið er að safna afskaplega miklum upplýsingum. Það er hins vegar ekki búið að leggja mat á þær upplýsingar. Í skýrslunni kemur fram hvað eftir annað að ónógar upplýsingar eru til að meta þetta, ónógar upplýsingar til að meta hitt. Hér eru ótal tækifæri fyrir skipulagsstjóra að segja að frekari rannsóknir þurfi að fara fram áður en vitað sé um umhverfisþætti málsins.

Ég vil einnig benda hv. þm. á plagg frá Byggðastofnun, sem fylgir frummatsskýrslu um mat á álverinu á Reyðarfirði. Þar segir Byggðastofnun í mörgum liðum að rannsaka þurfi mál betur varðandi hina jákvæðu þætti í byggðamálunum sem hv. þm. talaði um í ræðu sinni, þar dregur Byggðastofnun ótal þætti í efa og leggur áherslu á í ummælum sínum að þar þurfi frekari rannsókna við. Það er þess vegna sem lögformlegt umhverfismat er nauðsynlegt til að rannsaka betur svo að við komumst að þeirri réttustu niðurstöðu sem mögulegt er að fá miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Rannsóknin hefur ekki farið fram. Mat hefur ekki verið lagt á þær skýrslur sem lagðar eru til grundvallar. Matið á eftir að fara fram. Það er það sem við krefjumst og þjóðin krefst að verði gert. Þjóðin trúir á lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.