Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:21:03 (1484)

1999-11-16 15:21:03# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlusta á ræður stjórnarliða. Þegar ég hlustaði á forsrh. í upphafi þessa þingfundar var ég alveg viss um að hann hefði vaknað illa og dottið í sína alkunnu fýlu gagnvart Samfylkingunni og ég kippi mér ekki mikið upp við hvernig hann setti fram sína skoðun. En ég verð að viðurkenna að mér fannst verra að hlusta á hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Ég átti ekki von á því frá henni að hún yrði með málflutning eins og þann sem hún var með. Það virðist hins vegar að stjórnarliðarnir eigi það sameiginlegt að um þá sé hægt að segja: ekki sjá, ekki heyra, ekki skilja. Menn eru fullkomlega fastir í fortíðinni og virðast á engan hátt hafa gert sér grein fyrir því að umræða og verðmætamat hefur gjörbreyst á sl. tíu árum. Þekking fólks á víðernum og hvað þar er að finna og mat á því hvort eigi að fara varlega er annað en var fyrir mörgum árum.

Ég ætla líka að leyfa mér að segja, herra forseti, að ég tek það sérstaklega fram að mér finnst mikilvægt að breytingin á virkjuninni er þó á þann veg að fallið er frá skurðum og frárennsli sett í jarðgöng, ég ætla sérstaklega að taka það fram af því ég hef reynt að vera mjög efnisleg og fagleg í umfjöllun minni um þetta mál. En ég kom hins vegar ekki upp út af því, herra forseti, heldur vegna þeirra orða að setja málið bara í lögformlegt umhverfismat, og þjóðin veit ekki hvað lögformlegt umhverfismat er, og þetta er bara eitthvert grín. Ég spyr, þarf ekki stjórnarliðið að fara að gera upp við sig hvort það ætli að standa við þau lög sem Alþingi hefur sett, bara svona almennt? Er það bara nóg að gerðar séu rannsóknir og skrifuð skýrsla og hún send inn á Alþingi og einhver Rannveig Guðmundsdóttir, stjórnmálamaður, eigi síðan að framkvæma matið?