Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:23:19 (1485)

1999-11-16 15:23:19# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta fannst mér nú dálítið sérkennileg ræða. Sannleikurinn er sá að það er einmitt verið að standa við lög í öllum atriðum. Ég hélt að ég hefði komið ágætlega að því í máli mínu og ég hélt því meira að segja fram að þrátt fyrir að bráðabirgðaákvæðið hefði ekki verið samþykkt með lögunum um mat á umhverfisáhrifum frá 1993, þá hefði virkjunin ekki átt að fara í svokallað lögformlegt umhverfismat samkvæmt þeim lögum þar sem þau lög eiga ekki að vera afturvirk frekar en önnur lög sem sett eru í landinu.

Hv. þm. talaði um að verðmætamat hefði gjörbreyst, eins og hún orðaði það, en það er nú samt svo, og það finnst mér eitt af því ánægjulega sem kom út úr þeirri könnun sem gerð var opinber í gær, að 60% þjóðarinnar vill nýta vatnsaflið áfram til virkjunar. Þetta er algjört grundvallaratriði, þetta er það sem málið snýst um, að nýta vatnsaflið, nýta auðlindir þjóðarinnar okkur til framdráttar, til þess að við getum búið og átt góð lífsskilyrði hér eftir sem hingað. Þetta skiptir ekki síst máli fyrir það unga fólk sem er að velta því fyrir sér hvar það ætlar að setjast að í heiminum. Það er nefnilega orðið nokkuð auðvelt að setjast bara að hvar sem er og við getum ekkert endilega búist við því að allir vilji búa á Íslandi, því miður. Við verðum að skapa hér skilyrði fyrir ungt fólk, ungt menntafólk, að búa á Íslandi og ég tala nú ekki um að við erum að skapa skilyrði fyrir fólk að búa á landsbyggðinni, á Austurlandi.