Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:28:26 (1488)

1999-11-16 15:28:26# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ríkisstjórnin ætlar að fara gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar um að fram fari lögformlegt umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar. Breytt viðhorf almennings til náttúruverndar og umhverfismála og það hversu rödd almennings hefur heyrst kröftuglega hefur gert það að verkum að stjórnvöld hafa orðið að bregðast við. Stjórnvöld lögðu ekki í að halda áfram án þess að taka málið á dagskrá. En þeir gera það ekki með því að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat. Nei, það á ekki að fara að leikreglum sem settar hafa verið með lögum hér á Alþingi. Nú á að láta stjórnarmeirihlutann samþykkja stuðning við áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun án lögformlegs umhverfismats. Ríkisstjórnin ætlar að beita meirihlutavaldi sínu til að keyra málið áfram. Og miðað við málflutning fulltrúa ríkisstjórnarinnar í umræðunni í dag hefur ríkisstjórnin greinilega tekið þá ákvörðun að sökkva Eyjabökkum. Ríkisstjórnarmeirihlutinn kemur hér inn í þingið með mótaða afstöðu. Þess vegna er þetta þingmál algjör sýndarmennska. Með þessu máli er verið að taka andmælaréttinn af borgurunum sem er til staðar í lögformlegu umhverfismati.

[15:30]

Ein af rökunum fyrir því að fara þessa þingsályktunarleið er að leyfa almenningi að koma að málinu, eins og stendur í greinargerðinni. Almenningur á sem sagt að koma athugasemdum sínum á framfæri við þingnefndina. En hvað þýðir það? Mun þingnefndin taka á móti öllum þeim sem vilja hitta hana og koma á framfæri athugasemdum sínum? Hv. þingnefnd yrði auðvitað að taka á móti öllum þeim sem vilja hitta hana og koma athugasemdum sínum á framfæri, það segir í greinargerðinni. Ég vil benda á að sú vinna gæti orðið meiri og tekið lengri tíma en nokkurn grunar, ef tekið yrði á móti öllum. Þá gæti farið fyrir lítið hin makalausa krafa forstjóra Landsvirkjunar um það að Alþingi klári að afgreiða þetta mál fyrir áramót.

Ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að leyfa almenningi að koma að málinu, að hlusta á almenning, hvers vegna var þá ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þá kæmi almenningur vissulega að málinu, afstaðan til málsins yrði skýr. Vissulega getur almenningur komið þessa leið að málinu en þá er engin kæruleið eða raunverulegur andmælaréttur. Ég leyfi mér að efast um, eftir að hafa hlustað á þá umræðu sem farið hefur fram í dag, að mikið tillit verði tekið til afstöðu almennings. Ljóst er að meiri hluti almennings, fólksins í landinu, er á móti því að farið verði í þessa virkjun án umhverfismats. Það hefur margkomið fram í skoðanakönnunum og kom fram í umræðunni í dag.

Í gangi er undirskriftasöfnun um að lögformlegt umhverfismat fari fram. Verður tekið tillit til niðurstöðu hennar, hæstv. ráðherra? Ef þúsundir skrifa undir, verður tekið tillit til þess? Mun það hafa áhrif á stjórnvöld? Mun það breyta einhverju um þau áform ríkisstjórnarinnar að sökkva Eyjabökkum, eins og kom fram í máli hæstv. forsrh. í upphafi umræðunnar? Hann var með dylgjur í garð Samfylkingarinnar um að þar væri ekki skýr afstaða í málinu í kjölfar þess að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem var fysti talsmaður okkar í málinu, skýrði mjög greinilega og skilmerkilega frá afstöðu okkar og kynnti bæði frv. og brtt. við þáltill.

Herra forseti. Hér á að beita vægast sagt ófaglegum vinnubrögðum, að ætla þingnefnd að vinna þá vinnu sem fagfólki er ætlað samkvæmt lögum, þ.e. að meta umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar út frá skýrslu leyfishafans, Landsvirkjunar. Sérfræðingar sem leitað er álits hjá í Morgunblaðinu í dag segja að skýrslan dragi úr áhrifum virkjunarinnar á umhverfið og náttúruna. Hv. þm. Sverrir Hermannsson rakti ágætlega í máli sínu áðan hvernig sérfræðingar gagnrýna marga efnisþætti þessarar skýrslu og benda á að hún er hlutdræg í ýmsum þáttum. Í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar kom ekki síður fram ýmisleg áhrif virkjunarinnar á einstakar náttúrumyndanir á svæðinu. sem ekki kemur fram í skýrslunni og full ástæða væri til þess að skoða.

Þetta er ótrúlega ófaglega að verki staðið hjá ríkisstjórninni. Öllum sem fylgst hafa með umræðunni ætti að vera ljóst að ríkisstjórnin er búin að taka afstöðu og mun fara í framkvæmdirnar hvað sem tautar og raular. Allur málflutningur við umræðuna hefur bent til þess.

Það er talandi dæmi um hin ófaglegu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að afhenda þingmönnum á föstudagssíðdegi pappírsdoðranta sem eru á sjötta hundrað síður og ætlast til að þetta yrði rætt á mánudegi eins og upphaflega var áætlað, að búið væri að fara í gegnum þetta efni og það yrði rætt á mánudegi. Ég veit að hraðlæsustu menn áttu fullt í fangi með að fara yfir þessar skýrslur fyrir daginn í dag. Ég leyfi mér að efast um að margir þingmenn sem fengu þessi plögg á föstudagssíðdegi hafi lesið þau öll í gegn.

Í grg. með þáltill. segir að framkvæmdarvaldshafa, lesist ríkisstjórnina, skorti heimildir að óbreyttum lögum til að ákveða einhliða að beita um Fljótsdalsvirkjun ákvæðum laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Úr því má nú bæta og lögfesta slíka heimild og hér liggur fyrir þinginu frv. um að sú heimild verði til staðar. Lög hafa verið sett af minna tilefni. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur kynnt þetta frv. Samfylkingarinnar sem fjallar um að farið skuli í lögformlegt umhverfismat á þeim framkvæmdum sem gefið var leyfi fyrir áður en lög um umhverfismat voru sett. Þess má geta að þar eru leyfi fyrir framkvæmdum sem veitt voru á fyrri hluta þessarar aldar þannig að full ástæða er til að menn skoði það í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og breyttra viðhorfa.

Í grg. segir einnig að ríkissjóður geti orðið bótaskyldur gagnvart virkjunaraðila ef farið verður í umhverfismat. Og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir það mál og hrakti öll þau rök í máli sínu. En við verðum að fara að lögum og við verðum að fara að þeim alþjóðaskuldbindingum og samningum sem við höfum gerst aðilar að. Það eru ekki síður líkur á að ríkið geti verið skaðabótaskylt ef ekki verður farið í mat á umhverfisáhrifum, ef virkjað verður án matsins. Ég vil vitna í álit Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings í Morgunblaðinu 9. nóv. en hún tók m.a. þátt í að semja lögin um mat á umhverfisáhrifum. Hún hefur bent á að íslenska ríkinu hafi borið að setja nýja tilskipun í lög í mars sl.

Í Morgunblaðinu segir, með leyfi forseta:

,,Aðalheiður segir að rétt sé að hafa í huga að EFTA-dómstóllinn hafi viðurkennt að EES-samningurinn sé milliríkjasamningur sem hafi mikla sérstöðu umfram aðra milliríkjasamninga. ,,Samningurinn hefur meðal annars þá sérstöðu að ef ríki, t.d. Ísland, tekur ákvæði tilskipunar ekki inn í landsrétt eða tekur þau inn á rangan eða ófullnægjandi hátt, getur það bakað ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart einstaklingi eða lögaðila sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er ekki hægt að líta fram hjá þessu og því væri langeðlilegast að einnig yrði látið á það reyna fyrir íslenskum dómstólum, hvort einstaklingar eða lögaðilar á Íslandi, eigi rétt á að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði metin samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum, m.a. svo að þeir geti nýtt sér þau réttindi sem matsferillinn færir þeim,`` segir Aðalheiður.``

Ég efast ekki um að á það muni reyna í framhaldi af umræðunni hér. Margt í fylgiritinu, skýrslunni og greinargerðinni er umdeilanlegt eins og fram hefur komið í umræðunni. Þá nefni ég sérstaklega þá fullyrðingu í grg. að þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar Íslendinga leiði ekki til þess að fara skuli í lögformlegt umhverfismat. Af því tilefni vil ég enn vitna í ummæli Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings, í sama Morgunblaði, þ.e. 9. nóv. Þar kemur fram það álit að ótvíræð skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að láta fara fram formlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar í samræmi við lög. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Hingað til hafa stjórnvöld skýrt lögin um mat á umhverfisáhrifum með þeim hætti að Fljótsdalsvirkjun sé ekki matsskyld samkvæmt þeim. Er þar vísað í bráðabirgðaákvæði II í lögunum þar sem segir að framkvæmdir, sem fengu leyfi fyrir 1. maí 1994, séu undanskildar mati. Aðalheiður segir að slík túlkun á lögunum standist varla viðeigandi tilskipanir Evrópubandalagsins eins og þær hafa verið skýrðar af EB-dómstólnum og hæpið sé að hún standist íslensk lög.

,,Fljótsdalsvirkjun þarf að minnsta kosti tvö leyfi til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir við hana; virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi. Ég tel það mjög vafasama lögskýringu að taka einungis mið af útgáfudegi virkjunarleyfisins, sem er eldri en gildistökudagur EES-samningsins, þegar framkvæmdaleyfið er óútgefið. Því þarf að skoða öll leyfi sem nauðsynleg eru, hvort sem þau eru tvö eða fleiri. Það er ekki hægt að einblína á eitt leyfi og taka eingöngu mið af dagsetningu þess.

Ef sú lögskýringaraðferð er notuð, stríðir það gegn tilgangi tilskipunarinnar um mat á umhverfisáhrifum, það gengur einnig þvert á meginmarkmið laganna um mat á umhverfisáhrifum og er í ósamræmi við fyrirliggjandi dómafordæmi EB-dómstólsins sem varða skýringar á tilskipuninni og geta varðað EES-samninginn. Einnig verður að hafa það hugfast að mat á umhverfisáhrifum er forsenda leyfisveitingar en á ekki að koma í kjölfar hennar,`` segir Aðalheiður.``

Ég hef ekki heyrt neinn fulltrúa stjórnvalda hrekja þessa niðurstöðu Aðalheiðar og get ekki betur séð en að okkur beri að láta fara fram lögformlegt umhverfismat. Mig langar að víkja að því sem kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur hér í morgun um að fyrsti hluti Fljótsdalsvirkjunar dugi ekki fyrir fyrsta hluta álvers í Reyðarfirði. Komið hefur fram að virkjunin eins og hún er fyrirhuguð dugir ekki fyrir raforkuþörf fyrsta hluta álvers í Reyðarfirði. Það kom fram hjá sérfræðingum Landsvirkjunar í ferð þingmanna til Austurlands í haust að stækka þyrfti stífluna við Eyjabakkalón lítillega, þrjá til fjóra metra, til að virkjunin næði að uppfylla þörfina fyrir fyrsta hluta álversins.

Það á samt ekki að gera vegna þess að slík breyting mundi kalla á umhverfismat. Það er sem sagt allt gert til að forðast umhverfismatið. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Áforma stjórnvöld að keyra málið áfram nú, reisa virkjunina sem ekki dugar fyrir fyrsta hluta álversins og undir lokin að hækka stífluna? Þá þarf ekki að fara í umhverfismat nema vegna stækkunar virkjunarinnar á síðari stigum. Er þetta leikurinn sem er verið að leika til þess að komast hjá umhverfismati?

Ég vil minna á að ein af verðmætustu náttúruauðlindum okkar eru víðernin á hálendinu. Við eigum að gæta að þeim. Við berum ábyrgð á landinu okkar. Við höfum það að láni og okkur ber að skila því til barna okkar, ekki í síðra ástandi en við tókum við því.

Ég leggst ekki gegn því að álver rísi í Reyðarfirði þó ég hafi efasemdir um að það snúi við þeirri byggðaþróun sem nú er og hefur verið í gangi. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. En það skal uppfylla öll skilyrði um umhverfisvernd. Ég get ekki sætt mig við að Eyjabökkum verði sökkt og svæði á hálendinu raskað svo ekki verði aftur snúið án þess að lögformlegt umhverfismat hafi farið fram og jákvæð niðurstaða fengist fyrir slíka framkvæmd.