Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:59:38 (1490)

1999-11-16 15:59:38# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði að nú loksins gæfist þingmönnum tækifæri til málefnalegrar umræðu. En hvernig var málefnaleg umræða þessa hv. þm.? Hún hreytti skít í fjarstadda þingmenn, hreytti skít í ýmsa menn sem að hér hafa áður starfað. Mér þótti sér í lagi ómaklegt hvernig hv. þm. vék að þætti og fortíð hv. þm. Sverris Hermannssonar í þessu máli. Það eru áratugir frá því að hv. þm. var iðnrh.

[16:00]

Það kann vel að vera að hann hafi fylgt þá tilteknum málum á þessu sviði. Ég rifja það upp að það eru líka áratugir síðan að menn bjuggu til hina fyrstu hugmynd sem einu sinni var kölluð LSD, þ.e. langstærsti draumurinn, um að fella saman þrjár miklar ár á norðausturhorninu. Menn hafa fyrir löngu fallið frá því. Eins hefur hv. þm. Sverrir Hermannsson fullan rétt á að skipta um skoðun, eins og hann gerði með ákaflega sterkum rökum, herra forseti.

Það er rangt hjá þessum hv. þm. að halda því fram að enginn hafi vefengt frummatsskýrsluna sem hér liggur fyrir m.a. til umræðu. Hv. þm. ætti a.m.k. að sýna öðrum þingmönnum þann sóma að vera hér í þingsal og hlusta á þá áður en hún kemur hingað og fer að gera þeim upp skoðanir. Sá sem hér stendur reyndi málefnalega og með rökum að benda á að skýrslan sem liggur fyrir, skrifuð af fjórum verkfræðingum, er ekki tæk sem frummatsskýrsla. Ef hún hefði farið í það ferli sem hæstv. forsrh. gerði grín að hér í morgun, þá hefði henni verið fleygt eins og múrsteini í hausinn á höfundunum aftur. Herra forseti. Ég vísa þessu til föðurhúsanna. En fyrst ég er kominn hingað upp þá get ég ekki annað en rifjað upp að hv. þm. sagði að einhver maður í Reykjavík, borgarfulltrúi, stæði fyrir undirskriftasöfnun gegn þessari framkvæmd. Má ég spyrja hv. þm., hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrir?