Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:03:58 (1492)

1999-11-16 16:03:58# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki nema eitt doktorspróf og eitt annað háskólapróf í þessum fræðum þannig að það er fjarri því að ég telji að ég sé í röðum þessara virtustu umhverfissérfræðinga þingsins. Það má vel vera að skoðun mín í þessu máli skipti engu máli. Auðvitað hefur hv. þm. rétt til þess að hafa sína skoðun, sem er algjörlega andstæð minni. En hv. þm. kom hingað upp og hvatti til málefnalegrar umræðu. Ég tók þeirri áskorun frá hæstv. iðnrh. í morgun og reyndi að ræða þetta efnislega. Ég kom fram með talsverðan fjölda athugasemda sem enginn þingmaður og allra síst sá þingmaður sem talaði núna, hefur reynt að svara. Ég hef með öðrum orðum reynt að ræða þetta málefnalega þó ég hafi líka skýrt það að ég er algjörlega á móti þessari aðferð. Það gengur ekki fyrir hv. þm. að koma síðan hérna upp eins og menn hafi ekki komið fram með neinar athugasemdir. Og það gengur heldur ekki fyrir hv. þm., þó hún tali hér fyrir Sjálfsfl., að koma og tala eins og hún gerði um hv. þm. Sverri Hermannsson. Þó að hv. þm. hafi tekið Sjálfstfl. á kné sér og lamið eins og dauðan fisk þá þýðir það ekki að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hafi rétt til þess að koma hér og gera lítið úr tiltölulega merkum stjórnmálaferli þessa ágæta manns.