Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:10:17 (1496)

1999-11-16 16:10:17# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur undarlega fyrir eyru að heyra sjálfstæðismenn sífellt koma hér upp og spyrja að því hvort við treystum hæstv. umhvrh. Þessi mál liggja einfaldlega svona fyrir að að lokum mun umhvrh. fjalla um málið. Þegar við förum fram á að þessum reglum verði fylgt þá erum við auðvitað að treysta því að hæstv. umhvrh. taki málefnalega á niðurstöðu umhverfismats. Á annað getum við ekki treyst. Og hvað varðar álverið sjálft, þá er það nú svo að það fer í þetta umhverfismat. Það gengst undir þetta lögformlega umhverfismat og niðurstaðan úr því mun þá ráða því hvernig að menn taka afstöðu til þess. Ég get bara talað fyrir mig um það því við höfum ekki tekið formlega afstöðu til þessa álvers sem slíks. En ég get talað fyrir mig alveg skýrt. Ég styð það að þarna verði byggt álver, svo framarlega sem rafmagn verði til handa því til þess að vinna og svo framarlega sem niðurstaðan verði sú að hið lögformlega umhverfismat um álverið verði jákvætt.