Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:36:45 (1507)

1999-11-16 16:36:45# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að ég hafi tekið rétt eftir því sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að hann og hans flokkur vill gera þjóðgarð norðan Vatnajökuls, þ.e. friða svæðið í kringum Snæfell. Ég ætla að hann sé að tala um Jökulsá á Brú, Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá í Fljótsdal. Þetta er annað stærsta vatnasvæði Íslands. Það hljóta því að vera mikil tíðindi ef menn vilja taka það og hætta við alla notkun á þessu vatni. Það eru mikil tíðindi og verða tíðindi í framtíðinni fyrir óborna Íslendinga. Ég vildi vekja athygli á þessu spyrja hvort það sé ekki alveg öruggt að ég misskildi ekki neitt. Hann vill friða allt svæðið.

Ég vil einnig spyrja hv. þm. um annað. Hann segir varðandi 1.000 ársverk á Austurlandi þar sem nú eru bara 4.000 ársverk, að hann efist um að slíkar framkvæmdir verði þessum landsfjórðungi til góðs. Af hverju hefur hann þennan efa? Hefur þingmaðurinn ástæðu til þess að ætla að stórframkvæmdir á Suðvesturlandi, álver og stóriðja sem hér hefur risið á síðustu áratugum hafi orðið byggðinni á Suðvesturlandi til tjóns, að byggðin hafi kannski dregist saman? Hafa verksmiðjurnar við Straumsvík og í Hvalfirði kannski orðið til ills fyrir byggðaþróun hér suðvestan lands, eða hvað? Hvernig á að skilja þessi orð hans og hvaðan hefur hann efasemdir um þessa þróun?