Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:41:41 (1510)

1999-11-16 16:41:41# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þarna er einfaldlega ágreiningur okkar á milli. Ég er að tala um að það geti verið óheppilegt fyrir fámenna byggð eins og þá sem við erum að tala um, að fá eitt stærsta álver heimsins inn í sinn garð. Ég hef miklar efasemdir um að það sé til góðs. Ég tel þetta vera vanhugsað að þessu leyti.

Ég á afskaplega erfitt með að sjá að í því felist mikil náttúruvernd að sökkva þessum svæðum norðan Vatnajökuls. Ég fæ ekki séð það. En þegar ég var að tala um þá sem létu sig náttúruvernd skipta, alla þá, þá var ég að tala um að þau samtök sem sinna slíkum málum hefðu tekið undir með okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þegar við settum fram þáltill. þess efnis að Fljótsdalsvirkjun skyldi fara í lögformlegt umhverfismat. Þar vísum við Náttúruverndarsamtaka Austurlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Hins íslenska náttúrufræðifélags, leiðsögumanna, Náttúruverndarráðs o.s.frv. Síðan voru náttúrlega Landsvirkjun, Orkustofnun og iðnrn. andvíg þessu.