Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:58:17 (1512)

1999-11-16 16:58:17# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ólíkt er að hlusta á þessa tvo leiðtoga ríkisstjórnarinnar, Davíð Oddsson hæstv. forsrh. eða utanrrh. Halldór Ásgrímsson. Halldór Ásgrímsson er málefnalegur í umfjöllun sinni og flytur mál sitt frá sjónarhóli sínum og byggðarlags síns.

Ég ætla að leyfa mér að segja að við erum sammála um það að leggja áherslu á uppbyggingu í byggðum landsins. Við vitum að það að efla byggðir landsins kostar fjármagn. Við erum sammála um að nýta auðlindir innan þeirra marka að við völdum ekki óbætanlegum skaða.

Fyrir 20 árum átti að virkja á Harðangursheiði. Þá urðu í Noregi hörð átök um það hvort verja ætti svæðið sem sérstök verðmæti, að of dýrt væri að kosta því til til að virkja. Þrátt fyrir að þá væru öll rök sett fram um byggðasjónarmið sem við höfum hlustað á í dag varð niðurstaðan eftir mikil átök sú að ekki var virkjað. Ég spái því, herra forseti, að í framtíðinni verði fyrrv. forsrh. Gro Harlem Brundtland minnst í Noregi. Ekki fyrir það að hafa verið skörulegur leiðtogi og fyrir stjórn hennar á efnahagsmálum og öðru, heldur nákvæmlega fyrir þessi fyrstu verk hennar.

Við vorum að byrja að feta okkur á braut nýrrar verðmætahugsunar þegar við settum lög um umhverfismat. Samt erum við langt á eftir öðrum þjóðum, um það snýst málið. Ég er annarrar skoðunar í dag en ég var í byrjun þessa áratugar. Viðhorf mín gagnvart víðernum Íslands hafa gjörbreyst. Ég lít svo á að þau séu ekki bara til að framleiða orku heldur miklu meira. Ég vil að við stígum varlega til jarðar í þessum efnum, að við hættum ekki að nota orkuna heldur skoðum hvaðan tökum við hana, hverju erum við tilbúin að fórna. Til þess þarf umhverfismat.