Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:00:35 (1513)

1999-11-16 17:00:35# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hver gengur óvarlega fram í þessu máli? Hvaða mál hefur fengið meiri athugun á Íslandi en þetta mál út frá umhverfislegu sjónarmiði? Ég kannast ekki við það. Hv. þm. segja hér: Við viljum að þetta mál fari undir lög sem voru sett eftir að þessi framkvæmd byrjaði. Hvaða ástæða er til þess? Það liggur alveg fyrir, þetta mál hefur verið unnið frá upphafi á þeim forsendum að það verði mat samkvæmt þeim lögum sem giltu um þessa virkjun. Það er m.a. viðurkennt af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni meðan hann var umhvrh. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ég var viðstaddur þegar fyrsta skóflustunga var tekin að þessari virkjun haustið 1991 af þáv. iðnrh., Jóni Sigurðssyni. Þessir menn hafa unnið að málinu af fullum heilindum. Hvað hefur breyst? Vel má vera að smekkur ákveðinna þingmanna, sem ég geri ekki lítið úr, hafi breyst. En á það að ráða úrslitum í málinu? Er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að segja, sem ég hélt að hún væri ekki, að hún sé andvíg því? Nei, ég skildi hana þannig hún væri ekki andvíg því, en hún segir að það sé svo mikið mál að þetta fari til skipulagsstjóra ríkisins. Hvernig stendur á því að hv. þm. getur ekki gert upp hug sinn með því að fara í gegnum öll þessi gögn, alveg eins og hv. þm. Jón Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson á sínum tíma? Hvað er það sem kemur í veg fyrir að hv. þm. geti gert upp hug sinn? Telur hún að hún geti gert upp hug sinn miklu betur eftir að skipulagsstjóri ríkisins væri búinn að fjalla um þetta, hvaða straumhvörf væru það?