Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:02:43 (1514)

1999-11-16 17:02:43# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst ekki um smekk minn. Þetta mál snýst ekki um smekk hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur eða Jóhanns Ársælssonar. Þetta er stórt mál sem á ekki að taka ákvörðun um af tilfinningum. Ég á ekki að setjast í iðnn. Alþingis og fella dóma um það hvort skýrslur sem unnar hafa verið séu fullnægjandi vegna þess að Alþingi, þessi stofnun, hefur sett lög um hvernig farið skuli með slík mál. Þau lög eru um ákveðið ferli sem leiðir til umhverfismats og niðurstöðu. Þetta snýst heldur ekki um skipulagsstjóra ríkisins eða umhvrh. sem hefur úrslitavald í lokin, heldur hvernig aðkoma allra þeirra sem vilja hafa skoðun á málunum er tryggð og hvernig ferlið er og að við förum að þeirri leið sem Alþingi hefur sett lög um. Um þetta er deilt á Alþingi. Undir þetta ætla margir að undirgangast, sumir mundu ekki vilja virkjunina og aðrir vilja hana. Þeir ætla að undirgangast þetta mat.