Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:04:02 (1515)

1999-11-16 17:04:02# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Vel má vera að ég hafi allt aðra skoðun á því, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, af hverju við erum hér á Alþingi. Ég tel að við séu hér til þess að taka afstöðu og ég held að við verðum að játa að tilfinningar okkar spila þar afar mikið og við komumst ekki hjá því. Það eru mörg mál tilfinningamál og það er ekkert til að skammast sín fyrir. Við tökum afstöðu að einhverju leyti út frá tilfinningum, ekki bara út frá rökhyggju. Ef við tækjum afstöðu í málinu aðeins út frá rökhyggju, efnahagslegri rökhyggju, væri alveg ljóst að við mundum vilja virkja. En við viljum líka líta á fegurð landsins og vernda landið, ganga vel um það. Það verður ekkert komist hjá því að blanda því inn í og það eru ekki einhverjir utanaðkomandi aðilar utan við Alþingi sem hafa einkarétt á því. Við komumst ekkert hjá því að hér sé að einhverju leyti um tilfinningamál að ræða og það er skylda þingmanna að taka afstöðu til málsins og þeir hafa allar upplýsingar til þess.