Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:18:43 (1524)

1999-11-16 17:18:43# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriðið er að fyrir dyrum standa samningar um þessi mál. Landsvirkjun þarf að semja um hagkvæmt orkuverð sem stendur undir væntanlegum virkjunarframkvæmdum og það orkuverð verður að vera þannig að hægt verði að reka viðkomandi álver. Svo einfalt er það.

Auðvitað hef ég einhverjar hugmyndir um hvernig ég teldi að þetta gæti gengið upp. En mér dettur ekki í hug að ræða það á þessu stigi. Ég tel að þetta geti gengið upp og það er hlutverk þeirra samninganefnda sem í þessu starfa að ná því saman. Ég treysti því ágæta fólki vel til þeirra verka. Við verðum að bíða og sjá og vona hið besta. En það er ekki komin niðurstaða í þetta mál, því miður. Það mun ráðast endanlega af því hvort nást hagkvæmir samningar eða ekki.