Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:20:38 (1525)

1999-11-16 17:20:38# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:20]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er hætt við í langri umræðu sem þessari að nokkur endurtekning eigi sér stað en ég hygg að á ýmsum þeim atriðum sem fram hafa komið hér áður í dag þurfi að hnykkja.

Ríkisstjórn Íslands er á hörðum pólitískum flótta undan málefnalegri umræðu um virkjun á Fljótsdal. Hún er á pólitískum flótta undan almenningi og virðist ekki hafa döngun í sér til þess að viðurkenna að viðhorf þjóðarinnar til náttúrunnar og nýtingar hennar hefur breyst í grundvallaratriðum á síðastliðnum áratug, svo að ekki sé talað um síðastliðin tuttugu ár.

Hvað er það, hæstv. forseti, sem menn eru hræddir við í umhverfismati sem framkvæmt yrði samkvæmt lögum sem hið háa Alþingi setti árið 1993? Hvað veldur því að ráðamenn þjóðarinnar taka um það kaldar og kalkúleraðar pólitískar ákvarðanir sem hafa það eitt að augnamiði að finna fjallabaksleiðir fram hjá því að meta umhverfisáhrif frá framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun og þáltill. ríkisstjórnarinnar ber öll merki um?

Allt ber að sama brunni hjá ríkisstjórn Íslands er þau mál sem mestu skipta fyrir framtíð okkar ber á góma. Málefnalegri umræðu er fórnað á altari stjórnlyndis og umfram allt vondra vinnubragða.

Á stjórnarheimilinu treysta menn sér ekki í umræðuna. Þar verða ekki teknir neinir sénsar, eins og sagt er, heldur virkjað hvað sem tautar og raular.

Skyldi það ekki hvarfla að einhverjum stjórnarliðanum nú í byrjun vetrar að ef til vill hefði verið affarasælla fyrir ríkisstjórn Íslands að taka af skarið snemmsumars 1998 og láta fram fara umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun er uppfyllti öll skilyrði laganna? Þá stæðum við ekki í þessum sporum í dag, hv. þm. Þá væri ekki búið að kljúfa þjóðina í tvennt í einu stærsta máli samtímans. Nei, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kýs að rjúfa friðinn, að fara sínu fram hvað sem það kostar, eins og þingsályktunartillaga um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun ber með sér.

Nú stendur yfir ein mikil undirskriftasöfnun vegna umhverfismatsins, eins og þingheimur veit. Það er kyndugt, herra forseti, að undirskriftasafnanir skipta Sjálfstæðisflokkinn þá aðeins máli þegar hann er í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þá er lögð höfuðáhersla á að svara kalli almennings. Náttúruperlur við Suðurlandsbrautina skal verja með kjafti og klóm, eða skiptir náttúran bara máli þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í minni hluta?

Herra forseti. Hverjar skyldu þær vera aðstæðurnar sem gera Eyjabakkasvæðið einstakt? Hvað veldur því að fólk vill staldra við og huga betur að gildi náttúrunnar þar? Hvers vegna hljómar krafan um umhverfismat sem gefur almenningi andmælarétt gegn fyrirhuguðum framkvæmdum nú vítt og breitt um samfélagið? Lítum sem snöggvast á þann langa lista.

Svo að enginn sem á hlýðir velkist í vafa um það vil ég, með leyfi forseta, lesa upp úr sérfræðiáliti Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun, en hann skilaði skýrslu til Landsvirkjunar í september síðastliðnum og er hún hluti af framlögðum gögnum ríkisstjórnarinnar:

,,Jökulsá á Fljótsdal er frábrugðin flestum íslenskum jökulám að því leyti að aur- og sandburður er að jafnaði mun minni í henni en í öðrum jökulám. Einnig er lítið um grófan framburð í Jökulsá og botnskrið því lítið. Þetta stafar m.a. af því að upptakasvæði Jökulsár er á gömlum berggrunni, ólíkt því sem þekkist hjá flestum öðrum jökulám hér á landi. Þetta einkenni árinnar er grundvöllur fyrir það gróðurlendi sem nú ríkir á Eyjabökkum og þar með fyrir lífríki og sérkenni svæðisins. Í stað grófra og síbreytilegra jökuláreyra, sem einkenna jökulár við jökuljaðra, rennur áin um leirborið flatlendi þar sem setmyndum er hæg og skilyrði fyrir gróður ólík því sem gerist annars staðar við jökuljaðra á Íslandi.

Þetta sérkenni árinnar veldur einnig því að svörfun í árbotninum er óvenju lítil. Áin hefur því ekki náð að grafa umtalsverð gil eða gljúfur á leið sinni niður Fljótsdal, nema þar sem hún fellur um þykk setlög neðan við Kirkjufoss. Alls er talið að um 15 fossar, þriggja til þrjátíu metra háir séu í Jökulsá á 20 kílómetra kafla frá Eyjabökkum að Kleif í Fljótsdal, sem munu hverfa verði Jökulsá virkjuð. Auk þess eru á þessari leið fjölmargar flúðir og hávaðar.

Sambærileg fossaröð er fágæt ef ekki einstæð hér á landi.

Samfelld gróðurþekja nær frá Héraðsflóa inn að jökuljöðrum beggja vegna Snæfells og hvergi annars staðar á landinu er að finna sambærilega gróðurhulu frá fjöru til jökla. Þá er algróið land við jökulsporða í miðhálendinu fágætt. Eyjabakkar liggja hærra yfir sjó en svipaðar gróðurvinjar við upptök jökuláa hérlendis, þ.e. í um 650 metra hæð. Gróðurfar er afar fjölbreytt miðað við flest önnur svæði á hálendinu; þar skiptast á votlendi, þurrlendi og bersvæðisgróður ásamt áreyrum og söndum. Mestan svip gefur gróska í votlendi meðfram Jökulsá og eyjum milli kvísla hennar enda er stór hluti Eyjabakka flæðiland en svo nefnist frjósamt votlendi sem ár eða lindir flæmast reglulega yfir. Flæðilönd eru algeng á láglendi en fágæt í hálendinu; þekktast þeirra er Þjórsárver við Hofsjökul sem talið er hafa verndargildi á heimsvísu.

Framrás og hop Eyjabakkajökuls og Brúarjökuls hefur skilið eftir sig jökulgarða sem mynduðust er jökullinn gekk fram á gróið land. Slíkir garðar eru nefndir hraukar og er jarðvegurinn í þeim blandaður jökulruðningi og mjög frjósamur; gróðursæld er því mikil í hraukunum ... Hraukar á borð við þá sem finnast á Eyjabökkum er hér á landi aðeins að finna við jaðra Brúarjökuls, einkum í Kringilsárrana. Líklega eru hraukarnir á Eyjabökkum þeir einu sem hafa orðið til við að jökull gekk út á mýrlendi. Óvíst er hvort sambærileg náttúrufyrirbæri finnast annars staðar í heiminum.``

Herra forseti. Óvíst er hvort sambærileg náttúrufyribæri finnast annars staðar í heiminum. Er það nokkur furða, hv. þingmenn, að fólk vilji staldra við og athuga málið aðeins betur? Það þarf ekki að hafa neina sérfræðiþekkingu til þess að vilja staldra við og kanna málið betur. Maður þarf ekki að kunna lög um umhverfismat út í hörgul til þess að vilja staldra við og kanna málið aðeins betur. Það sér hver skynsöm mannvera.

Í umræðunni fyrr í dag var vitnað í frétt sem birtist í Morgunblaðinu. Það er rík ástæða til þess að vitna til hennar aftur, þó ekki sé nema fyrir Alþingistíðindi, herra forseti. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Snorri Baldursson, doktor í plöntuerfðafræði og framkvæmdastjóri Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF), telur umfjöllun skýrslu Landsvirkjunar um gróður á Eyjabökkum hallast í átt til þess að verið sé að réttlæta framkvæmdina. Hann segir að skýrslan leggi frekar áherslu á það sem er algengt og líkt með öðrum svæðum fremur en að draga fram það sem er sérstakt og einstakt á svæðinu.

,,Í skýrslunni segir til dæmis að á Eyjabökkum sé ekki að finna staði sem séu einstakir í sinni röð hvað varðar gróður, heldur eigi hann sér hliðstæður víða á hálendinu. Þetta má vera rétt ef gróður er skoðaður á einstökum reitum innan svæðisins. Athyglisvert er að ekki er talað um svæðið í heild sinni eða um flæðilönd almennt, sem eru afar sjaldgæf á hálendinu,`` segir Snorri.

Snorri segir að vegna þessa virðist sem mörgum spurningum sé enn ósvarað í skýrslunni hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á gróður. ,,Það hefði þurft að svara því hvar á hálendinu er að finna stórar landslagsheildir sem eru sambærilegar að grósku og í vistfræðilegu tilliti og Eyjabakkar. Eins væri gott að fá að vita hve stórt hlutfall af grónu flæðilandi í yfir 600 metra hæð fer á kaf við þessar framkvæmdir og hvar annars staðar á landinu er að finna samfellt gróðurlendi sem nær alveg frá sjó og upp að jökulsporði. Ég er sannfærður um að ef slíkur samanburður yrði gerður reyndust Eyjabakkar einstakir í sinni röð,`` segir Snorri.``

Þetta er haft eftir Snorra Baldurssyni, doktor í plöntuerfðafræði, í Morgunblaðinu í dag, herra forseti.

[17:30]

Hæstv. forseti. Enn og aftur, er nokkur furða að almenningur vilji staldra við og kanna þessi mál eilítið betur? Nei, herra forseti, það er engin furða.

En víkjum að öðru atriði, sem hefur einnig verið komið að í umræðunni í dag, og það er byggðapólitíkin og atvinnuþróunin. Eins og hæstv. iðnrh. benti á þá er allt undir í þessari umræðu.

Herra forseti. Áhrifa kvennapólitíkur hefur aldrei gætt að neinu marki við mótun byggðastefnu hérlendis og árangurinn verið eftir því. Ég vil sérstaklega þakka hv. þingkonu Frjálslynda flokksins, Bergljótu Halldórsdóttur, fyrir að fjalla um atvinnuþáttinn sérstaklega hvað varðar konur. Hún benti réttilega á hvað hefur gerst á Austurlandi á undanförnum áratugum. Ungu konurnar eru farnar eða á förum. Staðreyndirnar tala sínu máli þar um á hverri blaðsíðunni á fætur annarri í þeim gögnum sem hv. þm. hafa undir höndum nema í samantektarskýrslu Landsvirkjunar.

Þó byggir hún m.a. á ágætri skýrslu Nýsis um hugsanleg samfélagsleg áhrif byggingar og starfsemi álvers í Reyðarfirði. Meðal þess sem einkennir íbúaskiptingu á Miðausturlandi er að fólk á þrítugsaldri er fámennt miðað við aðra aldurshópa, sérstaklega konur á aldrinum 20--24 ára. Í skýrslu Nýsis segir, með leyfi forseta:

,,Fjöldi ungra kvenna virðist yfirgefa svæðið. Þær hafa betri menntun en áður og bestu menntunarmöguleikarnir og flest atvinnutækifærin eru á suðvesturhorni landsins eða erlendis. Þetta hefur orðið meira áberandi á síðustu 5--10 árum. Konur á aldrinum 20--24 ára flytja í mun ríkari mæli burt nú en eldri konur gerðu þegar þær voru á sama aldri.``

Í skýrslunni segir einnig að á vinnumarkaði á Miðausturlandi sé munur á fjölda karla og kvenna í öllum aldurshópum. Konur á aldrinum 15--69 ára hafi 1. janúar sl. verið 12% færri en karlar á sama aldursbili.

Á þessu atriði er hnykkt víðar í skýrslu Nýsis en ekki virðast skýrsluhöfundar Landsvirkjunar telja það umfjöllunarvert.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað hjá starfsmannastjórum álveranna í Straumsvík og á Grundartanga er hlutfall kvenna í starfi hjá þessum tveimur fyrirtækjum 11% í Straumsvík og 12% hjá Norðuráli, 11 og 12%, herra forseti. Það er augljóst, hæstv. forseti, að einnar hugmyndar byggðastefna ríkisstjórnarinnar gengur ekki upp nema hún eigi í rauninni einungis að taka til helmings þjóðarinnar. Við verðum að ætla að svo sé ekki og þá verða menn að gera sér grein fyrir því að við uppbyggingu atvinnu á landsbyggðinni, sem á að miða að því að stöðva fólksflutninga til höfuðborgarsvæðisins, verður að taka konur með í reikninginn, konur á forsendum kvenna og konur sem fullgilda þátttakendur í atvinnulífinu, konur sem fjárhagslega sjálfstæða einstaklinga en ekki viðhengi þeirra karla sem verða hugsanlega ráðnir til starfa í álveri í Reyðarfirði. Kvenmannslaus landsbyggð á enga framtíð fyrir sér.