Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:33:48 (1526)

1999-11-16 17:33:48# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var mjög undarlegt að heyra hv. þm. tala um að stjórnarliðið treysti sér ekki í umræðuna. Hér er einmitt verið að bjóða upp á umræðu um þessi mál með því að færa þetta mál inn í þingið þannig að menn geti tekist á um þau ólíku viðhorf sem eru vissulega uppi. Sú leið sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til er einmitt leið sem kallar á umræðu og gerir mönnum kleift að takast á um þetta mál sem eðlilegt er og lýðræðislegast er.

Virðulegi forseti. Hv. þm. talaði mjög fyrir því að það væri eðlilegt og sjálfsagt og nauðsynlegt að Fljótsdalsvirkjun færi undir umhverfismat. Nú vill svo til að ekki alls fyrir löngu var tekin ákvörðun um að fara í aðra virkjun sem var ekki kallað á að færi í umhverfismat. Það var virkjun á Nesjavöllum. Ástæðan fyrir því að sú virkjun þurfti ekki að lúta umhverfismati var nákvæmlega hin sama og er fyrir því að ekki er þörf á því að fara með Fljótsdalsvirkjun undir umhverfismat. Það er þetta undanþáguákvæði í lögunum um mat á umhverfisáhrifum sem gerir þetta kleift. Niðurstaðan varð sú, og ég vefengi ekki þá niðurstöðu, að þessi virkjun færi ekki í umhverfismat. Virkjunin var unnin og hún er komin í notkun án þess að það kallaði á umhverfismat.

Nú vil ég spyrja: Telur hv. þm. ekki að það væri eðlilegt, úr því að hún er þeirrar skoðunar, að Fljótsdalsvirkjun eigi að fara í umhverfismat, að svo stór virkjun sem hefur vissulega umhverfisleg áhrif, sem er mjög umdeild virkjun á sína vísu, kallaði á miklar umræður af lærðum mönnum á sínum tíma í fjölmiðlum um þessa virkjun? Er þá ekki hv. þm. þeirrar skoðunar að eðlilegt hefði verið af hálfu þeirra sem stóðu fyrir þessum framkvæmdum að óska eftir því að það færi í umhverfismat? Er hv. þm. þeirrar skoðunar að það hafi verið óskynsamlegt að fara í þessa virkjun án umhverfismats?