Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:39:49 (1530)

1999-11-16 17:39:49# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:39]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Umræða um þessa þáltill. hefur um margt verið mjög gagnleg því það er nauðsynlegt að það komi fram og þjóðin geti fylgst með því hvaða málatilbúningur er hér í gangi. Það hefur lengi legið fyrir að fátt er nauðsynlegra og ekki stafar meiri hætta af nokkrum sköpuðum hlut á Íslandi í dag en þeirri miklu röskun á byggð sem á sér stað. Það virðist vera sem engin þau ráð dugi sem við höfum viljað nota og á það við um fleiri lönd en Ísland þó að vandinn sé mjög mikill hér.

Það er því mjög gleðilegt, herra forseti, ef það gæti orðið að veruleika að við gætum farið í að reisa miklar virkjanir og fara í miklar framkvæmdir á Austurlandi. Það liggur ekki fyrir í dag hvort það tekst, það er langt frá því. Við höfum ekki enn þá gert neina þá raforkusamninga sem sanna að það gæti orðið en það er stórkostlegt atriði ef það tekst að byggja upp virkjanir á Austurlandi og stóriðju sem gæti orðið þessum landshluta til gífurlegs styrks. Ég ætla hreint að vona að það verði raunin að okkur takist þetta.

Í umræðunni í dag hefur stjórnarandstaðan verið að kvarta nokkuð yfir því að menn hafi verið að fara langt aftur í tímann. Ég tel samt rétt að fara enn þá lengra aftur í tímann en gert hefur verið því nauðsynlegt er að skoða þessi mál í samhengi.

Strax og fyrstu framkvæmdir við Þjórsá lauk, þ.e. þegar við byggðum Búrfellsvirkjun og fyrsti áfangi álversins í Straumsvík var reistur, hófst umræða um virkjun efri Þjórsár. Í kringum 1969 eða 1970 voru lagðar fram fyrstu áætlanir um nýtingu hennar. Þar var gert ráð fyrir því að mjög stórt lón yrði reist þar ofarlega þar sem heitir Þjórsárver. Gert var ráð fyrir mjög stórri virkjun í efri Þjórsá, virkjun upp á 250--270 megavött.

Þetta stóra lón vakti strax mjög miklar deilur. Það stóðu deilur um þetta meira en áratug. Lónið átti að vera um 80 km2 og hefði sökkt, ef það hefði verið byggt, líklega mestum parti af gróðurlendi Þjósárvera. Það var síðan tíu árum seinna sem tókst að ná verulegri sátt um málið milli þeirra sem vildu vernda Þjórsárver og þeirra sem vildu virkja og við töldum það mjög þjóðhagslega nauðsynlegt að nýta þessa mjög svo stóru virkjun í efri Þjórsá.

Samkomulagið frá 1981, sem Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. hæstv. iðnrh., átti stóran hlut í að ná, gekk út á að í stað þess að byggja þetta stóra lón og í stað þess að byggja þessa stóru virkjun í efri Þjórsá var farið út í að reisa Kvíslárveitur, mjög miklar framkvæmdir sem hafa staðið núna alveg þangað til 1997, að farið var að veita vatni yfir í Þórisvatn og styrkja þannig vatnsganginn og auka þannig rennslið í Tungnaá auk þess sem þá var aðalatriði þessa máls, og aðalatriðið er niðurstaðan, að í stað þess vildu Náttúruverndarsamtök Íslands og allir þeir sem þar að stóðu fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Og það var gengið út frá því þá að við virkjun við norðanverðan Vatnajökul yrði byggt lón á Eyjabökkum.

Það var þá sem þetta kom inn og það var þannig sem samkomulag var gert. Allar framkvæmdir Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu hafa miðað að þessu. Allir stóðu að þessu samkomulagi, ríkisvaldið, Náttúruverndarsamtök Íslands og allir sem komu að því stóðu að samkomulaginu. Það kemur mjög fram í skýrslum Náttúruverndarsamtakanna 1981 að það er einmitt þetta, þó að þeir taki það fram að það sé fórn í því að búa til lón á Eyjabökkum, sé einmitt verið að bjarga Þjórsárverum og það skipti öllu máli. Sama kemur fram í áliti Náttúruverndarráðs 1991, tíu árum seinna. Rökin eru nákvæmlega þau sömu, það er samið um þetta. Þannig standa þessi mál. Samið var um þetta og allar framkvæmdir hafa miðað að þessu. Mjög umfangsmiklar framkvæmdir Landsvirkjunar hafa allar gengið út á þetta.

[17:45]

Það að taka málið núna upp og vera með þennan mikla göslagang út af Eyjabökkum eru náttúrlega bara hrein svik. (Gripið fram í.) Það eru hrein svik að vera nú að berjast á móti Eyjabökkum. Þeir sem voru að friða Þjórsárver sömdu um þetta. Þetta mál er hérna inni svo alþjóð geti vitað um hvað það fjallar og um hvað þetta fjaðrafok er. Þess vegna er mjög gott að það skuli lagt fram þannig að menn geti farið yfir alla þessa hluti.

Ég skal ekkert fullyrða um hvort það hefði verið til langs tíma rosalega mikil fórn fyrir Landsvirkjun að breyta þessu. Það er tilgangslaus reikningur að fara að reikna það út. En við höfum þó í nærri 20 ár verið að fara í þessar miklu framkvæmdir, við höfum verið í Hágöngumiðlun og öllu því sem við höfum verið að gera einmitt til þess að reyna að ná sama árangri og hefði náðst hefði verið farið eftir upphaflegum áætlunum um virkjun Þjórsár. Það er enn þá hægt að virkja Þjórsárver, það er enn þá hægt að byggja stíflu við Norðlingaöldu og ég held að það hljóti að koma til tals ef hér skyldu nú koma fram tillögur til þál. um að friða allt vatnasvæði norðan Vatnajökuls, friða stærsta vatnasvæði landsins um aldur og ævi. Þá held ég að menn hljóti að þurfa að endurskoða það allt ef menn ætla ekki að standa við gert samkomulag.

En ég trúi ekki öðru en að menn ætli sér að standa við gert samkomulag. Ég ætla mönnum ekki annað. Ég tel þetta bara meiningarlaust upphlaup sem sagt er hér í hita leiksins að ætla að fara að friða vatnasvæðið norðan Vatnajökuls.

Það er fullur skilningur á því, held ég, hjá öllum þjóðum að mjög vandfarið er með slíkt uppistöðulón. Það eru víða deilur um það og að sjálfsögðu á að fara varlega. Og vitnisburðinn höfum við hér í bókun Landsvirkjunar, það hefur verið farið mjög varlega, tillit hefur verið tekið til allra þeirra aðila sem hafa gert athugasemdir, það hefur verið farið fram af mikilli varfærni. Það geta menn séð í þeim tillögum sem liggja fyrir. Auðvitað geta menn kannski aldrei orðið á eitt sáttir um hvaða verðmætum á að fórna og hverjum ekki. Það er eðlilegt að menn deili um það. Og þetta verður alltaf deiluefni, það er alveg sama hvaða fífill er í túnvarpanum, menn geta alltaf deilt um hann og það er eðlilegt að svo sé gert.

Það liggur hins vegar fyrir og menn þurfa ekkert að deila um það að þó að vatnsvirkjanir og bræðsla málma sé kannski ekki mesti bisness sem hægt er að gera í heiminum, það er langt frá því, þá kemur það Íslandi mjög vel, kemur íslensku efnahagslífi og uppbyggingu íslensks efnahagslífs mjög vel ásamt öðru. Það hefur gert það á undanförnum áratugum og mun halda áfram að gera það og sú uppbygging mun nýtast Austfirðingum ekki síður en Sunnlendingum. Hún mun verða þeim mikil stoð og stytta þannig að við getum litið allt öðrum augum á framtíðarmöguleika þeirra byggða en við höfum getað gert hingað til.

Ég harma það að þeir sem gera sér grein fyrir því að virkjanir hafa veruleg áhrif á framtíðarþróun Íslands skuli ekki vera sammála um þetta og ganga að því verki vegna þess að það eru ekkert gríðarlega miklir möguleikar á að okkur takist þetta. Það er ekkert í hendi að við getum selt rafmagn, það er langt frá því. Það er því sorglegt að við skulum ekki standa saman að því að reyna að gera þetta og leggja í þetta og treysta á að okkur takist það.

Hinir sem eru á móti því að virkja --- það er náttúrlega ekkert við því að gera, það er bara lífsviðhorf þeirra. Þeir vilja kannski snúa aftur í sauðskinnsskó langömmu sinnar og fara í torfkofana og trúa því að við getum komist af án þess að nýta auðlindir landsins. Þeir trúa því kannski. Í umræðunni í dag var dregin upp hryllingsmynd af því sem gæti gerst á Austfjörðum ef virkja ætti alla þá orku sem þarna er norðan Vatnajökuls, þessa gríðarlegu orku, 800--900 megavött. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði það. Það er ekkert smáræði sem það hefði í för með sér, sagði hún, það þyrfti að grafa skurði, reka niður stálþil, byggja vegi og hús og m.a.s. þyrfti að byggja skóla --- og þá fór nú algjör kuldahrollur um mig yfir slíkri framtíðarsýn. Það er ekkert smáræði sem bíður aumingja Austfirðinganna ef þetta verður að veruleika. Gott að vita til þess að eiga vini í raun sem eru að reyna sitt til að koma í veg fyrir að þessi ósköp dynji yfir þá.

Það eru möguleikar að virkja annars staðar en norðan Vatnajökuls, það er alveg rétt. Við gætum enn þá stíflað við Norðlingaöldu. Við gætum veitt miklu vatni inn í Þórisvatn, tekið það í gegnum allar virkjanirnar sem þar eru, inn í Vatnsfellið og inn í Búðarhálsinn og inn í Sigöldu og Hrauneyjafoss. (Gripið fram í: Gullfoss?) Hann er nú annars staðar, vinur, ef kíkt er kortið. En þessar virkjanir eru við Tungnaá. Það yrði gríðarlegur ávinningur fyrir Landsvirkjun ef við færum út í þær framkvæmdir, mjög mikill. En það yrði hörmulegt ef við færum út í þær núna þegar við eygjum möguleika á að bjarga einum hluta af þeirri landsbyggð sem svo mjög höllum fæti stendur, sem eru Austfirðir, ef við sleppum því tækifæri. Öll landsbyggðin stendur mjög illa, Vesturland og Vestfirðir og Norðurland allt og Austfirðir, standa hörmulega illa. Það verður ömurlegt ef við getum ekki staðið saman um að gera alvörutilraun sem kæmi Austfjörðum vel. Það mundi þjóna öllum tilganginum. Þó að þessi virkjun og þessar framkvæmdir við norðanverðan Vatnajökul hafi fyrst og fremst þjóðhagslegt gildi fyrir framtíðina, fyrir hina óbornu, þá er það bara aukabónus að það komi Austfirðingum vel. Og það er mjög glæsilegt ef það tækist. En það er ekkert í hendi, við skuluð muna það.