Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:52:20 (1531)

1999-11-16 17:52:20# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað í tilefni af orðum hv. þm. varðandi samkomulagið sem gert var við Náttúruverndarráð á sínum tíma, árið 1981. Í mín eyru hefur verið sagt að þetta samkomulag hafi verið knúð fram af miklu afli stjórnvalda í þann tíð. Það eru tæp 20 ár síðan þetta var. Og þá var Náttúruverndarráði gert að skrifa upp á þetta samkomulag sem vitnað er til í þeim plöggum sem hér eru til umræðu. Samkomulagið fól það í sér að Þjórsárverum yrði þyrmt en í staðinn átti Náttúruverndarráð að þegja varðandi Eyjabakka og samþykkja að þeim yrði sökkt undir miðlunarlón. Það gerði Náttúruverndarráð.

En hvernig hefur verið staðið við hinn hluta samkomulagsins, samkomulagið af hálfu stjórnvalda? Hvernig eru Þjórsárver nú stödd? Þau eru, hv. þm., ekki svipur hjá sjón. Með fimmta áfanga Kvíslarveitu hefur vatnsmagnið í verunum minnkað umtalsvert. Og enn er ekki hætt. Sjötti áfangi Kvíslarveitu er eftir. Og náttúrufræðingar segja að það komi til með að ganga að verunum dauðum, það er nú bara ekkert minna en það. Samkomulagið við Náttúruverndarráð hefur verið brotið. Náttúruverndarráð hefur verið svikið, hv. þm.

Það er búið að fremja mörg umhverfisspjöll í nafni virkjana, í nafni framþróunar, í nafni tækniframfara og í nafni þjóðhagslegrar velgengni. Náttúruverndarsinnar hafa bara fengið nóg. Þeir segja: Nú er mál að linni. Við skulum meta virkjanakosti til framtíðar, alla kosti sem við höfum í landinu. Tökum skynsamlega ákvörðun um þetta, ekki hrapa að því að setja Fljótsdalsvirkjun í framkvæmdaferli núna, metum alla kostina, metum hin ósnortnu víðerni, metum þann arð og þann hag sem þjóðin getur haft af þeim.