Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 18:15:58 (1536)

1999-11-16 18:15:58# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Tillagan sem hér er til umræðu snýst um að halda áfram því verki við Fljótsdalsvirkjun sem hófst árið 1991. Það er staðreynd að öll tilskilin leyfi löggjafans eru fyrir hendi til að halda áfram framkvæmdum: löggjöf 1981, samningar árið 1983 og upphaf framkvæmda var í apríl 1991.

Þetta mál er átakamál. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það. Blaðaskrif og umræður um málið hafa verið meiri en um nokkurt mál á seinni árum. Allir stærstu fjölmiðlar landsins hafa lagt sitt lóð á vogarskálina gegn þessum framkvæmdum. Í rauninni snýst þetta mál um hvort fjórða valdið í þjóðfélaginu á að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi. Það er áreiðanlegt að þeir sem stýra fjölmiðlum ætla sér það.

Þetta mál snýst í stórum dráttum um nýtingu auðlinda þar sem gjörólík sjónarmið stangast á. Auðlindir landsins eru í fyrsta lagi fiskimiðin, land og náttúra, orkulindir, mannauður og þekking. Við vitum að fiskimiðin, land og náttúra eru takmörkuð auðlind. Orkan er líka takmörkuð auðlind. Það er ljóst að við verðum að endurskoða orkunýtingu okkar miðað við þau sjónarmið sem nú eru uppi en ég kem að því síðar.

Hér er sett fram krafa undir yfirskriftinni ,,lögformlegt umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun``. En allir vita að önnur krafa býr að baki. Það er allt önnur krafa, (Gripið fram í: Nú?) að hætta við allar virkjanir norðan Vatnajökuls. Það er krafan. (Gripið fram í: Hefur þú ekki hlustað á umræðuna í dag?) Það skiptir engu máli hvaða umræða hefur farið fram hér í dag. (Gripið fram í: Nú?) Þá hafa menn talað gegn betri vitund. Umræðan í þjóðfélaginu snýst um að hætta við þessi virkjunaráform. Kannast menn ekki við það hér? (Gripið fram í: Það virðist ekki vera.) Ég er mjög hissa á því að menn kannist ekki við þá kröfu. Þá hafa menn ekki fylgst mikið með umræðum um málið síðustu mánuðina. (Gripið fram í: ... umræðuna hér í dag, í salnum.) Menn hafa þá talað hér eins og úr fílabeinsturni í dag, ef sú er krafan. (Gripið fram í: Hann talar eins og úr fílabeinsturni.) Ég er mjög hissa á því ef málið er lagt upp með þessum hætti. Þetta er hin raunverulega krafa í málinu.

Umræður um orkunýtingu á Austurlandi hafa staðið í 30 ár. Hv. þm. sem talaði hér á undan mér sagði að við ættum ekkert að flýta okkur í þessu. Þetta er þriggja áratuga umræða sem hér hefur átt sér stað. Nú er verið að reyna að ná samningum um orkuverð við Norsk Hydro, setja af stað áætlun með þeim. Hún byggist á því að orkuafhending verði árið 2003.

Menn halda því fram að í staðinn fyrir nýtingu orkulinda geti megi byggja á mannauði, þekkingu og ferðaþjónustu sem útflutningsgreinum. Ég er alveg sammála þessu í sjálfu sér. Ég geri ekki lítið úr þeim möguleikum sem við eigum í þessum greinum. Hitt er ljóst að farsælast er að atvinnulífið hvíli á sem flestum stoðum. Við vitum að sjávarútvegur og landbúnaður eiga sín takmörk. Við vitum að almennur iðnaður hefur átt erfitt uppdráttar þó betur gangi nú í seinni tíð. Almennur iðnaður hefur hvílt á hinni stóru atvinnugrein sjávarútveginum og iðnaður honum tengdur hefur náð að þróast hér á landi.

Ef ég vík að náttúrufarslegum þætti málsins þá er uppistöðulón á Eyjabökkum forsenda Fljótsdalsvirkjunar. Ég geri ekki lítið úr áhrifum virkjana á land og náttúru. Ég hef aldrei gert það og mér dettur það ekki í hug. Með stíflu mundi mikið stöðuvatn myndast austan Snæfells í skjóli hinna tignarlegu fjalla, í stað flæðilands og árhólma sem eru þar núna. Mannleg athafnasemi hefur ávallt krafist fórna og vissulega er æskilegt að þær fórnir séu sem minnstar en svona er það nú samt. Ég vísa því algjörlega á bug að ég og aðrir sem eru fylgjandi þessari virkjun hafi ekki tilfinningar til náttúrunnar, því fer víðs fjarri.

Hins vegar eru önnur sjónarmið yfirsterkari og gera það að verkum að ég er reiðubúinn að færa þessa fórn. Þau eru í fyrsta lagi hin þjóðhagslegu áhrif sem þessi virkjun hefur. Sú skoðun byggist á áformum um nýtingu orku í stærri stíl og áformum um álverksmiðju á Reyðarfirði. Þetta er landsmál fyrst og fremst og verður til að auka útflutningstekjurnar, í fyrsta áfanga um 13--15 milljarða kr., meira en allur almennur iðnaður í landinu núna. Framkvæmdin veitir atvinnu og örvar fjárfestingar á tíma sem væntanlega fer að draga úr fjárfestingum annars staðar á landinu, á byggingartíma virkjunarinnar og álversins. Þetta skapar ný störf og það er alveg ljóst að við megum ekki sofa á verðinum þó að vel ári í atvinnumálum nú. Fólk kemur út á vinnumarkaðinn og það fækkar í öðrum störfum í öðrum atvinnugreinum af tæknilegum ástæðum, það þekkjum við. Þó að atvinnuleysi sé lítið um þessar stundir þá er ekki þar með sagt að við getum hallað okkur á eyrað og sagt að málum sé borgið um alla framtíð.

Ýmsar fullyrðingar hafa fallið í þessari umræðu. Sagt er að enginn muni fást til að vinna í álveri á Austurlandi, enginn muni flytja þangað til vinnu og byggja eigi upp atvinnulíf á Austurlandi með einhverju öðru. Sagt er að ef þær 3.000 millj. sem varið hefur verið í rannsóknir hefðu verið settar í eitthvað annað þá væri Austfirðingum borgið, álver sé úrelt, erlend og mengandi stóriðja.

Við erum ekki að setja upp álver hér í fyrsta sinn. Hér er reynsla af slíkri starfsemi með tilheyrandi virkjunum. Ég veit ekki betur en að áliðnaður hafi staðið undir iðnaðarframleiðslu í 30 ár á svæðinu frá Straumi og upp að Grundartanga. Ég veit ekki betur en að þetta sé traustur atvinnuvegur og lítil vandamál hafi verið í þjóðfélaginu út af þessari framleiðslu. Vandi hefur ekki risið með starfslið og varðandi mengunarþáttinn eru miklar framfarir í þeim efnum.

Hér er um prófmál að ræða. Málið snýst um hvort byggja eigi allar stórvirkjanir í landinu á eldvirkasta svæði landsins og hvort nota eigi orkuna til uppbyggingar á þéttbýlasta svæði landsins. Það snýst einfaldlega um það.

Hv. 17. þm. Reykv. taldi upp allar þær virkjanir sem eru í farvatninu á þessari eldsprungu. Ég hef ekki orðið var við neinar athugasemdir um það. Ég hef ekki orðið var við að menn hafi krafist þess að staðið væri við samkomulag sem gert var um Þjórsárver á sínum tíma. Ég hef ekkert orðið var við það. Af hverju krefjast menn ekki þess að staðið sé við það? Ég hef ekki heyrt orð um það, ekki frá Náttúruverndarsamtökum Íslands eða nokkrum öðrum.

Fyrir nokkrum árum þegar það var áformað samþykkti hv. Alþingi bara samhljóða að stækka álverið í Straumsvík. Mig minnir að hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi einn verið á móti því en hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í þessu máli í seinni tíð, þó að hann gæfi að vísu virkjunarleyfið á sínum tíma. Það er annar handleggur.

Hið undarlegasta við þetta allt saman, það sem mér líkar verst í þessu máli, er umræða um umhverfismat sem fer fram til að fela hinn raunverulega tilgang þeirra sem um tala, þ.e. að tefja málið og eyðileggja samningana við Norsk Hydro. Það er hinn raunverulegi tilgangur. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn hafa þá ekki hlustað á áróðurinn gegn virkjuninni ef þeir halda að málið snúist um umhverfismat, að það sé sáttarhönd... (ÁRJ: Hv. þm. hefur ekki hlustað á umræðuna í dag.) Það skiptir engu hvaða umræða hefur farið fram hér í dag. Að umræðan hér í dag gangi út á að umhverfismat sé aðalatriðið, það sé sáttarhönd, menn muni sætta sig við að leggja málið í hendur hv. umhvrh. og sætta sig þegjandi við úrskurð hans --- það má segja manni margt.

Þeir sem hafa barist gegn þessu hafa ekki talað um að virkja á Eyjabökkum. Þeir hafa verið að tala um að virkja ekki þar. Það er miklu heiðarlegra að heyja baráttuna á þeim forsendum, að hætta við virkjunina, eins og hinn raunverulegi tilgangur er. Það er boðleg afstaða og hægt að ræða um það. Mér finnst allur þessi málatilbúnaður um umhverfismat --- sem að mestu leyti hefur þegar farið fram --- sérkennilegur, svo ekki sé meira sagt.

[18:30]

Talað er um að ósnortin víðerni muni eyðileggjast. Allir sem farið hafa um þetta svæði vita að þarna eru mikil víðerni sem verða ósnortin þó að þessi virkjun verði reist og það þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Byggðaþátturinn er viðbótarþáttur í málinu og ég ætla ekki að ræða hann enda tíminn búinn nema ég taki til máls aftur í málinu. Byggðaþátturinn og það sem snýr að okkur Austfirðingum kom í rauninni fram í hnotskurn í máli hv. 5. þm. Austurl. áðan þar sem hann sagði að hann væri ekki með atvinnufyrirtæki uppi í erminni enda ekki hlutverk sitt. Það er enginn með nein atvinnufyrirtæki uppi í erminni til að rétta Austfirðingum enda þurfa Austfirðingar ekki á því að halda ef þessi áform ganga fram því að Austfirðingar eru með mörg járn í eldinum í atvinnumálum og það er engin eymd þar fram undan ef menn fá að nýta auðlindir sínar.