Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 18:33:28 (1538)

1999-11-16 18:33:28# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[18:33]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. talar um sáttarhönd og að þessi tillaga sé þá sáttarhöndin. Hv. þm. mun þá væntanlega samþykkja þessa tillögu. En ef það er eitthvað annað þá hefur það farið fram hjá mér. Auðvitað er þessi tillaga sáttarhönd, ég er sammála iðnrh. í því. Hún er lögð fram til að taka af allan vafa um að þingið sé fylgjandi málinu. Hið lögformlega umhverfismat er sett fram undir því yfirskini að tefja málið og vinna tíma til að koma í veg fyrir þessar framkvæmdir allar. Það er hinn raunverulegi tilgangur. Það er alveg sama hvað menn spjalla um sáttarhendur í umræðunni í dag sem ég gat því miður ekki vegna annarra starfa komið til fyrr en um miðjan daginn. En ég heyri að það er aðalröksemdin í málinu og það sem hv. stjórnarandstæðingar grípa til varnar að ég hafi ekki verið við umræðuna fyrri partinn. Ég þekki málið alveg þokkalega vel og það er alveg ljóst að hvað sem hefur verið talað í dag um málið þá er þetta hinn raunverulegi tilgangur.