Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 18:36:21 (1539)

1999-11-16 18:36:21# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Aðeins fyrst vegna orða hv. þm. Jóns Kristjánssonar sem kemur inn í umræðuna eins og maður sem er að falla af tunglinu, þá er það nú þannig að ég og við hér fleiri hittum fólk sem segir að það hafi svo sem ekki gert það upp við sig hvaða skoðun það ætli að hafa á virkjun eða álveri fyrir austan en vilji að þessi framkvæmd fari í mat. Vill að það sé framkvæmt og vill að málið sé skoðað betur.

Það getur vel verið að hv. þm. Jón Kristjánsson og einhverjir fleiri haldi að undirhyggja manna sé svo mikil, almennings úti í bæ, að hann sé að gera sér upp þessar skoðanir þegar hann hittir okkur. En ég held að svo sé ekki, ég held að það sé miklu meira á bak við þetta.

Sú skoðanakönnun sem stjórnarliðar hafa verið að vitna í hér í dag sýnir m.a. það, ekki síst ef hún er borin saman við aðrar skoðanakannanir, sem hafa verið birtar að undanförnu, að fólk er ruglað og það er verið að rugla það. Mér finnst því ekki skrýtið þó að fólk segist vilja fá mat, vilja að þessi framkvæmd sé metin. Það er ekki aðferð þessa fólks til að spilla fyrir framkvæmdinni, það er einfaldlega að biðja um betri upplýsingar, áreiðanlegri upplýsingar vegna þess að lögin um mat á umhverfisáhrifum voru m.a. sett til að koma í veg fyrir að mál enduðu í sjálfheldu í pólitísku þrátefli inni á Alþingi þar sem skilaboðin eru mjög óljós og alls ekki þannig að almenningi úti í bæ finnist að þeim sé treystandi.

Þetta mál snýst samkvæmt heiti sínu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Í texta tillögunnar er jafnframt vikið að álveri í Reyðarfirði og eins og kom fram í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur fyrr í dag er þá að líkindum verið að tala um 480 þús. tonna álver. En hvað sem þessum efnisatriðum líður snýst þetta mál, eins og það er fram sett, fyrst og fremst um formsatriði. Hvaða formsatriði skyldu það nú vera?

Samkvæmt því sem kemur fram í athugasemdum við þáltill. er það mat ríkisstjórnarinnar að það sé eðlilegt, og nú vitna ég beint, með leyfi forseta, ,,að í ljósi breyttrar skipunar Alþingis frá því að lagaákvæði um virkjunina komu síðast til kasta þingsins, að Alþingi taki í formi þingsályktunar afstöðu til framhalds virkjunarframkvæmdanna.``

Samkvæmt þessu, herra forseti, er hér um formsatriði að ræða og af þessu má ráða að stjórnvöld eru jafnvel ekki eins örugg með eigin túlkun og látið er í veðri vaka því það er sannarlega óvenjulegt að ákvörðun sem stjórnvöld telja þegar tekna, klappaða og klára, sé aftur borin undir Alþingi. Alþingi hefur leyft Fljótsdalsvirkjun án umhverfismats, sagði umhvrh. hæstv. í umræðunni fyrr í dag en samt á Alþingi aftur að taka ákvörðun af því að skipan þingsins hefur breyst í millitíðinni.

Eiga þetta að verða viðtekin vinnubrögð á hinu háa Alþingi, herra forseti? Á það að verða fastur liður eða fast verkefni hvers nýkjörins Alþingis að staðfesta áður gerðar samþykktir Alþingis? Nei, auðvitað ekki. Framlagning þessa þingmáls er fyrst og fremst vitnisburður um að í raun telja stjórnvöld vafa leika á um réttmæti ákvarðana sinna og telja vissast að taka málið fyrir aftur og það eru þau sem hafa kallað þetta sáttargjörð. Sáttargjörð vegna þess að vissulega er ósátt um málið, m.a. vegna þess að svo margir telja að framkvæmdina eigi að setja í mat.

Hv. þm. Jón Kristjánsson gerði mikið úr því áðan að þeir sem vildu setja framkvæmdina í mat væru í raun gegn framkvæmdum. Ég vil hins vegar segja við hv. þm. um það sem hann segir hér að ef mér þætti jafnvænt um þessar framkvæmdir, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. þyki, væri mér nokkuð í mun að þessar framkvæmdir færu í mat, einfaldlega vegna þess að ég óttast og mundi óttast, ekki síst í sporum hv. þingmanna sem þykir vænt um framkvæmdirnar, væntanlegu eða hugsanlegu, að ef svo fer fram sem horfir, ef ekki er reynt að ná sáttum við þjóðina með því að fara að þeim leikreglum sem þjóðin telur að eigi að fara, muni deilur um framkvæmdirnar enn harðna. Ef deilur harðna þá mundi ég óttast að einhverjir þeirra fjárfesta sem hafa verið að gera sig líklega til að taka þátt mundu hrökkva frá. Ef það gerist hér, sem hefur gerst víða erlendis, að menn fari á vettvang og reyni með nærveru sinni og návist að koma í veg fyrir framkvæmdir, ég tala ekki um ef það verður fjölþjóðlegt sjónvarpsefni eða fjölmiðlaefni, þá mundi ég óttast að ekkert yrði úr framkvæmdum þegar til kastanna kemur. Þess vegna hefði mér fundist að það væri þeirra sem þykir vænt um þessa framkvæmd að biðja um að farið yrði að leikreglum til að það væri þá a.m.k. hægt að segja við þjóðina, hver svo sem niðurstaðan verður, hér fórum við að leikreglum, þetta er niðurstaðan.

Herra forseti. Það er bagalegt að það skuli geta orkað tvímælis hver meðferð mála á að vera eins og í þessu tilfelli. Til að öllum vafa um réttarstöðu virkjanaleyfa sé eytt þá flytja þingmenn Samfylkingarinnar frv. til laga um það að til að öðlast framkvæmdaleyfi til virkjana á þeim stöðum sem hafa nú þegar virkjanaleyfi skuli viðkomandi framkvæmd fara í umhverfismat samkvæmt gildandi lögum áður en framkvæmdaleyfi fæst. Þetta er betri aðferð, herra forseti, en sú að láta Alþingi endurtaka fyrri ákvarðanir ef upp koma deilur eða að framkvæma sýndarmat á umhverfisáhrifum eins og nú er að fara í gang.

Ég vil vitna til þess sem hér hefur komið fram í umræðunni að sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur ekki svarað leyfisbeiðni Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi þó að sú beiðni hafi verið ítrekuð.

En ég vil líka, herra forseti, víkja að umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóv. sl. þar sem fjallað var um viðhorf Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings um skyldu íslenskra stjórnvalda hvað varðar umhverfismat. Hún telur, herra forseti, eðlilegt að skipulagsstjóri ríkisins krefist þess af framkvæmdaaðila að umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar verði metin á formlegan hátt í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. En Aðalheiður þessi starfaði sem lögfræðingur í umhvrn. um tíma og tók m.a. þátt í að semja frv. sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hún telur að láta verði á það reyna fyrir íslenskum dómstólum hvort einstaklingar eða lögaðilar á Íslandi eigi rétt á að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði metin samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, m.a. svo þeir geti nýtt sér þau réttindi sem matsferlið færir þeim.

Stjórnvöld hafa skýrt lögin um mat á umhverfisáhrifum með þeim hætti að Fljótsdalsvirkjun sé ekki matsskyld samkvæmt þeim. En nefnd Aðalheiður segir að slík túlkun á lögunum standist varla viðeigandi tilskipanir Evrópusambandsins og það sé hæpið að hún standist íslensk lög. Hún segir jafnframt að helstu rökin fyrir því að umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar ættu að vera metin formlega í samræmi við lög séu í fyrsta lagi það sem fram hefur komið, að virkjunarleyfi Fljótsdalsvirkjunar geti ekki verið túlkað sem endanlegt leyfi þar sem framkvæmdaleyfi liggur ekki fyrir, og lá ekki fyrir þegar EES-samningurinn tók gildi. Hún telur að ekki sé rétt að halda því fram að virkjunarleyfi geti með einhverjum hætti gengið framar öðru leyfi eða leyfum sem þurfi einnig að liggja fyrir samkvæmt íslenskum lögum, í þessu tilviki framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem enn er óútgefið.

[18:45]

Ég held, herra forseti, að skoða verði þessa hluti betur en gert hefur verið. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin er í varnarstöðu. Uppsetning greinargerðarinnar sýnir að þar er reynt að setja fram varnir gegn þeirri gagnrýni sem fram hefur komið. Einnig kemur fram að málið virðist rekið af eins konar nauðung, aðallega af ótta við skaðabótakröfur af hálfu Landsvirkjunar. Þannig segir í texta athugasemda við þáltill. á bls. 1, þar sem fjallað er um skort á heimildum framkvæmdarvaldsins til að ákveða einhliða að beita um Fljótsdalsvirkjun ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, með leyfi herra forseta:

,,Leiða hvorki ákvæði íslenskra laga né þjóðréttarskuldbindingar, sem Ísland hefur undirgengist, til þeirrar niðurstöðu að slík ákvörðun verði tekin. Fyrir lagabreytingu í þeim efnum er ríkisstjórnin ekki reiðubúin til að beita sér, enda kynni slík lagasetning að hafa í för með sér bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart virkjunaraðilanum.

Þá skortir framkvæmdarvaldshafa lagaheimildir til þess að breyta eða afturkalla einhliða og í andstöðu við vilja virkjunaraðila þær heimildir sem veittar hafa verið til virkjunar Jökulsár í Fljótsdal. Það verður einungis gert með lögum frá Alþingi. Fyrir slíkri lagasetningu er ríkisstjórnin ekki heldur reiðubúin að beita sér, enda næsta víst að lagasetning í þeim efnum færi í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og hefði í för með sér bótaskyldu ríkissjóðs eins og síðar verður rakið.``

Herra forseti. Þetta er dálítið merkilegur rökstuðningur, að menn skuli flæmast áfram í framkvæmdum sem þeir virðast annars vera óvissir um að ýmsu leyti og raunar vandséð á hverju Landsvirkjun ætti að byggja skaðabótakröfur sínar. Til dæmis hlýtur það að ráðast af þeim aðgerðum sem stjórnvöld ákvarða. En fleiri gætu gert skaðabótakröfur en hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun, stjórnvöld virðast ekki hafa sömu áhyggjur af þeim, en þar á ég við almenning í landinu sem þykist með ákvörðun stjórnvalda svikinn um þann andmæla- og umsagnarrétt sem lögin um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir.

Ég vil aftur, herra forseti, leyfa mér að vitna í Aðalheiði Jóhannsdóttur sem segir í nefndri Morgunblaðsgrein að rétt sé að hafa í huga að EFTA-dómstóllinn hafi viðurkennt að EES-samningurinn sé milliríkjasamningur sem hafi mikla sérstöðu umfram aðra milliríkjasamninga: ,,Samningurinn hefur meðal annars þá sérstöðu að ef ríki, t.d. Ísland, tekur ákvæði tilskipunar ekki inn í landsrétt eða tekur þau inn á rangan eða ófullnægjandi hátt, getur það bakað ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart einstaklingi eða lögaðila sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er ekki hægt að líta fram hjá þessu og því væri langeðlilegast að einnig yrði látið á það reyna fyrir íslenskum dómstólum, hvort einstaklingar eða lögaðilar á Íslandi, eigi rétt á að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði metin samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum, m.a. svo að þeir geti nýtt sér þau réttindi sem matsferillinn færir þeim.``

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi fram við þessa umræðu svo menn átti sig á að málið er mjög flókið. Þó að ríkisstjórninni takist að fá málið sem hér liggur fyrir samþykkt og frágengið fyrir jól, eins og forstjóri Landsvirkjunar óskar eftir, er ekki þar með sagt að málið sé í höfn, vegna aðferðarinnar sem stjórnvöld hafa valið. Mér finnst nefnilega að stjórnvöld séu búin að klúðra þessu máli.

Það er alltaf vont að þurfa að tala í þáskildagatíð um það sem er til umfjöllunar. Ég verð samt að segja að auðvitað hefði átt að fara að tillögu þáv. umhvrh. Guðmundar Bjarnasonar, sem hann setti fram fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári, um að Fljótsdalsvirkjun færi í umhverfismat samkvæmt lögum þar um. Hefði það verið gert þá værum við í betri málum núna. Það væru meiri líkur til að nokkur sátt næðist um framkvæmdir, þá væri hægt að fullyrða að farið hefði verið að leikreglum.

Það er einmitt svo vont við þetta mál að stjórnvöld geta ekki haldið því fram á sannfærandi hátt að rétt sé farið að. Ef sannfæring þeirra væri sú þá væri þetta þingmál ekki á dagskrá Alþingis. Til að réttlæta málið enn frekar er settur byggðaprófíll á það, af því að staða byggðanna sé svo erfið má ekki fara fram á að farið verði að lögum um umhverfismat. Sagt er að þeir sem krefjist þess séu á móti landsbyggðinni, að þeir sem vilja umhverfismat samkvæmt lögum í stað pólitískra deilna á Alþingi --- en lögin áttu eins og ég sagði áðan að koma í veg fyrir slíkt þrátefli --- sýni byggðafjandsamleg viðhorf. Ja, svei skítalykt, hefði nú einhvern tíma verið sagt af minna tilefni í minni fjölskyldu.

Það er laukrétt sem hv. þm. Bergljót Halldórsdóttir sagði hér fyrr í dag, að með svona málflutningi er sannarlega verið að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Það er ekki til þess að bæta stöðuna, herra forseti. Menn reyna að halda því fram að þeir sem vilja að virkjunin fari í umhverfismat samkvæmt lögum, séu að dulbúa aðferð til að koma í veg fyrir framkvæmdir. Það er ekki rétt.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt hér fram brtt. við tillögutextann. Mér finnst sá tillögutexti býsna ljós og aðdróttanir um að menn séu hér að dulbúa aðferðir til að koma í veg fyrir framkvæmdir ekki réttmætar ef sýna á sanngirni.